Rannsóknir Dr. Þorvarður Árnason er forstöðumaður rannsóknasetursins á Höfn í Hornafirði þar sem rannsóknir á fjölmörgum sviðum eru gerðar, meðal annars á bókmenntum, ferðamálum, landslagi og sjálfbærni.
Rannsóknir Dr. Þorvarður Árnason er forstöðumaður rannsóknasetursins á Höfn í Hornafirði þar sem rannsóknir á fjölmörgum sviðum eru gerðar, meðal annars á bókmenntum, ferðamálum, landslagi og sjálfbærni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn eru stundaðar afar fjölbreytilegar rannsóknir.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn eru stundaðar afar fjölbreytilegar rannsóknir. Skáldskapur, ferðaþjónusta, umhverfismál, fuglar, fjallamenning og sjálfbærni í staðbundinni matvælaframleiðslu, svo fátt eitt sé nefnt, eru meðal viðfangsefna.

Setrið er eitt nokkurra á vegum HÍ sem staðsett eru víða um landið og forstöðumaður þess er dr. Þorvarður Árnason.

„Við höfum t.d. verið að rannsaka ferðamál, sérstaklega á suðvesturhorninu. Við störfum að rannsóknum með Vatnajökulsþjóðgarði og höfum unnið að því að byggja brýr á milli þjóðgarðsins og ferðaþjónustuaðila. Þá höfum við líka flokkað og lagt mat á íslenskt landslag í samstarfi við líffræðistofnun Háskóla Íslands,“ segir Þorvarður. Hann segir að setrið hafi nú starfað í rúman áratug og við það séu 2½ stöðugildi. Óhætt er að segja að rannsóknir þess spanni býsna vítt svið. „Núna er verið að rannsaka höfundarverk Þórberg Þórðarsonar, sem var auðvitað héðan úr nágrenninu, frá Hala í Suðursveit. Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur vinnur að fræðibók um höfundarverk og ævi Þórbergs, sem bjó til nýja bókmenntagrein hér á landi með því að blanda saman skáldskap og veruleika þannig að úr varð skáldævisaga.“

Stuðningur sveitarfélagsins

Þorvarður segir Höfn fyrirtaks staðsetningu fyrir rannsóknarsetur af þessu tagi. „Það má segja að við séum í tilteknu landnámi þekkingar og fræða, hér eru stórar áskoranir og við vinnum fjölbreytt og gefandi starf í góðu umhverfi. Við fáum öflugan stuðning frá sveitarfélaginu og nærumhverfinu sem skiptir auðvitað miklu máli.“

Háskólasetrið er til húsa í Nýheimum, sem er þekkingarsetur og er í eigu ýmissa menntastofnana og opinberra aðila. Auk setursins er þar útibú Matís, starfsaðstaða Hafrannsóknastofnunar Íslands, Jöklasetrið og Skaftafellsþjóðgarður. „Þarna hefur skapast sérstök og góð dýnamík, öll erum við að vinna að málum sem varða framþróun samfélagsins hvert á sinn hátt og þarna hefur orðið til heilmikið þekkingarsamfélag,“ segir Þorvarður.