[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Óttast er að mál stúlkubarns, sem var tekið af pari í hverfi sígauna í Grikklandi, kyndi undir fordómum í garð sígauna í Evrópu og verði til þess að árásum á þá fjölgi.

Baksvið

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Óttast er að mál stúlkubarns, sem var tekið af pari í hverfi sígauna í Grikklandi, kyndi undir fordómum í garð sígauna í Evrópu og verði til þess að árásum á þá fjölgi.

Sígaunar, öðru nafni róma-fólk, eru stærsti þjóðernisminnihlutahópur Evrópu og hafa verið beittir misrétti í mörgum löndum álfunnar. Sígaunar eru víða utangarðs í samfélaginu og njóta ekki sömu réttinda og aðrir hvað varðar húsnæði, atvinnu, heilsugæslu og menntun.

Erfitt er að áætla fjölda sígauna í Evrópu þar sem þeir eru sjaldan taldir í manntölum vegna flökkulífs þeirra. Talið er þó að þeir geti verið um tíu til tólf milljónir samtals, að sögn mannréttindastofnunar Evrópusambandsins. Þriðjungur þeirra er án atvinnu og 90% undir fátæktarmörkum.

Hnepptir í þrældóm

Sígaunar eru dreifðir um Evrópu, Vestur-Asíu og Norður-Afríku, upphaflega frá Norður-Indlandi. Í löndum Mið- og Austur-Evrópu er algengt að sígaunar kalli sig „róma“, sem merkir „maður“ á tungumáli þeirra, rómaní, en í öðrum löndum nota þeir önnur heiti. Í mörgum evrópskum tungumálum er heiti sígauna dregið af gríska orðinu „tsigani“ sem mun vera dregið af orði sem þýðir „ósnertanlegir“ (t.d. „Zigeuner“ á þýsku og „sígaunar“ á íslensku).

Talið er að sígaunar hafi fyrst farið frá Indlandi til Persíu fyrir um það bil þúsund árum og þaðan til Grikklands, áður en þeir dreifðust um Evrópu. Þeir voru víða ofsóttir og í Ungverjalandi og Rúmeníu hnepptu landeigendur sígauna í þrældóm og þeir voru seldir á uppboðum allt til ársins 1856. Talið er að sígaunar hafi tekið upp flökkulíf á miðöldum vegna þess meðal annars að þeim var bannað að kaupa jarðir eða starfa við ýmsar atvinnugreinar, líkt og gyðingum á þessum tíma.

Þýskir nasistar og bandamenn þeirra ofsóttu einnig sígauna. Talið er að um 220.000 til 400.000 sígaunar hafi beðið bana í útrýmingarbúðum nasista.

Óttast er að mál stúlkunnar, sem tekin var af sígaunaparinu í Grikklandi, kyndi undir fordómum og hatri í garð sígauna í Evrópu.

Skaðar alla sígauna

Danski rithöfundurinn og blaðamaðurinn Malene Fenger-Grøndahl, sem hefur skrifað bækur um sögu sígauna í Evrópu, telur að mál stúlkunnar skaði alla sígauna í álfunni. „Það býr til þá mynd að sígaunar séu ekki menn eins og við hin,“ hefur fréttavefur danska ríkisútvarpsins eftir Fenger-Grøndahl. Hún óttast að sígaunar verði fórnarlömb árása og hatursglæpa vegna málsins. „Nú þegar hefur komið upp mál í Serbíu þar sem nýnasistar reyndu að taka barn af foreldrum vegna þess að þeir töldu barnið vera of ljóst yfirlitum til að geta verið barn þeirra.“

Petter Bakker, danskur fræðimaður sem hefur rannsakað sögu sígauna, varar fólk við því að alhæfa um sígauna og saka þá um að stunda barnsrán. „Auðvitað eru til glæpamenn meðal róma-fólks. Þeir eru þar, alveg eins og á meðal Dana og Svía,“ hefur vefur danska ríkisútvarpsins eftir Bakker. „En haldi menn að róma-fólk stundi örugglega skipulegt mansal vegna þess að eitt barn hefur fundist er of mikið gert úr málinu.“

Börn tekin af sígaunum
» Skýrt var frá þvi í gær að yfirvöld á Írlandi hefðu tekið tveggja ára barn af sígaunafjölskyldu en skilað því skömmu síðar. Ekki voru veittar frekari upplýsingar um málið.
» Áður höfðu írsk yfirvöld tekið sjö ára stúlku af sígaunapari í Dublin. Hún var ljóshærð og bláeyg eins og María, stúlkan sem fannst meðal sígauna í Grikklandi.
» Yfirvöld í Grikklandi hafa óskað eftir aðstoð alþjóðalögreglunnar Interpol við að bera kennsl á stúlkuna.