Urðun Stefnt er að því að hætta urðun úrgangs í Álfsnesi á næstu árum.
Urðun Stefnt er að því að hætta urðun úrgangs í Álfsnesi á næstu árum. — Mosfellingur/Raggi Óla
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Stefnt er að því að hætta urðun í Álfsnesi í Reykjavík á næstu fjórum til fimm árum auk þess sem reisa á gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Stefnt er að því að hætta urðun í Álfsnesi í Reykjavík á næstu fjórum til fimm árum auk þess sem reisa á gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi.

Stjórn samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hefur samþykkt eigendasamkomulag um meðhöndlun úrgangs og stefnt er að undirritun þess á aðalfundi samtakanna föstudaginn 25. október. Þetta kemur fram í bæjarblaði Mosfellsbæjar, Mosfellingi í dag. Mikil lyktarmengun hefur verið vegna sorpstöðvarinnar í Álfsnesi og hafa íbúar í Leirvogstunguhverfi í Mosfellsbæ ítrekað kvartað undan henni. Samkvæmt samkomulaginu verður strax hafist handa við lokun á Gými, móttöku fyrir lyktsterkan úrgang. Næstu 4-6 mánuði verður gripið til sérstakra ráðstafana til að loka af móttökuna við Gými þannig að engin losun fari fram undir berum himni. Þá segir í Mosfellingi að Gýmir verði þéttur eins og kostur er auk fleiri ráðstafana til þess að draga úr lyktarmenguninni. Lokunin verður í nokkrum áföngum og lýkur með byggingu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar að 2-3 árum liðnum. Mun hún rísa norðanvert á Álfsnesi, sem fjærst þéttbýli.

Níu svæði til skoðunar

Að sögn Björns Halldórssonar, framkvæmdastjóra Sorpu, á enn eftir að taka ákvörðun um það hvar beri að urða það sem ekki er hægt að nýta í gas- og jarðgerðarstöðinni á Álfsnesi. Níu staðir koma til greina samkvæmt Sameiginlegri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2009-2020. Það eru tvö svæði á Austursandi við Þorlákshöfn, Stafnes í Sandgerði, Krísuvíkurheiði í Hafnarfirði, Bakki á Kjalarnesi, Fíflholt í Borgarbyggð, Vellir á Kjalarnesi, Ás í Hvalfjarðarsveit og Ferjuholt í Ásahreppi.