Völd Greenspan gegndi embætti bankastjóra Seðlabanka Bandaríkjanna í næstum tuttugu ár, frá 1987 til 2006, þegar Bernanke tók við af honum.
Völd Greenspan gegndi embætti bankastjóra Seðlabanka Bandaríkjanna í næstum tuttugu ár, frá 1987 til 2006, þegar Bernanke tók við af honum. — EPA
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný bók Alans Greenspans, fyrrverandi bankastjóra Seðlabanka Bandaríkjanna, kom út á þriðjudaginn en bókarinnar var beðið með mikilli eftirvæntingu. Fjallað hefur verið um hana í erlendum fjölmiðlum undanfarna daga en þar kemur ýmislegt forvitnilegt...

Ný bók Alans Greenspans, fyrrverandi bankastjóra Seðlabanka Bandaríkjanna, kom út á þriðjudaginn en bókarinnar var beðið með mikilli eftirvæntingu. Fjallað hefur verið um hana í erlendum fjölmiðlum undanfarna daga en þar kemur ýmislegt forvitnilegt fram.

Eins og von var kemur Greenspan stefnu Seðlabankans árin fyrir hrunið til varnar og segist ekki skilja þá gagnrýni sem bankinn hefur fengið. Einkum segist hann vera gáttaður á þeirri gagnrýni að lágvaxtastefna bankans hafi átt stóran, ef ekki stærstan, þátt í hruninu. Og í bókinni fullyrðir hann að hann hafi fyrst heyrt þessa gagnrýni árið 2007 þegar prófessorinn John Taylor benti honum á sambandið milli ódýrs lánsfjármagns og bólu á húsnæðismarkaði. „Stefna bankans hafði alls ekkert með húsnæðisbóluna að gera,“ segir Greenspan. „Það er fáránlegt.“

Varnaðarorð Mises

Það er augljóst að Greenspan hefur ekki kynnt sér austurríska skólann í hagfræði, fyrst hann heyrði þessa gagnrýni ekki fyrr en árið 2007, en hagfræðingurinn Ludwig von Mises varaði við þeirri hættu sem stafaði af miðstýringu seðlabanka á vöxtum þegar hann setti fram kenningu sína um hagsveifluna árið 1912.

Vextir gegna afar mikilvægu hlutverki í hagkerfinu. Þeir veita þýðingarmiklar upplýsingar og beina fjármagni í verkefni – eftir áhættu – á skilvirkan hátt. Hagfræðingar af austurríska skólanum hafa bent á að á undanförnum áratugum hafi vextirnir ekki verið frjálsir. Þess í stað hafi seðlabankar boðið upp á mjög ódýrt – næstum ókeypis – lánsfé sem hvatti fólk og fyrirtæki til að taka lán og festa fé í eignum í stað þess að leggja til hliðar. Í Bandaríkjunum blésu til dæmis opinberir fasteignasjóðir af miklum krafti í blöðruna. Blaðran hlaut þó að springa að lokum, sem hún gerði, og niðursveifla tók við. Kom þá í ljós að ýmsar fjárfestingar, sem virtust vera arðbærar í krafti lágra vaxta, reyndust óarðbærar, eins og Mises hafði skýrt svo skilmerkilega út.

Strax árið 2006 fór Peter Schiff, forstjóri Euro Pacific Capital og fylgismaður austurríska skólans, að vara við því að hátt fasteignaverð bæri öll merki bólumyndunar og að sú bóla myndi óhjákvæmilega springa.

„Það er ekki auður sem hefur aukist á síðustu árum. Við höfum ekki aukið framleiðslugetu okkar. Það eina sem hefur vaxið er pappírsvirði hlutabréfa og fasteigna. Það er ekki raunverulegur auður. Þegar við sjáum hlutabréfamarkaðinn hrynja og fasteignabóluna springa mun allur þessi falski auður gufa upp,“ sagði hann í viðtali á CNBC 28. ágúst 2006. Það var hins vegar hlegið að honum.

Greenspan er margt til lista lagt og varpar bók hans ljósi á mörg af helstu vandamálum bandarísks hagkerfis. En hann hefði gott af því að kynna sér austurríska skólann í hagfræði.