Fyrirtækið Satis sem selur m.a. áskrift að Sky-sjónvarpsstöðvunum og tilheyrandi búnað til móttöku í gegnum gervihnött, hefur selt nokkur hundruð áskriftir frá því í ágúst sl. Hallur Ólafur Agnarsson, sem á fyrirtækið ásamt Agnari Loga Axelssyni, segir að mikil söluaukning hafi orðið eftir að fjölmiðlafyrirtækið 365 hækkaði áskriftarverð fyrir enska fótboltann um tæplega 30% í ágúst síðastliðnum.
Hallur og Agnar hafa selt Sky-búnað og áskriftir frá 2001. Fyrst varð að kaupa áskrift eftir krókaleiðum en Hallur bendir á að með dómi Evrópudómstólsins frá 2011 hafi verið staðfest að einstaklingar geti keypt áskrift að hvaða sjónvarpsstöð innan ESB og EES sem þá fýsir, þ.m.t. Sky sem sýnir beint frá enska boltanum, Meistaradeildinni og mörgum öðrum knattspyrnumótum.
Hallur segir að eftir að 365 hækkaði verðið hafi birgðir Satis af gervihnattadiskum, móttökurum o.fl., sem hefðu átt að duga í einn mánuð, runnið út á tveimur dögum.
Grunnáskrift hjá Satis kostar 6.490 kr. á mánuði og fæst með því aðgangur að 270 sjónvarpsstöðvum, þó ekki vinsælustu fótboltarásunum. Áskrift sem innifelur SkySports, og þar með enska boltann og fleiri deildir, kostar 10.500 krónur á mánuði en alls er áskrift að 300 sjónvarpsstöðvum innifalin í því gjaldi. Móttökubúnaður og uppsetning á honum kostar yfirleitt um 100.000 krónur.