Vakin er athygli á því í minnisblaði fjármálaráðuneytisins til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að eitthvað sé um að einstaklingar misnoti gildandi ákvæði um undanþágu frá greiðslu stimpilgjalda vegna kaupa á fyrsta íbúðarhúsnæði.

Vakin er athygli á því í minnisblaði fjármálaráðuneytisins til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að eitthvað sé um að einstaklingar misnoti gildandi ákvæði um undanþágu frá greiðslu stimpilgjalda vegna kaupa á fyrsta íbúðarhúsnæði.

Frá 2008 hafa veðlán sem tekin eru vegna fyrstu íbúðakaupa verið undanþegin stimpilgjaldi ef húsnæðið er notað í eigin þágu. Skv. heimildum Morgunblaðsins munu vera dæmi um að einstaklingar sem fengið hafa undanþáguna hafi keypt húsnæði og leigt það aftur út. Einnig hafa komið í ljós tilvik þar sem einstaklingar hafi fengið undanþágu þó að þeir hafi áður átt fasteign.

Í minnisblaðinu til þingsins bendir fjármálaráðuneytið á að ef áform séu uppi um að bæta undanþágu frá stimpilgjaldi við nýtt frumvarp um stimpilgjald sé e.t.v. tilefni til að skoða hvort undanþágan ætti að takmarkast við ákveðinn aldur eða hvort setja eigi þak á þá fjárhæð sem undanþegin er gjaldinu.

Vilja að hætt verði við hækkun

Í frumvarpinu sem þingið hefur nú til umfjöllunar er lagt til að stimpilgjöld af öllum lánsskjölum verði felld niður en hins vegar verður stimpilgjald af skjölum sem áfram verða gjaldskyld hækkuð. ASÍ bendir á í umsögn við frumvarpið að þetta getur haft í för með sér að einstaklingar sem eru að kaupa sitt fyrsta húsnæði þurfi að greiða hærri stimpilgjöld eftir breytinguna en þeir gera miðað við núverandi undanþágu.

Sýnt er með dæmi að einstaklingur sem kaupir 35 millj. kr. eign og lánið er 23 milljónir, myndi við fyrstu kaup greiða 140 þús. kr. í stimpilgjald vegna kaupsamnings eða afsals. ,,Hann hefði síðan ekkert stimpilgjald greitt vegna 23 millj. kr. lánsins. Verði frumvarp þetta að lögum mun þessi sami einstaklingur greiða 280 þús. kr. í stimpilgjald í stað 140 þús. kr. vegna kaupsamnings eða afsals og eins og fyrr ekkert stimpilgjald vegna veðlánsins,“ segir í umsögn ASÍ, sem hvetur til þingið til að hverfa frá þessari hækkun.

omfr@mbl.is