Árni Grétar Finnsson agf@mbl.

Árni Grétar Finnsson

agf@mbl.is

Hæstiréttur staðfesti í gær niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að útgerðarfélaginu Brimi væri skylt að greiða Sjómannasambandi Íslands, Afli starfsgreinafélagi Austurlands, Alþýðusambandi Vestfjarða, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Félagi vélstjóra og málmtæknimanna samtals 17,8 milljónir króna.

Héraðsdómur hafði áður komist að því að ofangreind félög ættu lögvarið tilkall til greiðslu lögbundins gjalds inn á svokallaða greiðslumiðlunarreikninga, en kröfu Brims um sýknu vegna aðildarskorts var jafnframt hafnað. Í dóminum sagði að greiðsluskylda Brims samkvæmt lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegs væri afdráttarlaus og óumdeilt að félagið hefði ekki staðið skil á greiðslunum.

Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um greiðsluskyldu Brims hf. með vísan til forsendna, en þó með þeirri athugasemd að II. kafli fyrrnefndra laga, sem kveða á um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, hafi ekki falið í sér nýja gjaldtöku heldur einungis breytt þeirri aðferð við gjaldtökuna sem áður hafði tíðkast.

Þá var Brimi gert að greiða gagnaðilum, hverjum fyrir sig, 150.000 kr. í málskostnað fyrir Hæstarétti.