Ný stjórn var kjörin á aðalfundi Lýðræðisvaktarinnar í vikunni. Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor baðst undan endurkjöri í stjórn flokksins en hann hefur farið fyrir honum frá stofnun í aðdraganda þingkosninganna í vor. Lýður Árnason læknir tekur við af Þorvaldi sem vaktstjóri flokksins.
Í tilkynningu segir að tillaga um að Lýðræðisvaktin færi ekki í framboð fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar hafi verið samþykkt en jafnframt rætt um möguleika á samstarfi við aðra flokka með svipuð stefnumál fyrir næstu þingkosningar. Þá segir að fundarmönnum hafi verið stjórnarskrármálið ofarlega í huga.