Áframhaldandi vöxtur Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, segir að stefnt sé að frekari vexti á komandi árum og til að stuðla að því á að halda áfram að byggja upp og þróa flutninganet Samskipa.
Áframhaldandi vöxtur Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, segir að stefnt sé að frekari vexti á komandi árum og til að stuðla að því á að halda áfram að byggja upp og þróa flutninganet Samskipa. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Samskip eru meðal stærri gámaflutningafélaga í Evrópu • Árið 2005 varð erlenda starfsemin meiri en sú íslenska eftir kaup á erlendum flutningafélögum • Ásbjörn Gíslason, annar forstjóri Samskipa, hefur starfað hjá fyrirtækinu frá því að...

• Samskip eru meðal stærri gámaflutningafélaga í Evrópu • Árið 2005 varð erlenda starfsemin meiri en sú íslenska eftir kaup á erlendum flutningafélögum • Ásbjörn Gíslason, annar forstjóri Samskipa, hefur starfað hjá fyrirtækinu frá því að hann útskrifaðist úr Háskóla Íslands fyrir 18 árum

Viðtal

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Samskip eru alþjóðlegt flutningafélag sem skipar sér sess meðal stærri gámaflutningafélaga í Evrópu. Einungis 20% af veltunni eiga rætur að rekja til Íslands. Til samanburðar tengist um helmingur umsvifa Eimskips Íslandi. Ásbjörn Gíslason, annar tveggja forstjóra Samskipa, segir að árið 2005 hafi erlenda starfsemin orðið meiri en sú íslenska eftir kaup á erlendum flutningafélögum. Fram hefur komið í fjölmiðlum að í tengslum við þau kaup voru höfuðstöðvarnar fluttar frá Íslandi til Rotterdam, sem er með stærri umskipunarhöfnum í heimi og sú stærsta í Evrópu. Til að varpa ljósi á hve umfangsmikill reksturinn er, þá reka Samskip 46 skrifstofur í 24 löndum í Evrópu, Asíu, Ástralíu og Norður- og Suður-Ameríku. Umsvifin kalla á um 1.400 starfsmenn.

Spurður um framtíðarsýnina segir Ásbjörn að Ísland sé og verði áfram hornsteinn í rekstri félagsins. „Við erum ákaflega stolt af uppruna félagsins og þátttöku okkar í samfélaginu. Við Íslendingar erum fámenn þjóð og því eru vaxtartækifæri félagsins eðlilega meiri erlendis. Við horfum m.a. til markaða í Austur-Evrópu en þeir vaxa hraðar en í Vestur-Evrópu,“ segir hann.

Stefnt að frekari vexti

Ásbjörn segir að stefnt sé að frekari vexti á komandi árum og til að stuðla að því á að halda áfram að byggja upp og þróa flutninganet Samskipa. Spurður hvort það komi til greina að vaxa með frekari fyrirtækjakaupum segir Ásbjörn að það þurfi að koma í ljós. „Við sjáum til með það – við höfum augun opin,“ segir hann.

Það er í nægu að snúast hjá Samskipum. „Gámaflutningakerfi okkar flytja árlega hátt í 700 þúsund gámaeiningar, sem er gríðarlegt magn. Flutningum er sinnt með skipum, lestum, fljótaprömmum og bílum. Flutningsmagn fer vaxandi og það næst sífellt betri stýring á rekstrinum, en lykillinn að árangri er að ná sem bestri nýtingu á flutningatækin þ.e.a.s. skipin og gámana. Gámafloti okkar telur um 19.000 gáma.“

Félagið er jafnframt mjög umsvifamikið í flutningum á frystum afurðum, en í gegnum kerfi Samskipa og tengdra félaga fer árlega hátt í ein milljón tonna af frystum afurðum og er stærstur hluti þess sjávarafurðir.

Undirliggjandi vöxtur

Þrátt fyrir að á móti hafi blásið í alþjóðlegu efnahagslífi hefur undirliggjandi árlegur innri vöxtur verið í kringum 6-8% hjá félaginu á undanförnum árum. Velta samstæðunnar nam um 500 milljónum evra árið 2011, var 535 milljónir árið 2012 og áætlanir gera ráð fyrir að hún verði 570 milljónir evra í ár eða 94 milljarðar íslenskra króna en eins og áður hefur komið fram koma um 20% af veltunni frá Íslandi. Til samanburðar velti Eimskip 424 milljónum evra árið 2012 eða um 70 milljörðum króna. Samskip hafa vaxið hratt á undanförnum árum, bæði með fyrirtækjakaupum og innri vexti. Til upplýsingar þá var velta Samskipasamstæðunnar um 14 milljarðar íslenskra króna árið 2002.

Ásbjörn segir að fyrirtækið hafi stigið varlega til jarðar í upphafi þegar það var að koma sér fyrir erlendis. Samskip voru stofnuð árið 1990 á grunni skipadeildar Sambandsins. Fimm árum síðar opnuðu þau sínar fyrstu skrifstofur erlendis og urðu Danmörk og Holland fyrir valinu, en fram að þeim tíma voru Samskip hefðbundið íslenskt skipafélag með umboðsskrifstofur víða um heim. „Síðan höfum við vaxið jafnt og þétt og langmest erlendis.“

Alla tíð hjá Samskipum

Ásbjörn hefur starfað hjá Samskipum í 18 ár eða frá því að hann útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Um svipað leyti fóru Samskip að reyna fyrir sér erlendis. Hann hóf störf í útflutningsdeild félagsins en fluttist síðan til Hollands og Þýskalands þar sem hann bjó í sex ár og leiddi uppbyggingu Samskipa erlendis á árunum 2000 til 2005 og bar jafnframt ábyrgð á erlendri starfsemi félagsins.

Árið 2003 settist hann við annan mann í forstjórastól Samskipa og Ólafur Ólafsson, þá forstjóri, tók við sem starfandi stjórnarformaður. Fyrsti forstjórinn sem starfaði við hlið Ásbjörns var Knútur G. Hauksson sem tók síðar við sem forstjóri bílaumboðsins Heklu. Árið 2010 keypti hann Vélasvið Heklu út úr fyrirtækinu og stofnaði Klett. Ásbjörn segir að nú sé Ólafur stjórnarformaður sem fylgist vel með rekstrinum enda sé hann aðaleigandi Samskipa.

Daninn Jens Holger Nielsen er annar forstjóri Samskipa. Kristinn Albertsson er fjármálastjóri samstæðunnar og saman mynda þeir stjórnendateymi félagsins. Þeir skipta verkum þannig á milli sín að Jens annast reksturinn í Evrópu, stýrir alþjóðlegri frystiflutningsmiðlun og skrifstofunum í Asíu og Bandaríkjunum, en Ásbjörn stýrir íslenska rekstrinum, rekstri í Færeyjum, frystigeymslum og kemur að frystiskipaútgerðinni í Noregi. Kristinn hefur umsjón með fjármálum samstæðunnar.

Frystigeymslurnar eru staðsettar í fjórum löndum: Hollandi, Noregi, Færeyjum og Íslandi og eru hollensku og norsku geymslurnar reknar undir nafninu FrigoCare en hinar tvær í nafni Samskipa. Samskip eiga 25% hlut í frystiskipaútgerðinni Silver Green sem rekur 13 frystiskip er sigla einkum frá Íslandi, Færeyjum, Noregi og Hjaltlandseyjum til meginlands Evrópu, Bretlands, Skandinavíu, Eystrasaltsríkjanna og Rússlands.

Lestarkerfi í Evrópu

Samskip reka umfangsmikið lestarkerfi í Evrópu og hjartað í þeim rekstri er í Duisburg í Þýskalandi. „Nýja stöðin í Duisburg sem opnuð var í janúar sl. tengir saman stór markaðssvæði. Til dæmis koma vörur frá Ítalíu til Þýskalands og fara þaðan m.a. til Skandinavíu. Þetta er umhverfisvænt flutningakerfi sem við finnum að skiptir viðskiptavini okkar æ meira máli. Við höfum mikinn áhuga á að þróa leiðakerfið enn frekar,“ segir Ásbjörn.

Veltan dróst saman um 30% eftir hrun

Það ætti engan að undra að efnahagsþrengingar ársins 2008 höfðu veruleg áhrif á flutningafélög um allan heim þar sem gífurlegur samdráttur varð í flutningum. Ásbjörn hefur sagt frá því í fjölmiðlum að veltan hafi dregist saman um 30% á árunum 2008 og 2009. Verkefnin snérust þá meðal annars um björgunaraðgerðir til þess að snúa við erfiðum rekstri í kjölfar efnahagshrunsins.

Ásbjörn segir að reksturinn hafi farið batnandi árin 2010 til 2012 og að hagnaður síðasta árs hafi verið um níu milljónir evra eða um 1,5 milljarðar íslenskra króna. „Það er ánægjulegt að segja frá því að afkoman í Evrópuhluta Samskipa hefur batnað og verður æ betri með hverju ári.“ Árið í ár verði aftur á móti erfiðara á Íslandi, m.a. vegna þess að efnahagslífið er að taka hægar við sér en væntingar stóðu til. Þrátt fyrir það ákváðu Samskip fyrr á þessu ári að hefja uppbyggingu á nýrri strandsiglingarleið. „Okkar skip voru orðin vel nýtt og við vildum bregðast við því og jukum við flutningsgetu félagsins, en það vantar samt enn tilfinnanlega meira líf í innflutninginn,“ segir hann.

Undir Íslandshatt Samskipa heyra einnig Landflutningar – Samskip og flutningsmiðlunin Jónar Transport. Samskip reka þrjú skip sem sinna Íslandssiglingum sem þjóna landinu öllu. Á liðnum vetri bættist ný siglingaleið við sem Ásbjörn er stoltur af. „Áður fyrr var einungis siglt suður fyrir en nú bjóðum við – fyrstir nota bene – upp á að sigla jafnframt norður fyrir. Það er mikil þörf fyrir beinar siglingar frá Vestfjörðum og Norðurlandi, m.a. með sjávarafurðir til Bretlands og meginlands Evrópu,“ en nefnir einnig að í Eyjafirði sé mikill iðnaður sem kallar á reglulega flutninga. Leiðin er þessi: Reykjavík – Ísafjörður – Sauðárkrókur – Akureyri – Reyðarfjörður – Kollafjörður – Immingham – Rotterdam – Reykjavík. Ásbjörn bætir við að mögulega muni viðkomuhöfnum fjölga í framtíðinni.

Hann segir að nýja leiðin dragi úr landflutningum og því fylgi mikið hagræði fyrir viðskiptavini. „Dýr olía sparast, álagið á vegakerfið minnkar og breytingin því afar jákvæð og umhverfisvæn sem er í samræmi við stefnu félagsins,“ Þá skipti það einnig viðskiptavini Samskipa fjárhagslega miklu máli að komast í beint samband við mikilvægustu markaðssvæði í Evrópu.

Sakar Eimskip um að reyna að bola Samskipum af markaði

Samkeppniseftirlitið gerði húsleit hjá Samskipum og dótturfélagi þeirra hinn 10. september síðastliðinn. Fram hefur komið í fjölmiðlum að rannsóknin varði landflutningamarkaðinn, sjóflutningamarkaðinn sem og flutningsmiðlunarmarkaðinn.

„Við aðstoðuðum Samkeppniseftirlitið þegar þau komu í húsleitina, og munum gera það áfram. Við höfum í raun ekki heyrt neitt frekar en upplýst hefur verið í fjölmiðlum, að rannsóknin geti tekið marga mánuði og hugsanlega ár. Í kjölfar rannsóknarinnar höfum við farið yfir starfsemi okkar og okkur hefur ekki ennþá tekist að átta okkur á því í hverju möguleg samkeppnisbrot okkar eiga að felast. Samkeppniseftirlitið hefur á sama tíma neitað að upplýsa okkur um forsendur rannsóknarinnar og húsleitarinnar nema með þeim almenna hætti sem komið hefur fram.“

Samskip kvartaði yfir Eimskip

„Samskip sendu samkeppnisyfirvöldum á sínum tíma kvörtun vegna misbeitingar á markaðsráðandi stöðu Eimskips á markaði farmflutninga milli Íslands og Evrópu annars vegar og milli Íslands og Norður-Ameríku hins vegar.

Samkeppnisyfirvöld rannsökuðu málið og kváðu upp úrskurð í desember 2007 um að Eimskip væri gert að greiða sekt upp á 310 milljónir króna en sektarupphæðin var síðar lækkuð í 230 milljónir króna. Samkeppnisyfirvöld komust þá að þeirri niðurstöðu að Eimskip hefði reynt að hrekja Samskip af flutningsmarkaði og útrýma þannig samkeppni. Markmið markaðsatlögunnar var að „nýta mátt“ hins markaðsráðandi fyrirtækis til að veikja „fjárhagslega veikburða“ fyrirtæki, í þessu tilfelli Samskip.

