[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Una Sighvatsdóttir una@mbl.is Hulda Gunnlaugsdóttir segist ekki hafa leitt hugann að því að snúa aftur til starfa á Íslandi, eftir að hún hætti sem forstjóri stærsta sjúkrahúss Noregs í síðustu viku.

Viðtal

Una Sighvatsdóttir

una@mbl.is

Hulda Gunnlaugsdóttir segist ekki hafa leitt hugann að því að snúa aftur til starfa á Íslandi, eftir að hún hætti sem forstjóri stærsta sjúkrahúss Noregs í síðustu viku. Hún segir eðlismun á þeim vanda sem hún þurfti að takast við á Ahus annars vegar og á Landspítala hinsvegar, því hér hafi allt samfélagið verið undir.

„Það var ekki Landspítalinn í sjálfu sér sem átti í erfiðleikum, heldur allt þjóðfélagið. Það var stjórnmálaleg krísa og óöryggi í samfélaginu öllu. Það hefur áhrif á það hvernig maður rekur fyrirtæki. Landspítalinn er ekki bara stærsti opinberi vinnustaður á Íslandi heldur líka hornsteinn heilbrigðiskerfisins. Ef Landspítalinn hefði ekki gegnt sínu hlutverki hefði orðið enn meiri krísa á Íslandi. Á Ahus er staðan allt öðru vísi,“ sagði Hulda í samtali við mbl.is.

Ákvað sjálf að hætta

Á þriðjudag í síðustu viku tilkynnti stjórn háskólasjúkrahússins Akershus (Ahus) í Noregi að Hulda Gunnlaugsdóttir myndi hætta störfum þann sama dag. Skýringin var ólík sýn hennar og stjórnarnefndar sjúkrahússins á hvernig taka ætti á vandamálum Ahus.

„Ég ákvað að hætta, þegar ég gerði mér grein fyrir því að ég hefði ekki þann stuðning í stjórnarnefndinni sem ég vil meina að forstjóri þurfi að hafa þegar það eru miklir erfiðleikar sem taka þarf föstum tökum.“

Sem forstjóri hins nýja sjúkrahúss Ahus var Hulda í eldlínunni í umfangsmestu breytingum sem gerðar hafa verið á norsku heilbrigðiskerfi þar sem mikið gekk á. Hún segir að búið sé að vinna hörðum höndum að því að bæta gæðamál sjúkrahússins og öryggi sjúklinga, ásamt því að tryggja stöðu þess sem háskólasjúkrahúss.

„Nú var kominn tími til að snúa sér af fullum krafti að fjármálunum.“

Í ljós kom að þar greindi Huldu og stjórnarnefndina á um erfiðar ákvarðanir. Það sem réð úrslitum voru fyrirhugaðar breytingar Huldu á vaktafyrirkomulagi hjúkrunarfræðinga. Deilan náði út fyrir veggi sjúkrahússins og varð pólitísk á landsvísu að sögn Huldu.

Forvitnilegt er að bera saman vinnuumhverfi íslenskra og norskra heilbrigðisstarfsmanna, eins og það birtist í deilunum á Ahus.

Óheimilt að vinna yfir 200 tíma

„Vinnuverndarlöggjöfin í Noregi er mjög sterk og ef þú brýtur lögin er það alvarlegt mál. Við [á Ahus] höfðum margbrotið lögin hvað varðar yfirvinnu,“ segir Hulda.

Ekki er heimilt að vinna fleiri en 200 tíma á mánuði í Noregi án þess að sækja um sérstakt leyfi til þess til Vinnuverndarstofnunar þar í landi. Auk þess tók stéttafélag hjúkrunarfræðinga í Noregi þá ákvörðun fyrir 20 árum að enginn hjúkrunarfræðingur skuli vinna meira en þriðju hverja helgi samkvæmt vaktaplani.

Að sögn Huldu vinna þó flestir hjúkrunarfræðingur í raun mun meira en það. Munurinn er sá að það telst til aukavinnu, sem þeir ráða sjálfir hvort þeir taka, og launin fyrir það eru greidd á yfirvinnutaxta.

„Það sem ég ætlaði að gera var að setja inn í vaktaplanið að opnað yrði fyrir að auka helgarvinnu um allt að þrjár fleiri helgar á ári til viðbótar við þriðju hverja helgi. Meðal hjúkrunarfræðinga varð mikil óánægja með það, sem ég skil vel enda er ég hjúkrunarfræðingur sjálf. Auðvitað er það þannig að fólk er óánægt með að missa frjálst val, að geta ekki ákveðið sjálft hvenær það vinnur. En við vorum búin að skoða hvaða áhrif þetta hefði á mismunandi sviðum og deildum sjúkrahússins og því meira sem við unnum með þetta voru fleiri og fleiri sem sáu að þetta myndi verða betra bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk,“ segir Hulda.

