Freri RE Skipinu var lagt fyrr á árinu en það bar nafnið Ingólfur Arnarson við komuna til landsins.
Freri RE Skipinu var lagt fyrr á árinu en það bar nafnið Ingólfur Arnarson við komuna til landsins. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frystitogararnir Freri RE 73 og Venus HF 519 liggja bundnir við bryggju í Reykjavík. Þessi miklu aflaskip voru smíðuð á Spáni og komu bæði til landsins árið 1973 og eru því fjörutíu ára gömul.

Frystitogararnir Freri RE 73 og Venus HF 519 liggja bundnir við bryggju í Reykjavík. Þessi miklu aflaskip voru smíðuð á Spáni og komu bæði til landsins árið 1973 og eru því fjörutíu ára gömul. Öldungunum hefur báðum verið lagt vegna breytinga hjá útgerðum skipanna og eru á söluskrá.

Spánartogararnir voru sex og komu til landsins á árunum 1972-1975. Skuttogaravæðingin var þá í algleymingi, en Spánartogararnir voru stærri en flestir hinna togaranna sem komu á þessum árum.

Venus kom til landsins sem Júní og var gerður út af Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, síðan eignaðist Hvalur hf. skipið og loks HB Grandi. Freri kom til landsins sem Ingólfur Arnarson og var gerður út af Bæjarútgerð Reykjavíkur og síðan Ögurvík.

Spánartogararnir voru raðsmíði og var Bjarni Benediktsson RE fyrstur í röðinni, en er núna frystitogarinn Mánaberg ÓF 42. Síðan komu Júní og Ingólfur Arnarson, en Snorri Sturluson RE var fjórði í röð Spánartogaranna. Hann var seldur til Rússlands 2008 og gerður út frá Petropavlovsk á Kamchatka.

Poseidon EA 303 var áður Harðbakur EA og kom til landsins í ársbyrjun 1974. Skipið er skráð sem vinnuskip og hefur m.a. verið notað til aðstoðar við olíuleit. Kaldbakur EA 1 kom til landsins haustið 1974 og er gerður út af Útgerðarfélagi Akureyringa. Skipið hefur einnig borið nafnið Sólbakur. aij@mbl.is