Ný skoðanakönnun um fylgi flokka á landsvísu sýnir að Samfylkingin er hægt og rólega að rétta úr kútnum.

Ný skoðanakönnun um fylgi flokka á landsvísu sýnir að Samfylkingin er hægt og rólega að rétta úr kútnum. Þetta er gleðiefni fyrir Árna Pál Árnason sem mjög ómaklega fékk óvinsældir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í arf þegar hann tók við formennsku í Samfylkingunni. Það hefur svo ekki verið til að létta Árna Páli lífið að einstaka þingmenn Samfylkingar hafa ekki getað leynt því að þeir eru ekki sáttir við hin nýja formann sinn enda renna þeir sjálfir löngunaraugum til formannsstólsins. Það má því með sanni segja að Árni Páll hafi verið með erfitt veganesti þegar hann lagði af stað í formannsleiðangur sinn. Nú virðist gatan vera orðin greiðari.

Samfylkingin verður hins vegar að gæta sín vel á því að ana ekki út í vitleysisgang í stjórnarandstöðu, eins og hún gerði á dögunum þegar hún vældi og skældi vegna þess að forsætisráðherra hafði leyft sér að fara í nokkurra daga frí með fjölskyldu sinni. Það var ekki neyðarástand í landinu og því ekki nauðsynlegt að auglýsa ítrekað og með látum eftir forsætisráðherra, eins og Samfylkingin gerði svo kjánalega.

Fylgi Samfylkingarinnar á landsvísu er að rísa en skilar sér ekki í borginni, sem hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir flokkinn og þá sérstaklega Dag B. Eggertsson. Andstæðingar Besta flokkins tala iðulega á þeim nótum að Dagur sé hinn eiginlegi borgarstjóri í Reykjavík meðan Jón Gnarr sé þar ábyrgðarlaus og fái að gleyma sér í trúðslátum. Þeir gera hvað eftir annað lítið úr starfi Jóns Gnarr en sá málflutningur virðist ekki ná eyrum borgarbúa því fylgið sópast til hins litríka og óvenjulega borgarstjóra sem ber uppi Besta flokkinn. Borgarbúar virðast hins vegar ekki veita störfum Dags B. Eggertssonar neina athygli og líta ekki á hann sem vænlegt borgarstjóraefni, enda er hann í samanburði við borgarstjórann fremur óspennandi kerfiskall.

Samfylkingin virðist ekki ætla að ná neinum árangri í næstu borgarstjórnarkosningum og á þar allt sitt undir velvilja Besta flokksins. Það virðist ansi líklegt að Besti flokkurinn muni einmitt sækja í samstarf við Samfylkinguna enda hentar það honum best. Samfylkingin verður þá í hækjuhlutverki, en mun trúlega taka því hlutskipti af nokkurri ró, einfaldlega vegna þess að það er betra að vera hækjuflokkur í meirihlutasamstarfi en þurfa að húka í áhrifalausum minnihluta. Hins vegar hlýtur það að vera áhyggjuefni fyrir Samfylkinguna hversu mikið fylgi hún hefur misst til Besta flokksins. Þegar kemur að borgarmálum minnir Samfylkingin á flokk þar sem fámennur hópur ræður ríkjum og ekki er gert ráð fyrir endurnýjun vegna þess að borgarfulltrúarnir vilja halda í fína starfið sitt. Slíkur flokkur er ekki sérlega aðlaðandi valkostur fyrir borgarbúa.

kolbrun@mbl.is

Kolbrún Bergþórsdóttir

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir