Veisla Brasilía hefur upp á margt að bjóða, þar á meðal stóran og stæðilegan heimamarkað sem stjórnvöld hafa reist æ hærri verndarmúra utan um. Mannhafið við messu páfa á ströndinni í Ríó de Janeiro í sumar.
Veisla Brasilía hefur upp á margt að bjóða, þar á meðal stóran og stæðilegan heimamarkað sem stjórnvöld hafa reist æ hærri verndarmúra utan um. Mannhafið við messu páfa á ströndinni í Ríó de Janeiro í sumar. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Frá tölvuleikjum til bíla virðist sem verndarstefna brasilískra stjórnvalda sé að virka til að knýja erlend stórfyrirtæki til að koma með starfsemi inn í landið.

Fréttaskýring

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Frá tölvuleikjum til bíla virðist sem verndarstefna brasilískra stjórnvalda sé að virka til að knýja erlend stórfyrirtæki til að koma með starfsemi inn í landið.

Það fauk í tölvuleikjaunnendur í Brasilíu þegar fréttist að nýjasta PlayStation-leikjatölvan yrði margfalt dýrari þar í landi en annars staðar. PlayStation 4 frá Sony er væntanleg á markað í nóvember og mun leikjatölvan kosta 399 dali (47.900 kr.) í Bandaríkjunum en vera ögn dýrari í Evrópu þar sem hún kostar 349 pund á breska markaðinum og 399 evrur annars staðar. Enginn fær þó að borga jafnhátt verð og Brasilíubúar sem eiga von á að greiða nærri 1.850 dali (222.000 kr.) fyrir tækið. Mætti fyrir verð einnar leikjatölvu í Ríó kaupa fjórar og hálfa í New York.

Almenningur í Brasilíu brást svo illa við fréttunum að Sony þurfti að setja almannatengslamaskínuna af stað og útskýra að japanski tæknirisinn væri ekki að okra á landsmönnum heldur væri vandinn heimagerður. Stjórnvöld í Brasilíu leggja svimandi háa skatta og gjöld á innflutt raftæki. Af verðinu sem neytendur greiða fyrir leikjatölvuna fær ríkissjóður í sinn hlut um 63%.

Bílaframleiðendur streyma inn

Fréttavefur NPR gerði málinu skil í vikunni og hefur eftir óhressum brasilískum netverjum að leikjatölvan verði svo dýr að ódýrara sé að taka næstu flugvél til Bandaríkjanna, kaupa tölvuna þar og fljúga til baka.

Enn áhugaverðara er að NPR hefur eftir talsmönnum Sony að fyrirtækið gæti hafið framleiðslu í Brasilíu til að sneiða hjá verndarmúrunum en PlayStation 4 verður til að byrja með aðeins framleidd í Kína. Myndi Sony þá fylgja í fótspor Daimler sem tilkynnti á dögunum að ný bílasamsetningarverksmiðja verði gangsett árið 2016, að hluta til til þess að létta byrðina af himinháum gjöldunum sem hið opinbera leggur á innflutt ökutæki.

Reuters greinir frá því að nýja verksmiðjan muni framleiða allt að 20.000 bíla á ári og skapa allt að 1.000 störf í verksmiðjunni sjálfri auk 3.000 afleiddra starfa. Á verksmiðjan að kosta um 170 milljónir evra, jafnvirði 28 milljarða króna, og enginn smábiti jafnvel fyrir risa eins og Daimler. Skömmu áður hafði Audi ráðist í samskonar stórræði í Brasilíu fyrir verksmiðju sem framleiða mun Q3- og A3-týpur og BMW tilkynnti á síðsta ári að 200 milljónir evra verði lagðar í verksmiðju í Brasilíu sem verður gangfær strax á næsta ári.

Ómótstæðilegur markaður?

Þessi tíðindi úr Brasilíu eru ekki síst merkileg fyrir þær sakir að það þykja viðtekin sannindi í hagfræði að verndarmúrar gera innanlandsmarkaði meira ógagn en gagn til lengri tíma litið. Í tilviki Brasilíu virðist hins vegar að heimamarkaðurinn sé svo safaríkur biti að haftamúrar espa erlenda framleiðendur upp og fá þá til að fjárfesta í nýjum verksmiðjum frekar en að leyfa keppinautunum að njóta þess forskots sem myndi fylgja því að vera fyrstur til að setja færibandið af stað innan múranna.

Erfitt er að greina hver heildaráhrifin af brasilísku verndartollunum eru og hvort ný verksmiðjustörf bæta upp kostnaðinn af dýrari vörum. Nær skattpíningin ekki bara til leikjatölva og bíla heldur til ótal margra neysluvara. Forbes fjallaði um þróunina árið 2012 þegar Guido Mantenga, fjármálaráðhera Brasilíu, lagði nýja tolla á um 100 vörutegundir, til að „örva framleiðslu innanlands,“ eins og ráðherrann orðaðið það. Samhliða verndartollunum lýstu stjórnvöld því yfir að nánar gætur yrðu hafðar á verðlagi til neytenda og öll vernd afnumin hið bráðasta ef óeðlilegar verðhækkanir kæmu í ljós.

Mantenga hefur sagt að Brasilía sé undir „umsátri“ innfluttra vara og hækkaði hann skatta á innflutta bíla um 30 prósentustig árið 2011 til að vernda illa stadda framleiðendur heimafyrir. Þá voru gerðar breytingar á lögum um ríkisinnkaup til að gefa innlendri framleiðslu forskot. Forbes segir að kínverskir búningar brasilískra lögreglumanna hafi þótt pólitískt óheppilegir.

Gleymdar sögubækur

Þeir sem þekkja hagsögu Brasilíu furða sig ekki síst á þessari þróun vegna þess að landið hefur áður fetað svipaða stigu með afleitum árangri. Tímabilið frá 1950 til 1970 er oft notað í kennslubókum um hvernig verndarstefna getur endað með ósköpum. Voru þá lagðir mjög háir tollar á innflutning með það fyrir augum að brasilískur iðnaður myndi mæta þörfum markaðarins og blómstra í skjóli verndarmúranna. Allt virtist ætla að ganga að óskum þar til hagkerfið hrundi skyndilega. Hafði brasilíski iðnaðurinn orðið óskilvirkur og einangraður og var löngu hættur að vera samkeppnishæfur við erlenda framleiðendur.

Vaknar nú sú spurning hvort Brasilíu sé að takast að brjóta lögmál hagfræðinnar, að því er virðist í krafti stórs innri markaðar. Það er t.d. ekki að ástæðulausu að þýsku bílarisarnir vilja ekki lenda utan verndarmúranna því bílamarkaðurinn í Brasilíu er sá fjórði stærsti í heiminum á eftir Kína, Bandaríkjunum og Japan.

Íbúafjöldinn er heldur ekkert smáræði, 195 milljón manns eða 32% af íbúafjölda allrar Rómönsku Ameríku, og litlu minna en samanlagður íbúafjöldi Þýskalands, Bretlands og Frakklands.