Bjarney Steinunn Jóhannesdóttir fæddist á Flateyri 1. apríl 1932. Hún lést í Víðihlíð í Grindavík 6. október 2013.

Hún var dóttir Jóhannesar Jóns Ívars Guðmundssonar, f. í Ísafjarðarsýslu 6. apríl 1908, d. 27. mars 1978, og Sigríðar Magnúsdóttur, f. í Ísafjarðarsýslu 19. júlí 1911, d. 20. maí 1995. Systkini: Guðfinna, f. 1933, d. 2009, Kári Ævar, f. 1937, Gíslína Jónína, f. 1939, og Kristján Jón, f. 1951, d. 2006.

Eiginmaður Bjarneyjar er Guðmundur Sveinn Haraldsson, f. í Súðavík 11. janúar 1935. Þau giftust 11. ágúst 1956. Börn þeirra eru: 1) Jóhannes Jón Ívar, f. 1954. 2) Haraldur, f. 1955. 3) Sigríður, f. 1957. 4) Heiðar Þór, f. 1958. 5) Jóna Auður, f. 1962, lést af slysförum 1981. 6) Kári, f. 1970.

Bjarney bjó sín uppeldisár á Flateyri og flutti suður ung. Hún fór að vinna aðeins 14 ára á Djúpuvík, hún vann í eldhúsinu á Vífilsstöðum eftir það. Hún flutti með eiginmanni sínum til Reykjavíkur, eftir það fluttu þau til Keflavík í nokkur ár. Þau fluttu til Grindavíkur 1969 og voru þar í mörg ár. Hún vann þar í fiskvinnslu og beitningu. Hún fór einnig á sjó og sá um eldamennskuna. Þau fluttu til Keflavíkur 1995 og byrjaði hún að vinna á kaffistofu Hreyfils. Árið 1997 fluttu þau í Árbæinn og vann hún á kaffistofu Hreyfils til 2006. Árið 2011 fluttu þau til Grindavíkur á Víðihlíð.

Útför Bjarneyjar fer fram frá Grindavíkurkirkju í dag, 24. október 2013, kl. 11.

Elsku Badda, erfitt er að setjast niður og kveðja þig. Ég sakna þess að sjá þig og hitta þig í Víðihlíð. Skrítið er að fara til Guðmundar og ekki yfir til þín.

Ég veit að þér líður betur núna, heilsan var ekki orðin góð. Minningarnar streyma og mörg tár hafa fallið. Þú varst hörkudugleg kona og gafst ekkert eftir í neinu. Matargerð og bakstur lá vel fyrir þér, þú bakaðir í langan tíma fyrir öll börnin þín margar tegundir af smákökum og þrílitakökuna þína. Man hvað stelpunum fannst gaman að fá þær, sérstaklega mömmukökurnar með litaða kreminu. Þú gafst þér alltaf tíma til að koma til okkar og hringja í okkur og þykir mér vænt um það.

Þegar Eva Kristín var eins árs fengum við að halda afmælisveisluna hennar heima hjá þér, þú hjálpaðir við undirbúninginn langt fram á nótt með Kára. Kökunar voru yndislegar eftir ykkur. Þegar Kolfinna Auður var skírð bakaðir þú skírnarkökuna, kakan var svo flott, eins og eftir bakarameistara.

Berjaferðin sem við fórum var yndisleg, gistum í Gilsfirðinum. Aðalbláber var það eina sem þú vildir tína og keyrðum við um til að finna þau, því þú vildir ekkert annað. Auðvitað komstu með bakað bakkelsi því þú vildir ekki að barnabörnin hefðu ekkert gott að grípa í.

Það var gaman að þú gast komið með á ættarmótið vestur á Flateyri og gist með okkur. Þér fannst það yndislegt og gaman að hópurinn kom saman. Þú talaðir oft við mig eftir það um hvenær við færum vestur, því þér leið vel þar. Því miður leyfði heilsan ekki fleiri ferðir vestur.

Ég veit að þú ert á góðum stað núna umvafin englum. En missirinn fyrir fjöskyldu þína er mikill.

Þótt stormur lífsins skelli okkur á

ég standa vil stöðug þér við.

Ég treysti að Drottinn beri okkur þá

og gefi okkur ætíð ró sína og frið.

Elsku Badda, ég kveð þig með söknuði og bið guðs engla að gæta þín.

