[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aijmbl.is Ekki er að vænta mikilla breytinga í heildarframboði á hvítfiski á næsta ári, þó svo að breytingar séu innan ákveðinna tegunda.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aijmbl.is

Ekki er að vænta mikilla breytinga í heildarframboði á hvítfiski á næsta ári, þó svo að breytingar séu innan ákveðinna tegunda. Afli í þessum tegundum hefur vaxið síðustu ár og á þessu ári er áætlað að framboðið fari í fyrsta skipti í langan tíma yfir sjö milljónir tonna. Á næsta ári er ekki búist við aukningu og þá virðist vera að hægja á vexti fiskeldis í heiminum.

„Hvað framboð varðar sé ég ekki miklar sveiflur framundan,“ segir Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood Internartional. Hann var einn af nokkrum Íslendingum sem sóttu árlega heimsráðstefnu forystumanna í framleiðslu og sölu á hvítfiski eða botnfiski, Ground Fish Forum, í Vín í síðustu viku. Fundinn sóttu 270 manns úr þessum iðnaði alls staðar að úr heiminum og var farið vítt og breitt yfir framboð, stöðu á mörkuðum, áætlanir og útlit fyrir 2014 og samkeppnistegundir úr eldi eins og lax, tilapíu og pangasius.

„Í stuttu máli var staða næsta árs metin og reynt að fá heildarsýn yfir það við hverju má búast í framboði og eftirspurn. Hversu mikið fer í salt, í frosið og ferskt og aðrar framleiðslueiningar. Þarna komu menn úr öllum heimsálfum og greindu frá því hvað er að gerast á einstökum markaðssvæðum og lögðu mat á stöðuna,“ segir Helgi.

Alaskaufsi er sú einstaka tegund sem mest veiðist af, en í ár er áætlað að aflinn verði yfir 3,3 milljónir tonna, en dragist saman um 70 þúsund tonn á næsta ári. Rússar eru atkvæðamestir í þessum veiðum með um 1.600 þúsund tonn á næsta ári.

Aukning í þorski kemur frá Íslandi

Atlantshafsþorskur kemur næstur með um 1.350 þúsund tonn í ár og reiknað er með aukningu á næsta ári um 10 þúsund tonn. Frá Íslandi er áætlað að framboðið aukist um 15 þúsund tonn. Mikið stökk varð í veiðum á Atlantshafsþorski í fyrra er Norðmenn og Rússar juku kvóta sína í Barentshafi um nálægt 200 þúsund tonnum og gáfu út kvóta upp á milljón tonn.

Af öðrum helstu tegundum botnfiska er áætlað að á næsta ári verði veidd tæplega 340 þúsund tonn af ufsa, um 280 þúsund tonn af ýsu og að nokkrar tegundir lýsings gefi um milljón tonn.

Mun minna framboð af ýsu

„Ef litið er á einstakar tegundir er athyglisvert hversu mjög framboð af ýsu hefur minnkað,“ segir Helgi. Fyrstu sjö mánuði þessa árs var framboðið um 18% minna heldur en á sama tíma í fyrra og þessi þróun heldur áfram á næsta ári. Alls var ýsuafli 2012 um 428 þúsund tonn, aflinn er áætlaður 298 þúsund tonn í ár og að hann dragist enn saman um 20.000 tonn á næsta ári.

Á Íslandi hefur lítillega verið bætt í og það góða við stöðuna hér er að meðan aðrir standa í stað eða draga aðeins saman erum við heldur að auka kvótana og að ná aukinni hlutdeild í helstu tegundum okkar.“

Kunna þúsund leiðir til að elda þorsk

Fiskneysla í heiminum var meðal umræðuefna og þar kom fram hversu mikil fiskneysluþjóð Portúgalar eru. „Hver Portúgali borðar 6,89 kíló af þorski á ári að meðaltali, sem er einstakt,“ segir Helgi. „Portúgalar kunna þúsund leiðir til að elda þorsk og mikil hefð er fyrir þessari neyslu þar í landi. Spánverjar borða næstmest af þorski, en þar er meðalneyslan á mann 1,87 kíló á ári eða heilum fimm kílóum minni. Svo við tökum sem dæmi frá Bandaríkjunum þá borðar hver maður að meðaltali 6,8 kíló af öllum sjávarafurðum á ári.“

Minna framboð frá Víetnam

Helgi segir að í fiskeldi virðist hafa hægt á vextinum, en í mörg hefur fiskeldi í heiminum aukist um 8-10% á ári. Eldi á Atlantshafslax jókst tvö síðustu ár um rúmlega 300 þúsund tonn, en búist er við að aukningin verði um 50 þúsund tonn á næsta ári.

Gert er ráð fyrir að framboð á pangasius frá Víetnam minnki á næsta ári og verði undir milljón tonnum, en Víetnam er langstærsta framleiðsluland þessarar tegundar. Minna er vitað um heildarframleiðslu tilapíu, en sá fiskur er framleiddur í mörgum löndum.

Ársfundur Groundfish Forum fjallar ekki um verð eða framtíðarverðlagningu á ákveðnum tegundum, enda væri slíkt óheimilt.

Flækjustig eykst undir áramót

„Þessar vikurnar er verð á þorskafurðum heldur að styrkjast,“ segir Helgi Anton Eiríksson. „Á haustmánuðum er lítið framboð á þorski frá Rússlandi og Noregi, en á þessum tíma er fiskveiðiárið nýbyrjað hér á landi og aflabrögð hafa verið ágæt. Vetrarvertíð hefst fyrir alvöru hjá Rússum og Norðmönnum þegar líður á febrúarmánuð og líklegt er að flækjustigið aukist á mörkuðum þegar nær dregur vertíðinni hjá þeim, jafnvel undir áramót.

Mér finnst líklegt að verðið verði undir pressu síðustu vikur þessa árs og fyrstu mánuði þess næsta. Verðið mun síðan ná jafnvægi næsta sumar og á haustmánuðum,“ segir Helgi.

Hann segir að verð á flestum afurðum hafi verið í hámarki í júlí-ágúst árið 2011. Upp úr því hafi afurðaverð lækkað, t.d. nemi lækkun á saltfiski 23-24% frá þeim tíma. Algengt sé að lækkun á frystum og ferskum afurðum sé um og yfir 10%, en verðlækkunin sé mjög breytileg eftir afurðaflokkum.

Hafa stækkað markaðinn

„Með mikilli vinnu og kynningu hefur íslenskum fyrirtækjum tekist að stækka markaðinn og afurðir frá Íslandi hafa að mestu haldið sínu á mörkuðum. Því er þó ekki að neita að verðið er undir stöðugri pressu,“ segir Helgi.