Stækkun „Ýmis ný byggingarverkefni eru þegar farin af stað og m.a.s. stjórnvöld farin að ljá máls á því að fjölga verði íbúðum,“ segir Ólafur um möguleikana framundan.
Stækkun „Ýmis ný byggingarverkefni eru þegar farin af stað og m.a.s. stjórnvöld farin að ljá máls á því að fjölga verði íbúðum,“ segir Ólafur um möguleikana framundan. — Morgunblaðið/Rósa Braga
Þegar hrunið skall á datt sala á eldhúsinnréttingum niður. Í verslun Ormsson í Lágmúla höguðu menn seglum eftir vindi og minnkuðu veglegan sýningarsalinn á 2. hæð verslunarinnar til að rýma fyrir öðrum þáttum í rekstrinum.

Þegar hrunið skall á datt sala á eldhúsinnréttingum niður. Í verslun Ormsson í Lágmúla höguðu menn seglum eftir vindi og minnkuðu veglegan sýningarsalinn á 2. hæð verslunarinnar til að rýma fyrir öðrum þáttum í rekstrinum.

Ólafur Már Sigurðsson deildarstjóri segir að vísbendingar séu um að bjartara sé framundan og hefur sýningarsalurinn á 2. hæð nú verið færður aftur í upprunalega stærð og þar verið komið fyrir öllum nýjustu línunum frá danska innréttingaframleiðandanum HTH.

„Við förum núna í fulla 440 fm og sýnum bæði almenningi og húsbyggjendum möguleikana sem eru í boði. Telst mér til að í sýningarsalnum megi núna finna tíu ólíkar útfærslur af eldhúsinnréttingum, átta baðherbergi, fataherbergi, fataskápa og þvottahúsinnréttingar auk þess að þar er að finna ýmsar aðrar hugmyndir að innréttingum fyrir heimilið.“

Ormsson hefur haft söluumboð fyrir HTH í 15 ár en vörumerkið á sér 30 ára sögu hér á landi. „Það að við skyldum sækjast eftir því að selja innréttingar kom til af því að við höfðum um langt skeið selt heimilistæki og fundum fyrir því að oft voru kaupendur að standa í stærri framkvæmdum í eldhúsinu eða inni á baði. Lá beinast við að selja bæði raftækin og innréttingarnar á einum stað.“

Ólafur segir að greina megi merki þess að byggingariðnaðurinn sé aftur að komast á hreyfingu. Sala á innréttingum sé mjög háð fjölda nýbygginga og ljóst að eftir stöðnunina sem varð í húsbyggingum sé að verða til uppsöfnuð þörf fyrir fleiri ný heimili. „Talað er um að það þurfi að byggja á bilinu 1.500 til 1.800 nýjar íbúðir ár hvert til að mæta fólksfjölgun og flutningum milli landshluta. Ýmis ný byggingarverkefni eru þegar farin af stað og m.a.s. stjórnvöld farin að ljá máls á því að fjölga verði íbúðum töluvert á næstu árum.“

Að sögn Ólafs hefur tískan ekki mikið breyst á þeim árum sem liðin eru frá hruni en áherslur viðskiptavina hafa þó tekið breytingum að því leyti að þeir eru tilbúnir að blanda meira saman efnum eins og spónlögðum við og sprautulökkuðu. „Við sjáum líka vaxandi áhuga á melamín hurðarframhliðum í stað spónlagðra enda er melamínið um 20% ódýrara en samt með fallega, slitsterka áferð.“ ai@mbl.is