Óvissutímar „Í stað þess að hjálpa litlu og meðalstóru fyrirtækjunum voru skattar og álögur hækkaðar og róðurinn gerður enn þyngri en hann hefði annars verið. Það er líka ákveðin stöðnun enn í gangi og fólk og fyrirtæki halda að sér höndum svo við verðum að fara varlega,“ segir Róbert Valtýsson.
Óvissutímar „Í stað þess að hjálpa litlu og meðalstóru fyrirtækjunum voru skattar og álögur hækkaðar og róðurinn gerður enn þyngri en hann hefði annars verið. Það er líka ákveðin stöðnun enn í gangi og fólk og fyrirtæki halda að sér höndum svo við verðum að fara varlega,“ segir Róbert Valtýsson. — Morgunblaðið/Ómar
• Segir húsgagnasölu nátengda veltu á fasteignamarkaði • Jólavörusalan á Íslandi slær öll met hjá ILVA-keðjunni og selst meira hér á landi en í hinum verslununum sjö í Danmörku og Svíþjóð • Óvissa í samfélaginu og hækkaðir skattar koma í veg fyrir að reksturinn fái að stækka

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Róbert Valtýsson segir mikinn uppgang hafa verið hjá húsgagnaversluninni ILVA undanfarin ár. „Við opnum verslunina 4. október 2008, tveimur dögum áður en Geir Haarde ávarpar þjóðina og biður guð að blessa Ísland. Ætti ekki að koma á óvart að 2009 og 2010 voru sérstaklega slæm ár fyrir okkur eins og aðra, en með mikilli eljusemi og ósérhlífni starfsfólks komst ILVA í gegnum þetta tímabil,“ segir hann. „Ólíkt t.d. raftækjasölu þá hefur sala á húsgögnum verið lengi að jafna sig og má helst skýra það með því að líftími húsgagna er langur. Hægt er að láta sófasettið duga í áraraðir en tölvan getur verið fljót að ganga úr sér og ef þvottavélin er orðin slöpp lætur fólk það ekki dragast að kaupa sér nýja. Húsgagnasalan er líka nátengd veltu á fasteignamarkaði enda notar almenningur oft tækifærið við flutninga til að endurnýja húsbúnað. Fasteignamarkaðurinn staðnaði eftir hrunið og áhrifin voru eins og vænta mátti fyrir húsgagnaverslanir.“

Raðgreiðslur vinsælar

En nú er salan öll að koma til. Segir Róbert að mikil aukning hafi verið árið 2011 og það sem af er árinu 2013 hafi salan hjá ILVA aukist um 36%. Róbert er er ekki viss um að hve miklu marki megi skrifa þennan vöxt á að markaðurinn sé að eflast. Hann grunar að vöxturinn sé m.a. kominn til vegna þess að sem merki hefur ILVA verið að ná sterkari stöðu á markaði og nái þar með að taka til sín stærri skerf af kökunni. Aukningin í sölunni dreifist nokkuð jafnt á milli deilda og uppgangur bæði í stærri húsbúnaði sem og gjafavöru og vörur í öllum verðstiganum seljast. „Mikið er um kortaviðskipti og margir nýta sér vaxtalausa raðgreiðslusamninga sem við bjóðum í allt að 12 mánuði. Við höfum líka greint þess merki að sumir hafa notað heimildir ríkisstjórnarinnar til að taka út lífeyrissparnað og þá notað tækifærið til að leyfa sér að staðgreiða eitthvað nýtt og fallegt á heimilið en ekki til þess eins að greiða niður skuldir.“

Mikilvægustu sölumánuðir ársins eru að renna í garð. Í nóvember og desember er handagangur í öskjunni í ILVA og segir Róbert að bæði selijst mikið af húsgögnum og gjafavöru en ekki síður jólavara. Raunar sker Ísland sig mjög úr ILVA-fjölskyldunni þegar kemur að vinsældum jólavörunnar. „Í Danmörku rekur ILVA sex verslanir, eina í Svíþjóð og svo höfum við áttundu verslunina hér. Þrátt fyrir að vera aðeins lítill hluti af heildinni seljum við hér í búðinni í Korputorgi helminginn af allri jólavöru ILVA í Skandinavíu. Úti í Danmörku skilja þeir ekkert í því hvað er í gangi hérna þegar við Íslendingar erum að skreyta hjá okkur fyrir jólin.“

Halda enn að sér höndum

Þrátt fyrir vaxandi sölu telur Róbert ekki hafa verið svigrúm til að stækka starfsemina. Hann segir að rekstrarumhverfið sé enn erfitt og aðstæður þannig að ekki sé ráðlegt að t.d. fjölga starfsmönnum. „Ekki má gleyma að síðasta ríkisstjórn lagði á rúmega 100 nýjar skattabreytingar, flestar fela í sér álagningu nýrra skatta eða hækkun sem við búum við enn þann dag í dag. Í stað þess að hjálpa litlu og meðalstóru fyrirtækjunum voru skattar og álögur hækkaðar og róðurinn gerður enn þyngri en hann hefði annars verið. Það er líka ákveðin stöðnun enn í gangi og fólk og fyrirtæki halda að sér höndum svo við verðum að fara varlega.“

Fundu gat í framboðinu

Róbert segir viðtökurnar sem ILVA hefur fengið sýna að gat var á markaðinum. „Við lögðum af stað með það fyrir augum að mæta þeirri þörf sem við þóttumst greina fyrir húsgögn í milliverðflokki. Verslanir á borð við Epal hafa dekkað dýrari enda markaðarins á meðan IKEA og Rúmfatalagerinn sinna lágvöruverðshlutanum en vöntun var þegar kom að miðjuflórunni. Þrátt fyrir áföllin sem dundu á árið 2008 hefur viðskiptahugmyndin gengið upp og reksturinn gengið á meðan margir aðrir hafa lagt upp laupana. Ég held að við höfum bæði hitt á rétta staðinn á markaðinum en njótum líka góðs af því að vera með framúrskarandi starfsfólk og vera hluti af stærri heild þar sem stór teymi sérfróðra aðila annast innkaup, framleiðslu og hönnun og gæta þess að vörurnar í versluninni hverju sinni endurspegli alltaf nýjustu strauma og stefnur í húsbúnaði og gjafavöru.“