Sýningarstjóri Kristín Scheving stofnaði hátíðina árið 2005.
Sýningarstjóri Kristín Scheving stofnaði hátíðina árið 2005.
Alþjóðlega kvikmynda- og myndbandslistahátíðin 700IS Hreindýraland verður formlega sett í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í kvöld kl. 20.

Alþjóðlega kvikmynda- og myndbandslistahátíðin 700IS Hreindýraland verður formlega sett í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í kvöld kl. 20. Hátíðin var stofnuð af Kristínu Scheving árið 2005 og fyrst haldin á Eiðum 2006, en hún er haldin í nánu samstarfi við Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs.

Meðal listamanna sem eiga verk í ár eru Dodda Maggy, Sigrún Harðardóttir, Sigurður Guðjónsson, Una Lorenzen, Steina, Elísabet Brynhildardóttir, Kríudóttir, Hulda Rós Guðnadóttir, Sally and Mo, Sari Cedergren, Auður Arna Oddgeirsdóttir, Þórður Grímsson, Viktoría Guðnadóttir, Selma Hreggviðsdóttir, Katrín I. Jónsdóttir Hjördísardóttir og Bjargey Ólafsdóttir.

„Hátíðin hefur breyst frá ári til árs og hefur til dæmis verið mismunandi þema á hverju ári og í ár verður þemað vídeólist sem útilistaverk. Varpað verður á hús og úr gluggum til að sem flestir fái að sjá verkið og eru gluggarnir þá notaðir sem einskonar skjáir,“ segir m.a. í tilkynningu. Þar kemur einnig fram að hátíðin hafi ferðast víða sl. ár og Kristínu, sýningarstjóra hátíðarinnar, verið boðið til Marseille á 50 ára afmælishátíð vídeólistar í heiminum nú í nóvember og einnig til Madríd í desember og Ecuador í byrjun næsta árs.

Boðið verður upp á sýningarstjóraspjall með Kristínu Scheving á laugardaginn kemur kl. 15 þar sem hún mun rekja sögu hátíðarinnar og einnig fara í gegnum praktísk mál eins og styrkjaumsóknir og fleiri liði. Allar nánari upplýsingar um hátíðina sem stendur fram á sunnudag, dagskrá hennar og hvenær opið er má finna á vefnum 700.is.