[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
fótbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.

fótbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Eins og fram hefur komið mun Knattspyrnusamband Íslands fá verulega fjármuni frá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, takist íslenska landsliðinu að slá Króata út í umspilinu og tryggja sér sæti í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins sem haldin verður í Brasilíu næsta sumar. Þessi upphæð gæti numið allt að 1,2 milljörðum íslenskra króna svo það er gríðarlega mikið í húfi í komandi leikjum, sem verða á Laugardalsvelli 15. nóvember og í Zagreb fjórum dögum síðar.

Morgunblaðið setti sig í samband við Geir Þorsteinsson, formann KSÍ, og spurði hann hvort leikmenn landsliðsins myndu njóta ávinnings af því ef draumurinn rættist og Ísland yrði meðal þeirra 32 þjóða sem keppa í Brasilíu.

Myndi gjörbreyta rekstrarstöðunni

„Leikmennirnir munu njóta góðs af, eins og öll knattspyrnuhreyfingin, ef okkur tekst að vinna sæti í úrslitakeppninni. Það myndi gjörbreyta okkar rekstrarstöðu ef við kæmumst á HM. Við höfum rætt við leikmenn um bónusgreiðslur ef liðinu tekst að slá Króatana út og munum ganga frá þeim málum ef af verður að liðið komist í lokakeppnina. En svona almennt höfum við kosið að ræða minna um peningamálin og einbeita okkur frekar að sportlega þættinum. Það er oft auðvelt að tala um peninga sem eru ekki til og við viljum ekki falla í þá gryfju að gera það. Við höfum haft það að leiðarljósi í Knattspyrnusambandinu að afla teknanna áður en við eyðum þeim,“ sagði Geir við Morgunblaðið.

Langbesta árið í sögu íslenskrar knattspyrnu

Geir segist hafa fengið gríðarleg viðbrögð frá kollegum sínum út um allan heim eftir að íslenska landsliðið tryggði sér sæti í umspilinu.

„Ég hef fengið ótrúleg viðbrögð og þessi árangur hefur lyft okkur á enn hærri stall í knattspyrnuheiminum. Þetta ár er það langbesta í sögu íslenskrar knattspyrnu. Landsliðin okkar í karla- og kvennaflokki sem og yngri liðin hafa gert það virkilega gott og það er svo sannarlega gaman að vera formaður þegar gengið er svona gott. Það eru ekki bara landsliðin sem hafa staðið sig frábærlega heldur stóðu íslensku félagsliðin sig virkilega vel í Evrópukeppninni í ár og það er ekki hægt að segja annað en maður horfi björtum augum til framtíðar. En núna snýst allt um leikina við Króatíu og ég vonast til að Laugardalsvöllurinn verði bara í góðu ásigkomulagi þegar Króatarnir mæta hingað um miðjan næsta mánuð. Við munm gera allt til að hafa völlinn sem bestan,“ sagði Geir.