Þórmar fæddist á Dalvík 22. mars 1929. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 13. október 2013.
Útför Þórmars fór fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju 18. október 2013.
Elsku afi. Það er með miklum trega og sorg í hjarta sem ég kveð þig nú. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að ég muni aldrei sjá þig aftur. Betri manneskjur hef ég ekki þekkt en þig og Gunnu ömmu. Þú varst alltaf svo góður við okkur barnabörnin og það var alltaf jafngott að koma í heimsókn á fallega og hlýja heimilið ykkar. Það er þó huggun harmi gegn að minningarnar um þær stundir sem við áttum saman munu fylgja mér alla ævi og hlýja mér í sorginni. Þú verður alltaf fyrirmynd mín og ég yrði heppinn ef ég fengi að upplifa helminginn af því sem þú hefur afrekað. Ég var, er og verð ávallt stoltur af að hafa átt þig sem afa. Ég er betri maður fyrir vikið og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Megi minning þín lifa áfram og veita okkur styrk og innblástur.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum)
Hvíldu í friði, elsku afi minn.
Þinn afastrákur,
Arnþór Elíasson.