Árni Valur Vilhjálmsson er 32 ára gamall Akureyringur. Hann segir ástæðuna fyrir veru sinni á Grænlandi, þar sem hann býr einn í húsi í Kap Tobin, vera leit að rótunum. Hann vill endurvekja tengslin við náttúruna og þar af leiðandi sjálfan sig.

Árni Valur Vilhjálmsson er 32 ára gamall Akureyringur. Hann segir ástæðuna fyrir veru sinni á Grænlandi, þar sem hann býr einn í húsi í Kap Tobin, vera leit að rótunum. Hann vill endurvekja tengslin við náttúruna og þar af leiðandi sjálfan sig.

„Það vantaði eitthvað í líf mitt, ég bjó við öll helstu þægindi, á hús og bíl og hafði í raun allt til alls heima á Íslandi en Grænland togaði í mig og ég vissi að svarið er einhverra hluta vegna að finna hér í Scoresbysundi. Lífið er leit að svari. Að vera mátulega jákvæður og sáttur við sjálfan sig er nokkurn veginn lykillinn að góðu lífsjafnvægi. Ég tel að við séum að missa tengslin við móður náttúru og ég var bara á þannig stað í mínu lífi að ég var algjörlega kominn úr tengslum við þetta afl – ég er í raun í leit að næsta stökki í minni persónulegu þróun.

Ég vildi prófa þetta líf sem er stundum svolítið erfitt, það þarf að hafa fyrir því að lifa hér á Grænlandi. Ég vildi sjá úr hverju ég er gerður, styrkja vináttubönd við heimamenn og finna hvort ég gæti höndlað þetta, líkamlega og andlega. Það kom mér á óvart hvað myrkrið getur haft neikvæð áhrif á mann, það er mér augljóst að líkaminn þarf sólarljós, án þess virðist líkamsklukkan hreinlega brenglast og að einhverju leyti hugurinn einnig, allavega fyrir svona hvítingja eins og mig. Hér gætir stundum þunglyndis í þorpinu yfir dimmustu mánuðina, en sólin kemur alltaf upp aftur og þá léttir yfir fólki.“

Náttúran í sinni stórbrotnustu mynd

Árna þykir grænlenska náttúran stórkostleg. „Fjöllin og Scoresbysundsfjörðurinn, sem er lengsti fjörður í heimi, er einhver sá stórkostlegasti sem hægt er að hugsa sér. Ég er hér á vegum ferðaskrifstofunnar Nonni Travel og fer með þá sem vilja koma hingað og kynnast náttúrunni í sinni stórbrotnustu mynd í dagsferðir eða lengri ferðir, þar sem ýmist er gist í veiðikofum eða tjöldum. Við ferðumst annaðhvort á vélsleða eða hundasleða og svo á bát á sumrin eða fótgangandi. Við förum alltaf nokkrir saman og það er fyllsta öryggis gætt í okkar ferðum. Það væri gaman að geta aukið ferðamennsku inn á svæðið, sem er eitt það stórkostlegasta sem hægt er að komast í, og er öllum ógleymanlegt sem hingað koma. Það eru uppi hugmyndir um að fólk geti komið í ljósmyndaferðir, þá yrðu til myndir sem allir vildu hafa tekið.“

Landið togar í mann

Árni kveðst stundum skynja að hér sé eitthvað yfirnáttúrlegt, eitthvað sem erfitt er að útskýra. Náttúran og aflið í landinu sé alveg einstakt. Hingað kom hann fyrst tíu ára gamall með móður sinni og manni hennar, Sigurði Aðalsteinssyni, og ekki varð aftur snúið. „Landið togar í mann, talar við mann.“

Árni var eitt sinn á ferð með Ole. Þeir ákváðu að fara á vélsleðum 200 km inn í fjörðinn til að skoða jökulsvæði sem mjög fáir höfðu komið á. Árni var eitthvað illa fyrirkallaður og ósáttur við sig þegar ferðalagið byrjaði. Hafði verið að þrasa við einhvern og sá eftir því. Eftir margra klukkutíma ferðalag komu þeir að ströndum Milne Lands-eyju og var strax byrjað að leita að réttri leið upp jökulinn til þess að þeir gætu komist upp á topp Milne Lands. En fljótlega byrjaði sleðinn hjá Árna að verða til vandræða og hann varð að nema staðar til að reyna að gera við sleðann. „Ole hafði farið aðeins á undan mér og ég hafði stoppað í þröngu gili og var að gera tilraun til að laga sleðann minn þegar ég heyrði í fjarska þennan fallega söng óma yfir mér. Í fyrstu hélt ég að um væri að ræða hringingu úr síma en ég vissi samt að það væri ómögulegt enda var ekkert símasamband á þessu svæði og hvorugur okkar með síma. Ég leit upp í kringum mig og sá ekkert. Ákvað bara að leiða þetta hjá mér og hélt áfram að brasa við sleðann. Þá byrjaði söngurinn aftur og að þessu sinni var hann mun nær og greinilegur, á tímabili þorði ég ekki að líta upp því mér fannst þetta vera svo nálægt. Þegar söngurinn var eins og kominn alveg að mér leit ég snöggt við – þar var enginn. Ég skimaði fjallstindana í kringum mig en án árangurs. Svona gekk þetta í nokkrar mínútur. Síðan hætti söngurinn og um svipað leyti kom Ole aftur. Ole þótti ég frekar skrýtinn á svipinn og ég sagði honum hvað hefði gerst. Ole svaraði því til að ég hefði heyrt í verndurum dalsins sem væru að segja mér að hreinsa hug minn og hætta að hafa áhyggjur – „slepptu þeim!“ Eftir það leið mér miklu betur og þunginn hvarf úr huga mér og ég gat loksins notið náttúrunnar eins og njóta á hennar.“

Það styttist í veru Árna á Grænlandi þegar ég var hjá honum. „Ég kem heim til Íslands sem sterkari maður með hreinan huga og reynslu sem ég mun búa að alla ævi.“