Ólafía B. Rafnsdóttir
Ólafía B. Rafnsdóttir
Eftir Ólafíu B. Rafnsdóttur: "Jafnlaunavottun VR er raunverulegt tæki til að jafna laun kynjanna þar sem atvinnulífið og launafólk vinna saman til hagsbóta fyrir alla."

VR hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á að berjast fyrir jafnri stöðu kynjanna á vinnumarkaði, enda mikið hagsmunamál fyrir okkar félagsmenn. Við höfum lagt áherslu á jafnréttismál við kjarasamningagerðina, skoðað sérstaklega stöðu kvenna í árlegum launakönnunum meðal félagsmanna, rutt brautina fyrir ný jafnréttislög með því að greiða félagsmönnum 80% laun í fæðingarorlofi, haldið námskeið, fundi og farið í herferðir svo fátt eitt sé nefnt.

Baráttan hefur skilað okkur áleiðis, það er rétt. Launamunur kynjanna hefur dregist saman til lengri tíma litið – í upphafi þessarar aldar var óútskýrður munur á launum karla og kvenna í félaginu rúmlega 15% en er í dag rúmlega 9%, samkvæmt niðurstöðum launakannana VR. En þetta dugar ekki til, jafnrétti er enn ekki í augsýn. Við verðum að taka höndum saman, launafólk og atvinnurekendur – hagsmunir okkar fara saman í þessari baráttu. Jafnlaunavottun VR er vettvangurinn til þess.

Jafnlaunavottun VR byggist á staðli Staðlaráðs Íslands um jafnlaunakerfi til vottunar sem gefinn var út í desember síðastliðnum. Markmið staðalsins er skýrt; að auðvelda atvinnurekendum að koma á og viðhalda launajafnrétti innan sinna eigin veggja. Forsendur þess að fyrirtæki innleiði staðalinn eru m.a. þær að þau móti launastefnu, ákveði launaviðmið og flokki störf samkvæmt ákveðinni starfaflokkun. Þá þarf fyrirtækið jafnframt að gera launagreiningu eða kerfisbundna úttekt á launum og kjörum starfsmanna í þeim tilgangi að kanna hvort kynbundinn launamunur sé til staðar.

Hvað er Jafnlaunavottun VR?

Jafnlaunavottun VR er hagnýtt stjórntæki fyrir fyrirtæki til að meta sína eigin frammistöðu í jafnréttismálum. Í Jafnlaunavottun VR felst viðurkennd aðferðafræði við að innleiða kröfur staðalsins og jafnlaunaviðmið sem byggja á þeim kröfum. Fyrirtæki skuldbinda sig til að hlíta reglubundnu eftirliti þar sem sannreynt er að jafnlaunakerfi fyrirtækisins sé virkt og að fyrirtækið fylgi eigin skjalfestu verklagi sem uppfylli kröfur staðalsins. Jafnlaunavottun VR gerir þær kröfur að fyrirtæki bregðist strax við og leiðrétti ef í ljós kemur óútskýrður launamunur kynjanna.

Jafnlaunavottunin gerir einnig þá kröfu að vottunaraðili sé óháður og að öll fyrirtæki uppfylli sömu viðmið þegar kemur að kröfum staðalsins. VR er í samstarfi við BSI á Íslandi ehf., umboðsskrifstofu British Standards Institution sem er viðurkennt, alþjóðlegt vottunarfyrirtæki.

Jafnlaunavottun VR, eins og innleiðing staðalsins sjálfs, er valkvæð. Nú þegar hafa ellefu fyrirtæki fengið vottun og á fjórða tug hafa sótt um. Ávinningurinn er augljós – bæði fyrir fyrirtæki og starfsmenn. Fyrirtæki sem hlýtur Jafnlaunavottun sýnir starfsfólki sínu og samfélaginu öllu að það mismuni ekki starfsmönnum eftir kyni, að þar sé jafnrétti haft að leiðarljósi við ákvörðun launa og að launastefnan sé skýr og gegnsæ. Fyrirtæki sem hlýtur Jafnlaunavottun VR er fyrirtæki sem vill axla sína samfélagslegu ábyrgð og getur þannig styrkt stöðu sína gagnvart hluthöfum, almenningi og síðast en ekki síst, starfsmönnum.

Hvatning til atvinnulífsins

24. október er stór dagur í jafnréttisbaráttunni hér á landi og minnir okkur á mikilvægi kvenna í atvinnulífinu. Margt hefur áunnist frá því að tugir þúsunda kvenna lögðu niður störf árið 1975 – en það er bara ekki nóg. Við hjá VR höfum nú kynnt hagnýtt stjórntæki fyrir fyrirtækin til þess að vinna gegn launamun kynjanna á vinnustöðum. Ég vil nota tækifærið í tilefni af þessum merka degi og hvetja atvinnulífið til að vinna með okkur – jafnréttismál eru kjaramál.

Höfundur er formaður VR.

Höf.: Ólafíu B. Rafnsdóttur