Þegar talað er um að hrófla við hinum hefðbundna landbúnaði er eins og fólk sé að tala um að skera úr okkur hjartað. Þetta sagði Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma, á fundi VÍB í Hörpunni í gær. Hún sagði ótrúlegt að ekki mætti breyta landbúnaðarkerfinu, sem væri mjög ríkisstyrkt, þegar verktakar og önnur fyrirtæki þyrftu oft að fara í gjaldþrot vegna aðstæðna í hagkerfinu.
Þá sagði hún einnig að fyrirtækjum væri oft ýtt til þess að gera breytingar og jafnvel þyrftu þau að flytja úr landi. Því væri óskiljanlegt að ekki mætti gera breytingar á landbúnaðinum. Sagði hún jafnframt að umræðan um matvælaöryggi ætti ekki við í þessu samhengi, það hefði sýnt sig.