Bogi Jóhann Bjarnason fæddist á Neðra-Hóli í Staðarsveit 2. júlí 1919. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík 18. september 2013.

Foreldrar Boga voru Bjarni Jóhann Bogason, bóndi á Neðra-Hóli, f. 10. júlí 1881 í Syðri-Tungu í Staðarsveit, d. 14. maí 1937, og kona hans Þórunn Jóhannesdóttir, f. 22. sept. 1899 í Lambhaga í Kjós, d. 9. apríl 1986. Systkini Boga voru þrjú, Sveinbjörn, Guðrún og Páll Steinar og er Páll Steinar sá eini sem eftir lifir.

Hinn 19. desember 1947 kvæntist Bogi konu sinni, Erlu Sveinu Jórmundsdóttur, f. 19. desember 1924, d. 3. september 2009. Þau eignuðust þrjú börn: 1) Bjarni Jóhann, f. 25. febrúar 1949, maki Kolbrún Snæfeld, þau eiga tvö börn og eitt barnabarn. 2) Guðný, f. 6. apríl 1955, á hún tvö börn. 3) Þórður, f. 1. desember 1959, maki Elín H. Ástráðsdóttir, þau eiga fjögur börn. Afabörnin eru átta og langafabarnið eitt.

Bogi hóf störf hjá lögreglunni 1946, var skipaður varðstjóri 1963 og síðan aðalvarðstjóri 1976 og lauk störfum vegna aldurs 1. janúar 1990. Einnig stundaði Bogi ökukennslu í frítímum frá 1950 til 1980. Hann hafði yfirumsjón með vörslu borgarlands 1976-1990. Bogi sá svo um rekstur bifreiðaverkstæðis lögreglunnar frá 1976 til 1990. Bogi var virkur í félagsmálum, gekk í Oddfellowregluna, var í stjórn lögreglufélagsins, formaður Lögreglukórs Reykjavíkur, varaformaður landssambands lögreglumanna, í stjórn BSRB, varaformaður Sjálfstæðisfélags Hlíða- og Holtahverfis, varamaður í sáttanefnd Reykjavíkurborgar, formaður Félags Snæfellinga og Hnappdæla og fleira.

Útför Boga fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 27. september 2013, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku afi.

Eins erfitt og það er að kveðja þig vitum við þó að þú tekur því fagnandi að komast til ömmu og hvílast.

Þú varst svo góður afi og þær óteljandi stundir sem við áttum með ykkur eru ógleymanlegar. Hjá ykkur var alltaf einhver ólýsanleg ró og tíminn leið öðruvísi með ykkur en annars staðar. Þið kennduð okkur svo margt, um allt á milli himins og jarðar.

Þolinmæðin sem þú sýndir okkur alltaf var ótrúleg og alltaf var nógur tími til þess að svara þeim óteljandi spurningum sem lágu á okkur systkinunum. Í okkar huga var vart til sú spurning sem þið höfðuð ekki svarið við.

Við erum ykkur óendanlega þakklát fyrir allt. Minningarnar eru okkur dýrmætar og ykkur verður aldrei gleymt. Betri afa og ömmu er ekki hægt að ímynda sér.

Hvíldu í friði, elsku afi, við vitum að þú kyssir ömmu frá okkur.

Á litlum skóm ég læðist inn

og leita að þér, afi minn.

Ég vildi að þú værir hér

og vært þú kúrðir hjá mér.

Ég veit að þú hjá englum ert

og ekkert getur að því gert.

Í anda ert mér alltaf hjá

og ekki ferð mér frá.

Ég veit þú lýsir mína leið

svo leiðin verði björt og greið.

Á sorgarstund í sérhvert sinn

ég strauminn frá þér finn.

Ég Guð nú bið að gæta þín

og græða djúpu sárin mín.

Í bæn ég bið þig sofa rótt

og býð þér góða nótt.

(S.P.Þ.)

Erla Björk og Einar Björn.

Hvað bindur vorn hug við heimsins glaum,

sem himnaarf skulum taka?

Oss dreymir í leiðslu lífsins draum,

en látumst þó allir vaka,

og hryllir við dauðans dökkum straum,

þó dauðinn oss megi ei saka.

(Einar Benediktsson)

Já flesta hryllir við nærveru dauðans, en stundum kemur hann eins og góður vinur og frelsar okkur frá langvinnum þrautum og þá getur honum fylgt léttir.

Í dag kveðjum við háaldraðan mág minn, Boga Jóhann Bjarnason, sem kveður eftir langan og athafnasaman ævidag og að lokum langvinn veikindi.

Ég var kornung þegar ég hitti hann fyrst, hafði kynnst yngri bróður hans og við hugðum á að rugla saman reytum. Bogi tók mér strax ljúflega eins og við mátti búast. Hann var mér alltaf eins og stóri bróðir, bættist í bræðrasafn mitt, en ég átti átta bræður fyrir. Alla ævina upp frá því vorum við mestu mátar. Það var alltaf hægt að leita til hans ef maður þurfti á aðstoð að halda.

Hann fæddist í Neðri-Hól í Staðarsveit árið 1919, elsti sonur hjónanna Þórunnar Jóhannesdóttur og Bjarna Jóhanns Bogasonar sem þar bjuggu þá í sambýli við foreldra Bjarna.