Hinn valmöguleikinn er að minnka þjónustu við sjúklinga og segja upp starfsfólki. Hulda segist hafa valið fyrri kostinn af tvennu illu. Með þeim breytingum hefði verið unnt að spara sjúkrahúsinu 50 milljónir norskra króna í rekstrarkostnað á ári í formi yfirvinnu og fækka brotum á vinnuverndarlöggjöfinni. En starfsfólkið spyrnti við fótum og stéttarfélag hjúkrunarfræðinga í Noregi sömuleiðis.

„Ég var búin að kynna þetta fyrir stjórnarnefndinni strax í gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2013 og við vorum búin að fara í gegnum þetta á hverjum stjórnarfundi síðan í febrúar en það sem skeði er að þegar kom að því að hrinda þessu í framkvæmd þá bakkaði stjórnin,“ segir Hulda.

Norðmenn vilja frekar frí

Miðað við þetta verður ekki hjá því komist að spyrja Huldu hvort hún telji að norskt heilbrigðisstarfsfólk myndi sætta sig við þau kjör sem íslenskum kollegum þeirra er boðið upp á. Hulda segir að aðstæður séu eiginlega of ólíkar í þessum nágrannalöndum til að vera sambærilegar.

„Norðmenn eiga svo mikla peninga. Hér vill fólk frekar fá frí heldur en laun. Við getum líka snúið þessu við. Ef Ísland væri í sömu fjárhagslegu stöðu og Noregur myndi heilbrigðisstarfsfólk á Íslandi almennt ekki láta bjóða sér þetta.“

Hún bendir einnig á að norska vinnuverndarlöggjöfin sé einsdæmi í Evrópu, en er sannfærð um að það muni breytast með „bláu ríkisstjórninni“ sem tekin er við í Noregi. „Það er ekki bara félag hjúkrunarfræðinga sem er með pólitík, því nýja ríkisstjórnin boðar það í sinni stefnuskrá að milda vinnulöggjöfina. Þetta hefur verið rætt í mörg ár í Noregi, svo ég var ekki að setja neitt nýtt fram. Og þetta mun breytast.“

Þörf á enn harðari aðgerðum

Hulda segist ánægð með starf sitt síðustu 3 ár á Ahus. Mikill árangur hafi náðst á mörgum sviðum, bæði hvað varðar gæðamál og öryggi sjúklinga sem og rannsóknarstarf og kennslu á sjúkrahúsinu. „Við höfum hagrætt í rekstrinum um 12% síðastliðin tvö ár sem er meira en nokkurt sjúkrahús í Noregi hefur nokkurn tíma gert. En það dugði ekki til, það þarf harðari aðgerðir til þess að láta enda ná saman.“

Hún segir það vissulega vonbrigði að geta ekki fylgt eftir til enda þeim breytingum sem hún sá fyrir sér, enda hafi hún búist við að vera lengur en þrjú ár þegar hún tók við starfinu. „Auðvitað eru það vonbrigði. Ég hef alltaf mikla trú á þeim verkefnum sem ég tek að mér, en það er nú einu sinni svo að þegar erfiðleikarnir eru miklir eru ekki alltaf allir tilbúnir að gera það sem þarf að gera til að koma hlutunum á réttan kjöl.“

Framtíðin óráðin

En gæti Hulda hugsað sér að koma aftur til starfa á Íslandi, hvort sem væri á Landspítala, þar sem Björn Zoëga er nýhættur sem forstjóri, eða annars staðar í heilbrigðiskerfinu hér?

„Ég hef bara ekki hugleitt það ennþá. Hugur minn er allur á þeim vinnustað sem ég er á hverju sinni og ég er bara nýhætt,“ segir Hulda.

„Núna ætla ég bara að hvíla mig. Fara í ræktina og búa til góðan mat. Passa dóttur mína og skreppa á kaffihús um miðjan dag. Horfa á fólkið og njóta þess að lifa. Allt hefur sinn tíma, og nú er tími til þess að hvíla mig og byggja sjálfa mig upp.“

Rekin eins og fyrirtæki

Með allan þennan auð í Noregi hvarflar að manni að spyrja hvernig á því standi að stærsta bráðasjúkrahús landsins eigi í rekstrarerfiðleikum. Hulda segir málið ekki svo einfalt.

„Í Noregi eru sjúkrahúsin rekin eins og hvert annað fyrirtæki. Það er kannski stærsti munurinn miðað við Ísland. Þótt það séu til peningar er ekki endalaust hægt að dæla þeim inn. Hér er gerð gríðarleg krafa um fjárhagslegan árangur og farið fram á að sjúkrahúsið sé rekið með ágóða, sem á að fara í tækjakaup og annað.“

Vegna byggingar nýs sjúkrahúss nema skuldir Akershus nú sex milljörðum norskra króna og af þeim þarf að greiða 500 milljónir norskra króna í afborganir og vexti á hverju ári. „Á sama tíma er verið að gera miklar breytingar í rekstrinum og þessi hagræðing tekur sinn tíma og er mjög krefjandi. Það er ekki þannig að þú fáir peninga fyrir nýju sjúkrahúsi og haldir svo bara áfram.“