Inga Bjarney Óladóttir fæddist á Sveinsstöðum í Grímsey 16. júlí 1933. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 16. september 2013.

Útför Ingu fór fram frá Grindavíkurkirkju 24. september 2013.

Elsku mamma okkar hefur kvatt þennan heim og viljum við systkinin þakka fyrir allt það sem hún gerði fyrir okkur. Hún var sjómannskona og var oft langtímum ein með okkur. Á hverju sumri fór hún með okkur til Grímseyjar þar sem við vorum hjá ömmu og afa. Eitt sumarið voru þær systur, mamma, Sigrún og Birna, með öll börnin sín í Grímsey. Þær höfðu tekið á leigu stórt hús sem kallað var Kastalinn og það var mikið líf og fjör hjá okkur þetta sumar. Við teljum það forréttindi að hafa alist upp að hluta til í Grímsey og eigum við öll yndislegar og góðar minningar frá þeim tímum. Æskuheimili okkar var Mánagata 7 í Grindavík. Þar var oft margt um manninn og mikill gestagangur. Mamma sá til þess að aldrei færi neinn svangur frá henni, matargerð var hennar aðalsmerki og ekki má gleyma kleinunum hennar mömmu.

Mamma átti við mikið heilsuleysi að stríða síðustu mánuðina og pabbi var einstaklega duglegur að annast hana, nærgætinn og góður. Oft sátu þau gömlu hjónin og héldust í hendur og geymum við systkinin minninguna um það.

Mamma er konan sem heldur í höndina á manni fyrstu árin en hjartað alla ævi.

Hvíl í friði elsku mamma.

Rúnar Þór, Hrafnhildur, Gunnhildur og Óli Björn.

Elsku besta amma okkar, mikið er skrítið að þú sért farin. Við héldum einhvern veginn að við hefðum aðeins lengri tíma með þér en svo fórstu fyrr en við áttum von á. Svona getur lífið komið manni stöðugt á óvart og það minnir mann á hversu hverfult allt í þessu lífi er en það minnir mann einnig á að njóta hverrar einustu stundar. Við eigum eftir að sakna þín afskaplega mikið. Þú varst svo falleg og hlý manneskja, einstaklega hláturmild, falleg og smekklega til fara og svo þótti þér svo gaman að dansa. Mikið þótti þér nú gaman þegar ég (Hrund) sagði þér að við Gummi værum byrjuð að dansa, þá hýrnaði nú ansi mikið yfir þér. Alltaf þótti okkur gott að koma til ykkar afa þar sem þið hrósuðuð okkur í hástert bara fyrir það eitt að vera til. Þú ert yndisleg amma okkar og við trúum því að þú sért á góðum stað þar sem meðal annars Hafliði heitinn bróðir og langamma Ella tóku fagnandi á móti þér.

Megi minning þín lifa að eilífu sem skært ljós í lífi okkar. Guð geymi þig, elsku amma okkar.

Hrund, Björgvin og Eyrún Ösp.

Nú er komið að því að kveðja elskulega tengdamóður mína, Ingu Bjarneyju Óladóttur. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast henni fyrir 15 árum þegar ég kom inn í fjölskylduna. Fjölskyldan var henni afar kær og oft talaði hún um hvað lánsöm hún væri að hafa börnin og barnabörnin í sama bæjarfélagi. Henni var samheldni fjölskyldunnar mikið kappsmál og hagur þeirra sem stóðu henni næst var henni ávallt efst í huga. Hún var brosmild og sá alltaf það góða og jákvæða í öllum.

Með þessum fáu orðum vil ég þakka samfylgdina.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Hvíl í friði og hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þín tengdadóttir,

Karen Mjöll.

Oft er sagt að það þurfi þorp til að ala upp barn og þannig minnumst við Grindavíkur og þeirra sem við kynntumst á þeim árum í lífi okkar þar. Við systur minnumst og kveðjum með þakklæti hana Ingu, Ingu hans Venna eins og við kölluðum hana alltaf, og móður vinkvenna okkar síðan í æsku Öbbu og Ginnu. Við eyddum mörgum stundum á hennar myndarlega, vinalega og stóra heimili á Mánagötunni og erum innilega þakklátar fyrir að hafa fengið að kynnast henni og allri hennar stór fjölskyldu. Inga var sjómannskona, mikið ein heima með börnin, alltaf elskuleg og yfirveguð, meðan Venni sótti sjóinn. Við minnumst þess einnig hvað það var alltaf spennandi að sjá hvað skipstjórinn kom með heim úr siglingunum. Á heimilinu voru til að mynda alltaf flottustu hljómflutningstækin og margt annað sem ekki sást á öllum heimilum. Einnig kynntumst við Ellu ömmu og afa Óla úr Grímsey sem dvöldu svo oft hjá Ingu á veturna. Amman sem prjónaði hraðast í heimi (að okkar mati), gat talað, brosað og hlegið á sama tíma. Svona höfðum vipð aldrei séð áður þótt við hefðum sjálfar átt ömmu sem prjónaði mikið, en ekki á þessum hraða.

Í seinni tíð hittumst við sjaldnar en í hvert skipti sem svo bar við, var Inga alltaf svo innilega glöð að hitta okkur elskurnar sínar og næstum dætur, eins og hún sagði.

Þess er vert að minnast að í hvert skipti sem ég hitti hana spurði hún alltaf um systur mína sem flutti snemma til útlanda: „Hvað er að frétta af henni Imbu minni?“ Og hún var sú eina sem ég veit um að kallaði hana Imbu. Einnig var gaman þegar hún hitti dætur mínar þá sagði hún alltaf: „Sessa ég sé þig í anda koma hlaupandi niður Mánagötuna, þær eru alveg eins og þú.“

Minning um yndislega konu mun alltaf lifa með okkur. Brosið hennar, jákvæðnin, góða skapið og erum við ríkari af því að hafa kynnst Ingu og hennar lífsviðhorfum. Við vottum fjölskyldu hennar allri okkar innilegustu samúð.

Ingibjörg og Sesselja

Pétursdætur.

Elsku Inga frænka. Minningin um þig er öll böðuð birtu og gleði. Meira að segja jarðarförin þín var bæði falleg og skemmtileg og tvívegis hló öll kirkjan þegar lífshlaup þitt var rifjað upp. Hugurinn leitar til bernskuára þegar við Óli Björn lékum okkur heima hjá þér daginn út og inn og lögðum allt húsið undir okkar bátaleiki og þú tókst því alltaf með jafnaðargeði. Og til marks um hversu hátt þú varst skrifuð þá fannst mér nauðsynlegt að hlaupa beint heim til þín þegar við fengum fjölskyldumyndir úr framköllun til að segja: „Inga, Inga, myndirnar eru komnar og ég er langflottastur.“

Hláturmildari konu höfum við ekki fyrirhitt og við eigum margar góðar minningar úr afmælum sem þú komst alltaf í. Þú reyndist dætrum okkar vel og þær pössuðu alltaf upp á að Inga frænka fengi boð í afmælin.

Þú gast endalaust hlegið með Dúddu, mömmu og okkur hinum og það er þannig sem við minnumst þín; alltaf brosandi og stutt í hláturinn.

Það var svo þægilegt að koma á heimili ykkar Venna og það rifja stelpurnar líka upp og bæta við að þær hafi alltaf fengið mola úr búrinu.

Elsku Inga frænka, minningin um þig er ljós í lífi okkar.

Við biðjum algóðan Guð að styrkja fjölskyldu þína í sorginni.

Eiríkur, Sólveig

og dætur.