Þín tengdadóttir,

Alma.

Elsku amma okkar er látin og finnst okkur það erfitt að hún sé farin. Það var svo gaman að fá þig til okkar í mat eða baka með pabba. Fyrir jólin gafstu okkur margar tegundir af kökum. Stundum þegar þú komst í heimsókn komstu með pönnukökupönnuna með þér og bakaðir handa okkur. Okkur þykir rosalega vænt um þig og eigum eftir að sakna þín og heimsækja þig. Við biðjum Guð að passa þig. Við pössum afa fyrir þig. Knús til þín, elsku amma okkar.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Þín barnabörn

Díana Ösp, Kolfinna

Auður og Eva Kristín.

Nú er hún elsku stóra systir látin 81 ára að aldri, en hún var elst okkar fimm systkinanna. Það hefur heldur betur fækkað í þeim hópi, en eftir stöndum við nú tvö, undirritaður og Gíslína. Þegar fréttin um andlátið kom var ég staddur erlendis með konunni minni og vorum við bæði miklum harmi slegin þrátt fyrir að hafa fylgst með dalandi heilsufari Böddu síðustu árin þar sem hún bjó með manni sínum í Víðihlíð í Grindavík. Strax í minningunni kemur ótal margt upp í hugann og þá fyrst minningin af sjálfum mér sem litlum dreng innan um systur mínar, en Gógó og Badda voru alltaf svo óskaplega góðar við litla drenginn í fjölskyldunni, keluðu, knúsuðu, leiðbeindu og hjálpuðu á allan hátt. Það voru ófá gælunöfnin sem ég fékk eins og t.d. lilli-bró, krúttið og mörg fleiri. Þetta var mikið hamingjutímabil sem ég upplifði með systrum mínum í litla húsinu okkar á Flateyri.

Tíminn leið, við uxum úr grasi og brátt urðum við að fara að sjá fyrir okkur sjálf. Badda fór til Reykjavíkur og byrjaði að vinna á Vífilsstöðum í mötuneytinu. Þar byrjaði að koma fram hvaða mannkostum hún var gædd og hversu dugleg og flink hún var við allt sem hún tók sér fyrir hendur. Hún fór létt með það að baka pönnukökur á 4 pönnum samtímis og þótti það eftirtektarvert á þeim tíma. Hún var fislétt á fæti, snögg í snúningum, og sérlega handfljót og með lipra fingur. Badda tamdi sér það tungutak að segja „bara ekkert mál“, sem hún svo oft notaði, því hún var vön að ganga til verka með jákvætt hugarfar, kjark og dugnað.

Þegar þau hjónin, Badda og Mummi, fóru að byggja raðhúsið sitt í Grindavík gekk hún til flestra verka í byggingarvinnunni með sínum alkunna dugnaði, þrautseigju og bjartsýni að leiðarljósi. Þetta skyldi sko takast vel sem það og gerði. Síðar á lífsferlinum þegar eiginmaðurinn stundaði útgerð af krafti munaði Böddu ekkert um að skreppa niður í verbúð og beita nokkur bjóð af fiskilínu fyrir næsta róður.

Af verkum hennar tengdum heimilishaldinu sást að hún var mikil smekkmanneskja og þegar kom að matargerð var hún einnig einstök. Það var bakað og matreitt, og matur borinn fram á skreyttum borðum sem hún mátti vera stolt af, enda var ávallt gott og gleðilegt að koma í veislu til Böddu systur.

Um manneskjuna – hana systur mína – má nefna ýmislegt. Hún var í eðli sínu mikill fagurkeri, gestrisin, hafði góðan smekk fyrir klæðaburði, glöð og kát, en gat verið svolítið stór upp á sig, ef svo bar undir. En umfram allt var hún svo blíðlynd og góð. Þegar ég hafði samband við syni okkar til að láta þá vita af andláti hennar minntist ég á að nú væri það mitt að skrifa nokkur minningarorð. Báðir brugðust þeir nánast við á sama hátt og sögðu að það væri nú létt fyrir mig því hún Badda frænka hefði verið svo einstaklega blíð og góð kona – og það var hún svo sannarlega.

Nú þegar komið er að kveðjustund viljum við votta eiginmanni, börnum og öllum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Hvíl í friði, kæra systir,

Kári bróðir

og fjölskylda.