Það eru ekki bara Íslendingar sem bíða í ofvæni eftir að vita hvort karlalandsliði þjóðarinnar tekst að komast í fyrsta sinn í lokakeppni HM í knattspyrnu. Ísland fær til að mynda góðan stuðning frá hópi fólks í borginni Parma á Ítalíu. Þar eru nefnilega höfuðstöðvar íþróttavöruframleiðandans Errea, sem framleiðir íslenska landsliðsbúninginn. Errea hefur aldrei átt fulltrúa í lokakeppni HM, og í raun hefur það aðeins verið fjarlægur draumur, en bindur nú vonir við að sjá íslensku landsliðsmennina skarta merki fyrirtækisins frammi fyrir gjörvallri heimsbyggðinni á helstu knattspyrnuleikvöngum Brasilíu. Á tímum þegar flest landslið eru í búningum frá stærstu íþróttavöruframleiðendunum, Nike og Adidas, hefur Ísland haldið tryggð við Errea sem framleiðir einnig búninga fyrir Kongó og Sameinuðu arabísku furstadæmin, eftir því sem næst verður komist.
Á vefnum insideworldfootball.com er haft eftir útflutningsstjóra Errea að sala á íslensku landsliðstreyjunum hafi aukist um 20-30 prósent, nú rjúki treyjurnar út. Búast megi við „sprengingu“ komist Ísland á HM.
„Þegar maður framleiðir treyjur fyrir lið vonar maður auðvitað að því gangi vel. Maður heldur alltaf í vonina en ég er virkilega ánægður með að hún sé orðin frekar raunveruleg. Ég hlakka til að sjá umspilið,“ sagði útflutningsstjórinn Fabrizio Taddei, sem hefur ekki áhyggjur af því að fyrirtækið muni ekki geta svarað eftirspurninni.