Á ferðinni Það er munur að geta farið út að keyra með fjögur börn í einu enda skemmta allir sér konunglega.
Á ferðinni Það er munur að geta farið út að keyra með fjögur börn í einu enda skemmta allir sér konunglega. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Foreldrafélag Leikskála, leikskólans á Siglufirði, færði leikskólanum nýverið kerru að gjöf.

Foreldrafélag Leikskála, leikskólans á Siglufirði, færði leikskólanum nýverið kerru að gjöf. Þetta er engin venjuleg kerra á fjórum hjólum heldur þriggja hjóla tryllitæki, sem tekur fjögur börn og auðveldar starfsmönnum að fara í göngutúr með yngstu börnin.

Kerruna smíðuðu þeir félagar Skarphéðinn Fannar Jónsson og Heimir Birgisson, sem báðir vinna á SR Vélaverkstæði á Siglufirði, eftir að ljóst var að hvergi var hægt að kaupa tæki sem tæki fjögur börn.

Sprenging í fæðingum

„Það var sprenging í fæðingum hérna í fyrra, fleiri börn eru því á leikskólanum nú en venjulega og þörfin meiri fyrir barnakerrur,“ segir Skarphéðinn Fannar. Hann segir að eftir „barnasprengjuna“ hafi foreldrar í foreldrafélaginu farið á stúfana til þess að finna svona kerrur en alls staðar komið að tómum kofunum. „Það virtist hvergi vera hægt að kaupa svona kerrur og þá var farið að athuga hvort einhver gæti ekki smíðað svona grip. Við létum plata okkur í þetta.“

Félagarnir, sem báðir eru fjögurra barna feður og eiga börn í leikskólanum, annar tvö og hinn eitt, höfðu engar beinar fyrirmyndir að verkinu en studdust við erlendar ljósmyndir af barnavögnum.

„Við fengum að nota aðstöðuna í vinnunni og dúlluðum við þetta með íhlaupum í frítímanum,“ segir Skarphéðinn. Hann bætir við að sambærilegar kerrur séu verksmiðjuframleiddar úti í heimi en þær séu ekki eins, þó þær taki fjögur börn. „Okkar kerra er af sömu breidd og venjulegar barnakerrur og kemst því í gegnum allar dyr,“ segir hann.

Ekki er komin mikil reynsla á kerruna en starfsfólkið á leikskólanum er byrjað að nota hana og rúnta með krakkana. Skarphéðinn segir að reynslan skeri úr um hvort þeir haldi áfram á sömu braut. „Við sjáum til hvernig þetta gengur en við erum ekki enn farnir að markaðssetja kerruna.“ steinthor@mbl.is