Á næstu svölum stóð maður á fimmtugsaldri, með ístruna út í loftið og á nærbuxunum einum fata. Boxer-nærbuxum? Nei. Það var ekki svo gott.

Ég sakna nágranna minna. Ekki vegna þess að við vorum þessir fullkomnu nágrannar sem höfðu fundið leið til að lifa í takt, lána hvert öðru mjólkurpott, spjalla saman um lífið og tilveruna eða áttum í leynilegu ástarsambandi.

Það var sunnudagskvöld. Ég var að þurrka síðasta diskinn eftir uppvaskið þegar fagurt gítarspil heyrðist í fjarska og lykt af grilluðu kjöti barst inn um opnar svaladyrnar. Ég leit upp, skimaði út um gluggann og hjartað tók aukaslag.

Á næstu svölum stóð maður á fimmtugsaldri, með ístruna út í loftið og á nærbuxunum einum fata. Boxer-nærbuxum? Nei. Það var ekki svo gott. Hér var um að ræða Speedo-nærbuxur sem máttu muna fífil sinn fegurri. Ekki það að ég hafi horft lengi samt. Eða fært mig nær glugganum til að sjá betur. Þvert á móti. Nágranninn mundaði grilltöng, nældi sér í vænlegan bita af grillinu og skellti á disk.

Við hlið hans stóð myndarlegur ungur karlmaður, líklega sonur hans, og ekki var hann mikið meira klæddur. Hann sá þó sóma sinn í því skýla sér með lúnum kassagítar sem gaf frá sér ljúfa tóna. Nú var mér allri lokið. Átti svona að líðast í friðsæla hverfinu mínu í Kópavogi?

Þegar ég hafði loks tekið mig taki og jafnað mig á þessari óvæntu árás á friðsæla sunnudagskvöldið mitt, ákvað ég að líta upp til að vera viss um að þetta hefðu ekki bara verið ofsjónir. Nei, svo var ekki. Þarna stóðu hinir meintu feðgar og nú brostu þeir og veifuðu til mín. Ég kreisti fram vandræðalegt bros, skellti fram hendinni í von að það skildist sem vinalegt veif til baka og flýtti mér að draga fyrir gluggann til að þurfa ekki að sjá meira af þessari undarlegu samkomu.

Ég var lengi að jafna mig á þessum óvænta fundi mínum við þessa léttklæddu menn en herti loks upp hugann og þorði að draga gardínurnar upp til hálfs á kvöldin.

Það var ekki fyrr en þeir fluttu nýlega og kappklædd kona kom í staðinn að ég áttaði mig á því hversu tómlegt líf mitt er án þeirra og hversu mikið þeir kenndu mér. Maður getur notið þess að vera til, hvort sem maður er dúðaður í úlpu eða á nærbuxunum einum fata. Kuldi er bara hugarástand.

Lára Halla Sigurðardóttir larahalla@mbl.is

Höf.: Lára Halla Sigurðardóttir larahalla@mbl.is