Okkur finnst sambærileg staða búin að vera á markaðnum undanfarin ár. Við urðum að bregðast við og fækka skipum og skera niður í flutningakerfi okkar í kjölfar efnahagskreppu og stóðum uppi fjárhagslega veikari eins og svo mörg fyrirtæki í landinu.“

Eimskip sterkt eftir gjaldþrot

„Eimskip kom hins vegar fjárhagslega mjög sterkt út úr gjaldþrotum erlendra dótturfélaga og nauðasamningum sem félagið fór í gegnum og fékk risavaxnar fjárhæðir afskrifaðar. Eimskip er því með mjög sterka stöðu á markaði, bæði fjárhagslega sterka og var ekki neytt til að skera niður flutningakerfi sín sem hefði verið eðlileg og viðskiptaleg viðbrögð í svo miklum magnsamdrætti til og frá Íslandi. Þegar við tilkynntum fyrr á árinu um tímamótabreytingar á siglingakerfi okkar, með viðkomu á ströndinni, þá tilkynntu þeir rúmri viku síðar um sömu áform, með því að bæta við enn fleiri skipum en ólíkt okkur voru þeirra skip langt í frá fullnýtt. Okkur finnst þeir einvörðungu vera að þessu til að veikja markaðsstöðu okkar, í krafti fjárhagslegs styrks og markaðsráðandi stöðu. Við höfum lagt fram kvörtun til Samkeppniseftirlitsins af því tilefni,“ segir Ásbjörn.

Keyptu Samskip fyrir 700 milljónir

Árið 2010 keypti Samskip Management Team 90% hlut í Samskipum fyrir um 700 milljónir króna, að því er segir í frétt Morgunblaðsins frá þeim tíma. Flutningafélagið var áður í eigu fjárfestingafélags Ólafs Ólafssonar, Kjalar. Hjörleifur Jakobsson, stjórnarmaður í Samskipum, sagði í frétt Morgunblaðsins frá þeim tíma að rekstur Samskipa hefði verið erfiður á síðustu misserum, en með hlutafjáraukningunni væri efnahagur félagsins styrktur og rekstrarstaðan bætt. Ásbjörn lét þess getið í fréttinni að engar afskriftir væru fyrirhugaðar á skuldum Samskipa. Þeir sem standa að baki SMT eru Ólafur Ólafsson, sem sagður er leggja fram stærstan hlut upphæðarinnar, Hjörleifur Jakobsson, stjórnarmaður Samskipa, Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, Kristinn Albertsson, fjármálastjóri Samskipa, og Jens Nielsen forstjóri.

Hafa keypt fimm skip á þremur árum

Samskip hafa keypt fimm skip á þremur árum, en reka í allt 13 skip. Ásbjörn segir að í því felist mikil breyting þar sem fyrirtækið hafi í gegnum árin og áratugina leigt skipaflotann. Hann rekur þessa breyttu stefnu til þess að efnahagsþrengingarnar hafi skapað kauptækifæri á notuðum skipum fyrir skipafélög eins og Samskip. Nýbyggingar á skipum eru hins vegar dýr kostur í dag í samanburði við verð á notuðum skipum, enda eru þær í sögulegu lágmarki í heiminum um þessar mundir.

Samskip keyptu fyrr í haust skipið Samskip Akrafell. Árið 2012 keypti félagið skipin Arnarfell og Helgafell en þau voru sérstaklega hönnuð og smíðuð fyrir Samskip árið 2005. Frá þeim tíma höfðu þau verið á svokallaðri þurrleigu. Skipin Samskip Endeavour og Samskip Innovator voru keypt árið 2011 fyrir starfsemina í Hollandi.

Tækifæri á norðurslóðum

Ásbjörn segir að Samskip standi frammi fyrir áhugaverðum tækifærum á norðurslóðum. „Við höfum sterka stöðu á Íslandi, í Færeyjum og Noregi og norðurslóðir eru skammt undan. Það munu skapast tækifæri fyrir félagið á að sinna þjónustu við olíuleit á Drekasvæðinu bæði Íslands- og Noregsmegin. Þar mun eiga sér stað mikil uppbygging, en það gerist ekki á einni nóttu heldur verður talið í árum og áratugum í þeim efnum,“ segir hann. „Það eru jafnframt áhugaverðir tímar framundan á Grænlandi, sem er markaður sem við horfum til til lengri tíma.“