Vantar meira eftirlit? Ég get ekki orða bundist. Það hefur verið umræða um vændi og kampavínsklúbba en ég hef verið að keyra leigubíl um helgar og þar sér maður og kynnist undirheimum borgarinnar.
Vantar meira eftirlit?
Ég get ekki orða bundist. Það hefur verið umræða um vændi og kampavínsklúbba en ég hef verið að keyra leigubíl um helgar og þar sér maður og kynnist undirheimum borgarinnar. Ég veit að borgaryfirvöld hafa verið að amast yfir skiltum frá fyrirtækjum í borginni en um helgar virðist skilti t.d. frá kampavínsklúbbnum við Lækjargötu vera látið afskiptalaust við gangbraut á horni Lækjargötu og Bankastrætis. Ég sé dyravörðinn koma með það um miðnætti og stilla því upp við gangbrautina í þeim tilgangi að freista þess að menn láti glepjast og komi. Svo heyri ég í bílnum menn tala sín á milli um þær háu fjárhæðir, sem skipta oft tugum þúsunda, sem þeir hafa greitt fyrir þjónustu. Skiltið stendur svo alla nóttina því enginn amast við því, svo er það borið til baka undir morgun. Hvar er eftirlitið? Einnig hef ég orðið var við að eiturlyfjanotkun hefur aukist mikið og fólki finnst ekki tiltökumál að ræða það þótt aðrir heyri.
Borgarbúi.