Millidómstig Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við lagadeild HR, var meðal frummælenda á hátíðarmálþingi Úlfljóts, tímarits laganema við Háskóla Íslands í gær. Hann fjallaði um það sem huga yrði að við gerð nýs dómstigs.
Millidómstig Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við lagadeild HR, var meðal frummælenda á hátíðarmálþingi Úlfljóts, tímarits laganema við Háskóla Íslands í gær. Hann fjallaði um það sem huga yrði að við gerð nýs dómstigs. — Morgunblaðið/Rósa Braga
Björn Már Ólafsson bmo@mbl.

Björn Már Ólafsson

bmo@mbl.is

„Lögfræðingar eru alls ekki sammála um allt, og má jafnvel segja að þeir þiggi oft ekki frið ef ófriður er í boði, en flestir virðast vera sammála um millidómstig,“ sagði Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, á hátíðarmálþingi Úlfljóts, tímarits laganema HÍ, í gær. Umfjöllunarefni málþingsins var millidómstig, en Hafsteinn á sæti í nefnd sem innanríkisráðherra skipaði í sumar, sem hefur það hlutverk að undirbúa millidómstig.

Hæstiréttur starfi í einni deild

Hafsteinn hóf málþingið á því að fara yfir það hvar málið er statt í löggjafarferlinu. Sagði hann stofnun millidómstigs vera hluta af réttaröryggisáætlun stjórnvalda. Búið væri að taka ákvörðun um að millidómstig yrði stofnað, og mun það taka bæði til sakamála og einkamála. Einnig hefur verið ákveðið að Hæstiréttur starfi í einni deild.

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari var einnig á meðal frummælenda. Hann sagði marga áratugi liðna síðan millidómstig hefði fyrst borið á góma meðal lögfræðinga. Hann sagði að fyrir allmörgum árum hefði meira að segja verið ákveðið að nafn dómstigsins skyldi verða Lögrétta. Hins vegar hefði síðan ekkert orðið af dómstiginu. Jón furðaði sig í erindi sínu á því hvers vegna málið hefði tekið eins langan tíma og raun bæri vitni. „Millidómstigið hefði átt að vera stofnað strax árið 2011 þegar vinnuhópur skilaði af sér skýrslu um slíkt dómstig.“ Hann segir að hægt hafi verið að samþykkja lagabreytingar síðla árs 2011, en í stað þess hafi hæstaréttardómurum tímabundið verið fjölgað í tólf, en varanlegum breytingum verið slegið á frest.

Endurskoðun sönnunarfærslu

Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, fjallaði um það sem gæta þyrfti að við gerð nýs dómstigs. Taldi hann að best væri ef eitt millidómstig yrði fyrir landið allt og að hann yrði einungis áfrýjunardómstóll. Einnig væri mikilvægt að millidómstigið gæti endurskoðað sönnunarfærslu héraðsdóms, enda leiddi núverandi kerfi til þess að dómstigin væru í raun fjögur. Hæstiréttur gæti ógilt dóma héraðsdóms og þá færi málið aftur til meðferðar í héraði og svo aftur upp í Hæstarétt. Fundargestir voru sammála um að Hæstiréttur ætti að taka á færri málum en nú er, og aðeins í mikilvægum málum, til dæmis þeim er vörðuðu stjórnskipun.

Aukið réttlæti ekki ókeypis

Sigurður sagði stofnkostnað millidómstigs geta verið um 164 milljónir, og að rekstrarkostnaður dómstólanna gæti hækkað um 240 milljónir á ári. Málið snerist því líka um það hversu miklu réttlæti við hefðum efni á hér á landi. Eva Bryndís Helgadóttir hæstaréttarlögmaður fjallaði að lokum um einkamál á millidómstigi. Hún benti á að skoða þyrfti sérstaklega hvernig millidómstigið endurskoðaði héraðsdóma þar sem sérfróðir meðdómendur hefðu dæmt í málum.