Björn Líndal
Björn Líndal
„Forstjóri Ríkiskaupa segir að verðtilboð umbjóðenda minna hafi verið lægra vegna þess að það hafði ekki að geyma allar þær vörur sem óskað var eftir í útboðinu.

„Forstjóri Ríkiskaupa segir að verðtilboð umbjóðenda minna hafi verið lægra vegna þess að það hafði ekki að geyma allar þær vörur sem óskað var eftir í útboðinu. Þar tel ég hann fara með rangt mál,“ segir Björn Líndal, lögmaður félaganna Logalands og Beckman Coulter, en félögin áttu lægsta tilboðið í tækjabúnað fyrir kjarna- og bráðarannsóknarstofu Landspítalans í útboði sem haldið var árið 2011.

Breyta verður útboðsgögnum

Hæstiréttur staðfesti í síðustu viku úrskurð kærunefndar útboðsmála um að fella úr gildi útboðið á þeim grundvelli að útboðslýsingin hefði ekki uppfyllt kröfur laga. Ríkiskaup þurfa því að hefja nýtt útboðsferli bráðlega.

„Þegar tilboð umbjóðenda minna var opnað í lok útboðsferilsins var það um 130 milljónum krónum lægra en það sem var valið af Ríkiskaupum sem er umtalsverður munur. Þegar tilboð umbjóðenda minna hefur verið leiðrétt vegna þeirra frávika sem talin voru vera til staðar af Ríkiskaupum er ennþá um 127 milljóna króna munur á tilboðunum. Þetta eru í heildina tilboð upp á um það bil 600 milljónir þannig að verðmunur upp á 127 milljónir króna er verulegur munur. Því er beinlínis rangt að skýra verðmun tilboða með því að vísa í frávik upp á rúmar 3 milljónir króna og sérstaklega þegar haft er í huga að nú liggur fyrir að rekja má frávikið til gallaðra útboðsskilmála sem eru á ábyrgð Ríkiskaupa.“

Björn segir enn fremur dóm Hæstaréttar í útboðsmálinu sýna að Ríkiskaup þurfi í ljósi þess hlutverks sem stofnunin gegnir að gera breytingar á samningu útboðsgagna.

„Það er óþolandi að aðilar eins og umbjóðendur mínir þurfi í tvö og hálft ár að berjast fyrst í gegnum stjórnkerfið og síðan dómskerfið til að ná rétti sínum með öllum þeim kostnaði sem því fylgir. Jafnframt er augljóst að það er vel unnt að kvarða valforsendur í skilmálum útboðsins þannig að tryggt sé að hlutlægur mælikvarði myndi ráða mati á tæknilegum eiginleikum boðinna vara en ekki huglægt mat eins gerðist í því útboði sem nú hefur verið ógilt. Úr þessu verður að bæta þegar útboð fer fram að nýju,“ segir Björn. bmo@mbl.is