Fyrir Ein af freskunum sem málað var yfir í Yunjie-hofi í Chaoyang í norðausturhluta Kína.
Fyrir Ein af freskunum sem málað var yfir í Yunjie-hofi í Chaoyang í norðausturhluta Kína. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Peking. AFP. | Verktakar á vegum kínverskra yfirvalda hafa „lagfært“ aldagamlar freskur í búddahofi með því að mála yfir þær myndir af goðsagnapersónum sem tengjast taóisma.

Peking. AFP. | Verktakar á vegum kínverskra yfirvalda hafa „lagfært“ aldagamlar freskur í búddahofi með því að mála yfir þær myndir af goðsagnapersónum sem tengjast taóisma.

Litið er á „lagfæringuna“ sem enn eitt dæmið um slæma varðveislu menningararfleifðar í Kína þar sem mörg forn listaverk hafa verið eyðilögð á síðustu árum. Nýju myndirnar þykja minna á skopteikningar eða myndir í teiknimyndablöðum. „Þær eru jafnvel enn verri en skrípamyndir,“ sagði einn margra kínverskra bloggara sem hafa fordæmt „lagfæringarnar“.

„Ég hefði átt að skera freskurnar af með hnífi og taka þær með mér heim ef ég hefði séð þetta fyrir,“ sagði annar bloggari. Kínversk yfirvöld hófu rannsókn á málinu eftir að bloggari birti myndir af gömlu freskunum og nýju myndunum sem voru málaðar yfir þær.

Hofið var reist fyrir rúmum 270 árum í borginni Chaoyang í Liaoning-héraði í norðausturhluta landsins. Kínverskir fjölmiðlar segja að ferðamálayfirvöld, sem annast varðveislu hofsins, hafi fengið „lélega“ verktaka til að annast viðhald hofsins.

Tveimur embættismönnum hefur verið vikið frá störfum vegna málsins, að sögn fréttavefjar Global Times í Kína. Annar þeirra hefur haft yfirumsjón með hofum í borginni og hinn með varðveislu menningararfleifðar.