Aðalfundur Landssambands íslenskra útvegsmanna hefst síðdegis í dag á Nordica í Reykjavík. Yfirskrift fundarins er sjávarútvegur og samfélag. Við upphaf fundarins flytur Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, ræðu, en jafnframt ávarpar Sigurður Ingi Jóhannsson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, fundinn. Að því loknu fjallar Guðmundur J. Óskarsson, fiskifræðingur, um stofnmat og ráðgjöf ICES um makríl.
Auk venjulegra aðalfundarstarfa verða nokkur erindi flutt á morgun. Haukur Már Gestsson, hagfræðingur, ræðir um sjávarklasann á Íslandi, umsvif og tækifæri, Friðleifur Friðleifsson, Iceland Seafood, fjallar um viðskiptavininn, Guðmundur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri hjá Samskipum, ræðir um flutninga á sjávarafurðum, þróun og horfur,
Mikael Tal Grétarsson, forstöðumaður útflutningssviðs Icelandair, ræðir virði flugsamgangna og vaxtartækifæri og Sveinn Margeirsson, framkvæmdastjóri Matís, og Magnea Guðrún Karlsdóttir, matvælafræðingur, fjalla um frekari verðmætasköpun sjávarauðlindarinnar.