Fernando Torres
Fernando Torres
Spænski framherjinn Fernando Torres vonar að mörkin tvö sem hann skoraði fyrir Chelsea í 3:0-sigri gegn Schalke í Meistaradeildinni í fyrrakvöld verði til að koma sér í gírinn en Torres hefur átt frekar erfitt uppdráttar á tímabilinu undir stjórn Josés...

Spænski framherjinn Fernando Torres vonar að mörkin tvö sem hann skoraði fyrir Chelsea í 3:0-sigri gegn Schalke í Meistaradeildinni í fyrrakvöld verði til að koma sér í gírinn en Torres hefur átt frekar erfitt uppdráttar á tímabilinu undir stjórn Josés Mourinhos.

Torres, sem skoraði 21 mark í öllum keppnum á síðustu leiktíð, hefur aðeins náð að skora fjögur mörk á tímabilinu fyrir Lundúnaliðið en ekkert þeirra hefur litið dagsins ljós í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég er auðvitað ánægður að hafa náð að skora tvö mörk og vonandi er þetta byrjunin á einhverju meira,“ segir Torres, sem átti sinn besta leik á tímabilinu í leiknum við Schalke en Spánverjinn er á sínu fjórða tímabili hjá Chelsea sem keypti hann fyrir 50 milljónir punda frá Liverpool. Torres vonast til að frammistaðan dugi honum til að byrja inná í stórleiknum gegn Manchester City en liðin eigast við á Stamford Bridge á sunnudaginn. gummih@mbl.is