[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Guðni Einarsson gudni@mbl.is Rjúpnaveiðar hefjast á morgun. Leyft verður að veiða í tólf daga, það er föstudag, laugardag og sunnudag um næstu fjórar helgar.

Fréttaskýring

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Rjúpnaveiðar hefjast á morgun. Leyft verður að veiða í tólf daga, það er föstudag, laugardag og sunnudag um næstu fjórar helgar. Jafnframt hefur verið ákveðið að sama fyrirkomulag gildi um rjúpnaveiði á árunum 2014 og 2015 að óbreyttum forsendum. Lagt er upp með að veitt verði tólf veiðidaga um helgar í október og nóvember næstu ár.

Umhverfisstofnun hvetur veiðimenn til að gæta hófsemi við veiðar. Áfram gildir sölubann á rjúpum og rjúpnaafurðum og á Umhverfisstofnun að fylgja því eftir. Rjúpan verður áfram friðuð á friðunarsvæðinu á suðvesturhorninu líkt og undanfarin ár. Stefnt er að því að hefja vinnu á vegum umhverfisráðuneytisins, í samstarfi við helstu hagsmunaaðila, við að kanna hvernig megi auka umfang slíkra svæða.

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra féllst á ráðleggingar Náttúrufræðistofnunar Íslands um ráðlagða rjúpnaveiði upp á 42.000 fugla í haust. Miðað við fjölda rjúpnaveiðimanna má gera ráð fyrir 6-7 rjúpum á mann.

Rjúpnastofninum hefur hnignað undanfarna áratugi, stofnsveiflan er enn til staðar en topparnir hafa orðið sífellt lægri. Rjúpnaveiðar voru bannaðar árin 2003 og 2004. Frá árinu 2005 hafa veiðar verið leyfðar en veiðidagar verið miklu færri en áður tíðkaðist og þá var sett sölubann á rjúpur og rjúpnaafurðir.

Rjúpnastofninn vaktaður

Náttúrufræðistofnun vaktar rjúpnastofninn með talningum, aldursgreiningum og veiðiskýrslum. Rjúpur eru taldar í öllum landshlutum á vorin og gögnin notuð til að reikna stofnvísitölu. Niðurstöður talninganna í vor komu mikið á óvart. Þær sýndu að fækkunarskeiði sem hófst á vestanverðu landinu 2009-2010 og á austanverðu landinu 2010-2011 er lokið í bili. Aukningin nam að meðaltali 47% fyrir öll talningarsvæði, samkvæmt greinargerð Náttúrufræðistofnunar um mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins haustið 2013. Rjúpur voru einnig taldar síðsumars til að meta viðkomuna. Hlutfall unga reyndist hátt, 79% á Norðausturlandi og 77% á Suðvesturlandi. Reiknuð stærð veiðistofnsins nú í haust er 447 þúsund fuglar en var í fyrrahaust 390 þúsund fuglar, að sögn Náttúrufræðistofnunar. Hún bendir á að þetta sé ekki stór stofn miðað við það sem áður hefur sést. Nú er stofninn vel fyrir neðan meðalstærð.

Í tillögum Umhverfisstofnunar um veiðistjórn á rjúpu haustið 2013 segir m.a. að það sé haft að leiðarljósi að veiðarnar séu sjálfbærar. Miðað við fengna reynslu séu níu veiðidagar, eins og síðustu tvö ár, of fáir m.a. með tilliti til öryggis veiðimanna. Því sé æskilegt að fjölga þeim. Bent er á að 70-80% veiðimanna veiði á færri en fjórum dögum, óháð því hvort leyfilegir veiðidagar eru 47 eða níu. Þá bendi gögn til þess að veiðimenn veiði að jafnaði 10% veiðistofns, eftir að sölubannið tók gildi, óháð leyfilegum veiðidagafjölda.

Að mati Umhverfisstofnunar er einkum fernt sem hefur áhrif á hve mikið er veitt úr stofninum. Fyrst er nefnt sölubannið, svo hvatning til hófsamrar veiði, þá stofnstærð hverju sinni sem hefur áhrif á fjölda veiddra fugla en fjöldi leyfðra veiðidaga hafi minni áhrif á hve mikið er veitt.

10% stofnsins veidd

Ekki er fylgni á milli fjölda leyfðra rjúpnaveiðidaga og veiðisóknar, að sögn Arne Sólmundssonar, verkfræðings og varaformanns Skotveiðifélags Íslands. Hann hefur skoðað tengsl veiðisóknar og veiðidaga.

„Sóknin stendur í stað og hefur ekki breyst frá 2005,“ sagði Arne. Veiðimenn veiða þá daga sem þeir þurfa til að afla fyrir sig. Heildaraflinn hefur hins vegar minnkað.

„Það er ekki vegna færri veiðidaga heldur vegna sölubannsins. Atvinnuveiðimenn eru dottnir út,“ sagði Arne. Hann sagði að fyrir sölubann hefðu verið veidd um 30% úr stofninum þegar hann var í lægð en um 20% í toppi. Eftir sölubann helst veiðihlutfallið í um 10% óháð stofnstærð.