Guðrún Jakobsdóttir fæddist á Akranesi 21. júlí 1961. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 13. október 2013.

Foreldrar hennar eru Jakob Magnússon, f. 18.4. 1925, d. 9.8. 2005, og Þorbjörg Svava Auðunsdóttir, f. 27.10. 1928, bændur á bænum Samtúni, Reykholti í Borgarfirði. Systkini Guðrúnar eru: 1) Magnús, f. 14.4. 1947. 2) Margrét Arnheiður, f. 8.1. 1952, eiginmaður Sigurður Guðni Sigurðsson, f. 14.9. 1952. 3) Sveinsína Erla, f. 12.7. 1953, eiginmaður Óskar Alfreð Beck f. 5.8. 1952.

Guðrún giftist 19.6. 1982 Ólafi Gunnarssyni bifvélavirkja, f. 8.10. 1959. Börn þeirra eru: 1) Sigríður Þóra, f. 29.8. 1978, sambýlismaður hennar er Kristófer Jóhannsson, f. 25.9. 1973. 2) Gunnar Örn, f. 11.10. 1984, sambýliskona hans er Hulda Ósk Guðbjörnsdóttir, f. 11.8. 1986. Sonur Gunnars og fyrrverandi sambýliskonu, Jónu Dagbjartar Pétursdóttur, f. 2.4. 1987, er Matthías Breki, f. 14.8. 2007. Einnig á Hulda Ósk soninn Gabriel Mána, f. 5.3. 2007.

Guðrún ólst upp á bænum Samtúni, Reykholti í Borgarfirði. Hún starfaði lengst af sem félagsliði hjá Reykjavíkurborg.

Útför Guðrúnar fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 24. október 2013, kl. 13.

Elsku besta mamma mín. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig. Mér þótti ofboðslega vænt um þig. Ég man þegar ég var yngri og þú lést mig vita þegar Brúðubíllinn var í útvarpinu eða sjónvarpinu, hann var nefnilega í miklu uppáhaldi hjá mér.

Þegar ég var níu ára fórst þú með mig til augnlæknis og konan sem tók á móti okkur hélt að þú værir systir mín. Svo þegar ég fótbrotnaði þá dróst þú mig á snjóþotu í skólann svo að ég mundi ekki missa mikið úr.

Við gerðum heilmikið saman, ég fór t.d. með þig í bæjarferðir þegar pabbi komst ekki með þér. Við bökuðum smákökur fyrir jólin, margar sortir, við skreyttum líka húsið saman, þú varst svo mikið jólabarn.

Ég fékk mjög mikinn stuðning frá þér þegar ég skildi og einnig þegar ég missti fóstur nú í sumar. Ég á eftir að sakna þín mikið elsku mamma mín.

Ég veit að það verður tekið vel á móti þér af bæði Gunnari afa og Jakobi afa.

Ég mun passa vel upp á pabba og Gunnar Örn.

Mér finnst ég varla heill né hálfur maður

og heldur ósjálfbjarga, því er verr.

Ef værir þú hjá mér vildi ég glaður

verða betri en ég er.

Eitt sinn verða allir menn að deyja.

Eftir bjartan daginn kemur nótt.

Ég harma það en samt ég verð að segja,

að sumarið líður allt of fljótt.

Ég gái út um gluggann minn

hvort gangir þú um hliðið inn.

Mér alltaf sýnist ég sjái þig.

Ég rýni út um rifurnar.

Ég reyndar sé þig alls staðar.

Þá napurt er, það næðir hér

og nístir mig.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson)

Þín dóttir,

Sigríður Þóra.

Elsku mamma mín, það var gott að koma til þín, ég gat alltaf treyst á þig, alltaf talað við þig og þú varst alltaf tilbúin að hlusta og hjálpa mér. Þú vildir gjarnan hafa mig hjá þér og ég vildi líka gjarnan vera hjá þér. Þú varst góð við alla og vildir engum mein.

Ég man vel að þegar ég var ungur og æfði sund í Sundhöllinni í Reykjavík, þá fórst þú oft með mig í strætó á æfingar og svo kenndir þú mér á að taka strætó sjálfur.

Þér þótti svo gaman að ferðast bæði innanlands og til útlanda. Þér þótti svo vænt um að fá Matta í heimsókn og hlakkaðir alltaf til þess, þú hlakkaðir líka svo til að fá annað barnabarn sem er von á í janúar.

Síðasta skiptið þegar ég hitti þig var á afmælinu mínu, þá faðmaði ég þig og sagði þér að mér þætti vænt um þig og að ég elskaði þig. Það voru síðustu orð mín til þín.

Þinn sonur,

Gunnar Örn.