Lífið tók fjölskylduna í Neðri-Hól ekki mjúkum tökum, eina systirin lést kornung af kíghóstanum, heimilið brann til ösku og eldurinn skildi ekkert eftir. Heimilisfaðirinn lést svo meðan yngri drengirnir tveir voru á barnsaldri en Bogi unglingur. Það kom því í hans hlut að aðstoða móður sína við búskapinn ásamt bræðrum sínum. Hann fór fljótlega suður til að vinna. Fyrst til sjós en lengst af í lögreglunni. En kannski blundaði í honum bóndi. Að minnsta kosti kom hann sér upp dálitlum gróðrarreit í Hamrahlíðinni og þar átti fjölskyldan margar góðar stundir. Þar ræktaði hann bæði matjurtir, tré, runna og annan gróður. Þangað komum við oft til þeirra og nutum náttúrunnar með þeim.

Hann kvæntist Erlu Jórmundsdóttur og þau hófu búskap í Reykjavík. Þau reistu sér fljótlega hús við Eskihlíð og vann Bogi þar flest verk í frístundum sínum. Hann vann auk þess alla aukavinnu sem hann gat tekið að sér milli vakta hjá lögreglunni. Á þessum árum byggðu menn húsin sín að miklu leyti sjálfir.

Bogi var ákaflega traustur og duglegur og honum voru falin mörg verk, bæði í tengslum við vinnuna og ýmis félagsstörf.

Á yngri árum starfaði hann mikið með Ungmennafélaginu í Staðarsveit og var meðal annars formaður þess um tíma. Þá lék hann stundum á harmónikku á dansleikjum í Hofgörðum. Seinna var hann formaður Félags Snæfellinga og Hnappdæla í Reykjavík í mörg ár. Á þeim árum fór hann oft með hópa á vegum Snæfellingafélagsins til sólarlanda. Þar var Bogi í essinu sínu, alltaf hrókur alls fagnaðar, umkringdur vinum og kunningjum og eigum við hjónin margar góðar minningar frá þeim tímum.

Þessi fáu orð mín eiga ekki að rekja allan hans æviferil. En þau eiga að vera smáþakkarvottur frá mér og minni fjölskyldu til Boga. Kæri bróðir, mágur og frændi, hafðu þökk fyrir allt og eigðu góða heimkomu á landi eilífðarinnar.

Guð veri með þér.

Gróa Ormsdóttir

og fjölskylda.

Þegar maður missir náinn vin og föðurbróður þá staldrar maður við brunn minninganna. Minn kæri vinur Bogi Jóhann var orðinn lúinn og undirbúinn undir kallið. Við ættingjar hans viljum minnast hans til að þakka langa samfylgd og mikla frændsemi. Líf mitt og okkar hjóna hefur verið tengt Boga og Steinari föðurbræðrum mínum frá barnæsku. Amma mín Þórunn hélt sérstaklega vel utan um bræðurna og fjölskylduböndin. Samastaður okkar til margra ára var á Vestugötu 105 á Akranesi þar sem fólkið hittist til að gleðjast á afmælum og við kartöfluupptöku eða að ferðast saman. Í Reykjavík stofnuðu bræðurnir sín heimili og var heimili Boga og Erlu í Eskihlíðinni vettvangur margra gleðistunda til að spila um jól og við önnur tækifæri. Þeir Bogi og faðir minn gengu báðir til liðs við lögregluna í Reykjavík sem þá var í Pósthússtrætinu. Menn voru á þeim árum valdir í þetta starf miðað við vaskleika, brjóstvit, styrk og stærð. Þeir uppfylltu báðir þessar kröfur og með tímanum urðu þeir varðstjórar svo aðalvarðstjórar sem gegndu sínu starfi af miklum sóma allt til starfsloka.

Minningaleiftur mín eru mörg s.s. úr stofunni í Eskihlíðinni þar sem við krakkarnir sátum og spiluðum en fullorðna fólkið spilaði vist í næsta herbergi. Foreldrar mínir og Erla og Bogi höfðu mikið samneyti á frum Reykjavíkurárunum og í dagbók pabba má sjá að þau hittast minnst vikulega, stundum oftar og fara oft í bíó á þessum árum. Árin líða, börnunum fjölgar og til koma ferðalög. Minning um ferðalag með Boga og Erlu um kolófæra vegi vestur á Snæfellsnes þegar fólk eignaðist fyrstu bílana. Gist var í hvítum vegavinnutjöldum og aðstæður nánast engar til að elda en allt gekk þetta þó. Þegar ég eltist kom að því að taka bílpróf og Bogi frændi var ökukennari og ekki man ég betur en að ekkert annað kæmi til greina en að hjá honum lærði ég á bíl 1963. Ökukennslunni hefur fylgt mikið lán. Hann var annálaður ökukennari. Bogi tók þátt í félagsstörfum sem ungur maður s.s. í Ungmennafélaginu í Staðarsveit og síðar í félagi Snæfellinga og var þar mjög virkur s.s. í ferðalögum með fólki til annarra landa. Við áttum okkar fasta samband sem svo jókst þegar faðir minn varð ekkill en þá voru Bogi og Erla honum mikil stoð til að bægja frá einmanaleikanum, bæði með símtölum og boði í mat eða bílferð sem urðu honum miklar gleðiferðir. Bræðurnir voru ótrúlega líkir í töktum og framkomu. Þetta varð okkur og mínum æ ljósara eftir fráfall föður míns 2002 en þá áttum við fasta heimsóknardaga á Jökulgrunn og þar upplifði ég svo vel fallega brosið hans Boga sem var svo líkt mömmu hans og bróður, fullt af glettni og gæðum.

Eftir að Bogi missti Erlu varð hann aldrei samur enda sameiginleg lífsganga þeirra löng. Nú er farsælu lífshlaupi að ljúka eftir að hafa verið á hjúkrunardeild Hrafnistu í nokkur ár þar sem þrekið þvarr smátt og smátt. Við og mín fjölskylda vottum börnum Boga og fjölskyldum þeirra samúð okkar.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum.)

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

og Þórhallur Runólfsson.