Bankar Seðlabanki Evrópu vill meta eignasöfn evrópskra banka.
Bankar Seðlabanki Evrópu vill meta eignasöfn evrópskra banka. — AFP
Kristinn Ingi Jónsson kij@mbl.is Seðlabanki Evrópu ætlar að gera álagspróf í um 130 bankastofnunum innan evrusvæðisins en um er að ræða eitt umfangsmesta próf sem ráðist hefur verið í.

Kristinn Ingi Jónsson

kij@mbl.is

Seðlabanki Evrópu ætlar að gera álagspróf í um 130 bankastofnunum innan evrusvæðisins en um er að ræða eitt umfangsmesta próf sem ráðist hefur verið í. Hlutabréf fjölmargra evrópskra banka féllu í verði í gær, eftir að Mario Draghi, bankastjóri Seðlabankans, tilkynnti prófið.

Bréf ítalskra banka féllu um 3% þegar markaðir voru opnaðir og bréf stærstu bankanna á Spáni, í Frakklandi og Þýskalandi féllu um 2%. Óttast fjárfestar að bankarnir standist álagsprófið ekki, að því er segir í frétt Financial Times .

„Við reiknum með að þetta próf muni renna styrkari stoðum undir tiltrú einkageirans á evrusvæðið og gæði eignasafna evrópskra banka,“ sagði Draghi í yfirlýsingu.

Fram kemur í Wall Street Journal að álagsprófið verði gert að bandarískri fyrirmynd en bandaríska fjármálaeftirlitið lagði próf fyrir 19 stærstu banka landsins fyrir fjórum árum. Þá stóðust tíu bankar ekki prófið.

Það eru enn blikur á lofti á evrusvæðinu þrátt fyrir að ástandið sé skárra en oft áður. Hagvöxtur hefur verið óstöðugur og tiltölulega lítill, í kringum 1%, og atvinnuleysi mælist mjög mikið.

Þeir sérfræðingar sem Bloomberg ræddi við segja að bæði bankar og fjárfestar muni hagnast á álagsprófinu, ef vel gengur.

Áætlað er að prófinu verði lokið í nóvembermánuði á næsta ári og mun þá Seðlabanki Evrópu tilkynna hvaða bankar þurfi að bæta eiginfjárstöðu sína.