[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.is Hinn 23. október 1963 kom Íslensk orðabók út í fyrsta sinn.

Sviðsljós

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Hinn 23. október 1963 kom Íslensk orðabók út í fyrsta sinn. Uppruna hennar mátti rekja til þeirrar ákvörðunar menntamálaráðs 1957 að gefa út íslenska orðabók fyrir skóla og almenning en Árni Böðvarsson málfræðingur var fenginn til að ritstýra verkinu, sem var gefið út af Menningarsjóði. Útgáfur Íslenskrar orðabókar eru orðnar fjórar og hefur hún stækkað og tekið ýmsum breytingum á þeirri hálfu öld sem liðin er frá 1. útgáfu en Mörður Árnason, íslenskufræðingur og ritstjóri 3. og 4. útgáfu, segir enn byggt á þeim grunni sem lagður var í upphafi.

„Orðabókin náði strax mikilli útbreiðslu og hylli og ég held að í raun og veru hafi þessi orðabókaútgáfa á þessum tíma verið ákveðið þjóðmenningarmál og skipt þjóðina miklu, bæði íslenskumenn og menningarmenn og allan almenning,“ segir Mörður og bendir á að þegar ákvörðun um útgáfu verksins var tekin voru aðeins 13 ár liðin frá því að Ísland varð sjálfstætt ríki.

Tugþúsundir orða

Fyrsta útgáfa bókarinnar byggðist að mestu leyti á íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal og seðlasöfnum Orðabókar Háskóla Íslands en auk þess leitaði Árni fanga í viðaminni orðasöfnum og hjá sérfræðingum á ýmsum sviðum vegna fræðiorða. Orðabókin 1963 geymdi alls um 65 þúsund uppflettiorð en í 2. útgáfu, sem kom út 1983, jókst orðaforðinn umtalsvert, í alls 85 þúsund orð, auk þess sem ýmsir annmarkar voru lagfærðir.

„Það má segja að í 2. útgáfu hafi Árni klárað bókina því þegar maður les formálann og fer að glugga í bókina kemur í ljós að seinni parturinn í fyrstu útgáfunni er minni að vöxtum en fyrri parturinn,“ segir Mörður en hart hafi verið lagt að Árna að klára verkið og seinni hluta stafrófsins því í raun ekki almennilega lokið fyrr en 1983.

Í þeirri útgáfu, þar sem Ásgeir Blöndal Magnússon var Árna til halds og trausts, var ýmsum sérorðaforða bætt við að sögn Marðar, sjaldgæfum og mállýskubundnum orðum auk þess sem hún var skreytt með 72 tölusettum útskýringamyndum.

Mörður segir að ef til vill hafi ákveðin björgunarhugsun ráðið för við aðra útgáfu bókarinnar, þ.e. að festa orðasafn íslenskrar tungu á bók en þegar sex manna ritstjórn 3. útgáfu tók til starfa hafði tölvuöldin gengið í garð og aðstæður til orðabókagerðar gjörbreyst.

Stafrófsröðinni breytt

Þegar Menningarsjóður var lagður niður 1992 eignaðist Mál og menning útgáfuréttinn að Íslenskri orðabók en það liðu tíu ár þar til ný útgáfa leit dagsins ljós.

„Við tókum fyrir ákveðna orðaflokka, ákveðin sérsvið og ný orð og höfðum aðra uppsetningu á þessu,“ segir Mörður um 3. útgáfu en ítrekar að þótt hann sé titlaður ritstjóri hinnar endurskoðuðu útgáfu sé enn um að ræða orðabók Árna Böðvarssonar að grunninum til.

Orðaforðinn jókst enn, í 90 þúsund uppflettiorð, en þá var stafrófsröðinni m.a. breytt þannig að a og á nutu ekki lengur jafnrar stöðu og lýsing sagnorða var færð í nútímalegra horf, svo nokkuð sé nefnt. Forlagið gaf út 4. útgáfu 2007, í stærra broti og með nokkrum breytingum og viðbótum frá 3. útgáfu en Mörður segir að þrátt fyrir að vinnan við gerð orðabóka hafi breyst með nýrri tækni séu grundvallarvinnubrögðin enn þau sömu.

„Aðalmunurinn er kannski sá að nú fer orðabókagerðin ekki þannig fram að menn skrifi þetta niður á seðla með penna og blýanti og svo sé það sett í prentsmiðju, heldur eru búin til sérstök forrit fyrir orðabókavinnuna. En þrátt fyrir að þetta sé orðin miklu nákvæmari og auðveldari vinna, að safna orðum og skoða í samhengi sínu, þá eru aðrir þættir sem ekki breytast og það er að velja og hafna og svo skýra og sýna orðið í samhengi sínu.

Þar þurfa menn að hafa einhverja stefnu og vita hvað þeir eru að gera. Þeir verða að búa sér til einhverjar forsendur til að velja orð eða hafna og til þess að meta hvort orðið hefur eina merkingu eða tvær eða fleiri, eða hvort það eru merkingarbrigði innan sama orðsins. Og þetta er sami vandinn og þegar orðabækur í okkar skilningi voru fyrst búnar til á 18. og 19. öld,“ segir hann.

Ófullkomið verk

Mörður tekur undir það að menn hafi í miklum mæli litið til Íslenskrar orðabókar sem fullkominnar heimildar um íslenska tungu. „Það sýnir hvað fólki þótti vænt um bókina að hún fékk strax þá stöðu að verða einhvers konar biblía. Auðvitað stendur hún ekki undir því, hvorki nú né áður, það getur engin ein bók verið,“ segir hann. Þetta hafi Árni vitað manna best. „En það er til marks um hvað bókin var mikils metin og hvað Íslendingum þótti vænt um tungumálið sitt og þykir enn.“