Vigfús Skíðdal Gunnlaugsson fæddist í Ólafsfirði 24. október 1937. Hann lést á dvalarheimilinu Hornbrekku 22. september 2013.
Útför Vigfúsar fór fram frá Ólafsfjarðarkirkju 28. september 2013.
Elsku pabbi. Hvar á ég að byrja? Minningarnar eru svo margar, þú varst svo mikill karakter að það væri hægt að skrifa heila bók um þig. Ég á margar góðar minningar úr æsku. Ofarlega í huga mér eru þær tengdar bílum, ferðalögum og dýrum. Þið mamma voruð dugleg að ferðast með okkur systurnar um landið. Í einni slíkri ferð urðu til Surtla, Sandlóa, Dýjamóra, Jólahyrna og Smjörbalahvít en það voru rollur sem þú sást og sagðir okkur sögur af. Þetta fannst okkur systrunum fyndið.
Þegar ég var 12 ára fékk ég að keyra bíl hjá þér í fyrsta sinn. Við vorum upp á hálendinu þar var bara sandur og engin hætta á ferðum. Ég man að sá bíll var guli og hvíti jeppinn þinn en þeir voru ófáir bílarnir sem þú áttir um ævina. Á unglingsárunum gátum við alltaf treyst á að fá lánaðan bílinn hjá þér sama hve flottur hann var.
Stundum ruglaðir þú nöfnum okkar systranna og kallaðir; Anna, Elva, Selma, Svala og ekki gastu munað hve gamlar við vorum en gast þá alltaf treyst á minni mömmu.
Það sama má segja þegar vinkonur mínar voru í heimsókn, þú áttir erfitt með að muna hvað þær hétu og bjóst því bara til nöfnin s.s. Jósefína nauthól, Silla lús og Tobba trunta. Þú varst alltaf að flýta þér og hafðir óendanlegan kraft hvað vinnuna varðaði og allir könnuðust við Skíða en samt hafðir þú alltaf tíma fyrir okkur dæturnar.
Í Lundskógi undir þú þér vel þar sem þú byggðir Skíðastaði og plantaðir fjölda trjáa og vökvaðir af natni. Börnin mín fóru með þér í apa- og hreiðraleit og hafa þau eflaust fengið að heyra nokkrar sögur hjá þér.
Þegar þið mamma heimsóttuð okkur til Svíþjóðar voruð þið alltaf boðin og búin að hjálpa til og fannst þér lítið mál að keyra langar vegalengdir til að athuga hvort við værum ekki örugglega að fara á réttan stað. Í Uppsölum baðst þú Jóa að sýna þér Dómkirkjuna og vissum við þá við hvað þú áttir.
Í dag hefðir þú orðið 76 ára. Á 75 ára afmælinu þínu hvarflaði ekki að mér að þetta yrði síðasti afmælisdagur þinn. Ég hélt að þú yrðir fjörgamall eins og afi Laugi. Í næsta mánuði er gullbrúðkaupsdagur ykkar mömmu og voruð þið alla ykkar hjúskapartíð í húsinu sem þú byggðir á Hornbrekkuvegi 11.
Elsku pabbi, það er mér erfitt að skrifa um þig, ég sakna þín mjög mikið. Ég er óendanlega þakklát fyrir að ég var hjá þér og hélt í höndina á þér þegar þú kvaddir þennan heim. Pabbi, þú getur stólað á okkur systurnar að við verðum mömmu stoð og stytta eins og þið voruð alltaf til staðar fyrir okkur ef eitthvað bjátaði á.
Þín dóttir,
Elva.