Manndráp Friðrik við aðalmeðferð málsins í Hafnarfirði í ágúst
Manndráp Friðrik við aðalmeðferð málsins í Hafnarfirði í ágúst
Héraðsdómur Austurlands dæmdi í gær 26 ára karlmann, Friðrik Brynjar Friðriksson, í sextán ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp. Maðurinn veittist að Karli Jónssyni á heimili hans aðfaranótt þriðjudagsins 7.

Héraðsdómur Austurlands dæmdi í gær 26 ára karlmann, Friðrik Brynjar Friðriksson, í sextán ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp.

Maðurinn veittist að Karli Jónssyni á heimili hans aðfaranótt þriðjudagsins 7. maí síðastliðins og banaði með því að stinga hann með hnífi í brjóstið og í framhaldi ítrekað í háls, andlit og höfuð.

Þá var Friðriki Brynjari gert að greiða tæpar fjórar milljónir króna í málskostnað.

92 áverkar á líkinu

Friðrik Brynjar lýsti yfir sakleysi sínu við upphaf aðalmeðferðar málsins en viðurkenndi að hafa slegið Karl hnefahöggi umrædda nótt. Hann neitaði alfarið að hafa beitt hnífi. Hann var þá svo ölvaður um nóttina að ástand hans er skráð sem áfengiseitrun.

Við aðalmeðferðina var spiluð upptaka úr samtali Friðriks Brynjars við Neyðarlínuna en þá sagðist hann telja að hann hefði drepið mann. Friðrik nefnir reyndar ekkert hnífstungu í samtalinu en segist hafa slegið Karl hnefahöggi og við það hafi hann fallið í gólfið.

Þýskur meinafræðingur sem bar vitni sagðist hafa talið 92 áverka á líkinu og að þeir hefðu verið veittir með miklum ofsa og ofbeldi. Ein stunga hafi til dæmis opnað stórt gat fyrir neðan lungnaæðina.

Sakfelldur þrátt fyrir vafa

Þrátt fyrir að fjölskipaður dómur Héraðsdóms Austurlands hafi komist að þeirri niðurstöðu að vafi leiki á því hvernig nákvæmlega það gerðist að blóð úr Karli Jónssyni komst á fatnað Friðriks Brynjars Friðrikssonar er það álit dómsins að vafi um sekt Friðriks sé harla lítill.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður til þess litið að rannsóknargögn benda til þess að atlaga ákærða hafi verið ofsafengin og hrottaleg.