Kristinn Nils Þórhallsson fæddist í Reykjavík 18. nóvember 1936. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans 11. október 2013.

Foreldrar hans voru Þórhallur Snjólfsson, f. 2. júlí 1904, d. 8. sept. 1973, og Guðrún Helga Jónasdóttir, f. 15. apríl 1900, d. 2. apríl 1989. Systkini Kristins; Guðríður, f. 1925, d. 1989, Vilhjálmur Geir, f. 1928, Guðrún, f. 1930, Kristín Jóna, f. 1921, d. 2003, Þórhalla Helga, f. 1933.

Kristinn kvæntist 6. apríl 1958 eftirlifandi eiginkonu sinni Jórunni Óskarsdóttur, f. 23. júní 1934. Sonur þeirra er Örn, f. 28. desember 1953. Hann kvæntist Hafdísi Hafliðadóttur, þau eignuðust tvö börn, Elínu Ýri, f. 4. desember 1976, sonur hennar er Snorri Freyr, f. 22. apríl 2010, og Hlyn, f. 11. nóvember 1983. Örn og Hafdís skildu. Sambýliskona Arnar er Geirlaug Ingibergsdóttir, dóttir hennar er Tinna María og á hún dótturina Ísabellu Auðbjörgu.

Kristinn ólst upp hjá móður sinni og systkinum og bjó á uppvaxtarárum sínum á Bergþórugötu 18. Á sumrin fór hann í sveit í Efra-Fjörð í Lóni Hornafirði til Fríðu og Óla sem bjuggu þar með móður sinni. Hann fór um 14 ára aldur á sjóinn. Fyrst var hann á Heklunni í strandsiglingum og Norðurlandaferðum. Síðan fór hann til Landhelgisgæslunnar og að lokum var hann hjá hjá Eimskip, var aðallega á Reykjafossi. Eftir sjómennskuna fór hann að vinna í landi við ýmis störf, var hjá breska sendiráðinu í 7 ár sem bílstjóri. Hann vann sem fasteignasali í nokkur ár og síðustu 15 árin starfaði hann hjá Símanum við birgðavörslu á Jörva. Kristinn starfaði í ýmsum félagasamtökum.

Útför Kristins fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 24. október 2013, kl. 15.

Kristinn Nils Þórhallsson, fyrrverandi tengdafaðir minn og afi barnanna minna, er látinn af völdum hins illvíga krabbameins. Það er með hlýhug og söknuði sem ég minnist Kristins þegar ég vel þessi fátæklegu orð. Hann var aðeins 35 ára þegar ég kynnist honum 17 ára gömul sem kærasta Arnar, einkasonar hans. Mín fyrstu samskipti við hann voru þegar ég loksins hafði safnað kjarki til að hringja heim til stráksins sem ég var skotin í. Kristinn svaraði í símann og ég spurði eftir Ödda, en það var hann kallaður af vinum sínum. Kristinn svaraði um hæl að í þessu númeri byggi enginn Öddi og lagði á. Mér leist ekkert á blikuna en það átti fljótt eftir að breytast því hann átti eftir að taka mér nánast sem dóttur sinni og sýndi mér ekki annað en stuðning og væntumþykju. Þetta atvik varð þó líklega til þess að ég kallaði hann aldrei annað en Kristin en hann var kallaður Kiddi af þeim sem þekktu hann vel og það skondna var að hann var sá eini sem kallaði mig Dísu en ekki fullu nafni, Hafdísi.

Það voru mikil og góð samskipti á milli Kristins og Jórunnar og okkar ungu hjónanna enda bjuggum við Örn hjá þeim í lengri og skemmri tíma, á ýmsum tímapunktum á milli íbúða og þegar við komum í heimsókn til Íslands á þeim tæpa áratug sem við bjuggum í Danmörku.

Kristinn var afar drífandi maður og var alltaf að, við að byggja og laga hús eða bíla og var ólatur að hjálpa öðrum í þeim efnum. Þannig fannst Kristni það sjálfsagt að við, aðeins tvítug að aldri, skelltum okkur í að byggja eins og það var kallað og var hann stoð og stytta í þeim framkvæmdum.

Við ferðuðumst líka víða með þeim hjónum, sérstaklega eftir að Elín Ýr, „guslan“ hans afa, kom í heiminn. Mér er sérstaklega minnisstæð ferð á Strandirnar sumarið 1979 og síðar ferð suður alla Evrópu niður á frönsku rivíeruna þar sem við bjuggum við ströndina og skoðuðum okkur um í suðurhluta Frakklands.

Kristinn studdi okkur á ýmsan hátt á meðan við vorum ein fjölskylda. Þegar við biðum þess að Hlynur, sonarsonur hans, kæmi í heiminn fyrir 30 árum kom Kristinn til Danmerkur til að aðstoða ungu fjölskylduna. Örn hafði slasast og var í gifsi og því ekki til stórræðanna. Kristinn gerði sér lítið fyrir og sá um „gusluna“, annaðist heimilið og kom mér til og frá fæðingardeildinni. Hann var mjög góður afi og tók það hlutverk alvarlega. Kristinn hefur því jafnframt reynst barnabörnum sínum vel og ekki síst verið „guslunni sinni“ ómetanleg aðstoð en hún var honum mjög náin. Elín Ýr og Hlynur hafa misst mikið við fráfall afa síns. Því miður mun Snorri Freyr, einasta langafabarnið, ekki ná að kynnast langafa sínum sem skyldi og er það miður.

Elsku Jórunn og Örn, megið þið finna styrk til að takast á við sorg ykkar.

Elsku Kristinn, þökk fyrir allt og megir þú hvíla þú í friði.

Hafdís (Dísa).

Elsku afi minn. Þrátt fyrir að ég væri búin að undirbúa mig undir þessa stund, að kveðja þig, þá sit ég nú og er orða vant. Mér finnst engin orð geta lýst því hvað þú varst mér, engin orð eru nógu stór til þess að geta náð utan um það. Mér finnst óraunverulegt að þú sért farinn og ég hef verið að keppast við að rifja upp minningar um þig. Fyrir mér eruð þið amma mér svo miklu meira en amma og afi, þið voruð annað sett af foreldrum. Þú varst aðeins fertugur þegar ég fæddist og þið amma voruð frá upphafi gríðarlega stór og mikilvægur hlutur af lífi mínu. Ég á svo mikið af minningum um þig til að ylja mér við en sárast finnst mér hvað þú varst tekinn snemma frá okkur og hvað Snorri Freyr minn, langafastrákurinn þinn, fékk að njóta þín stutt. En ég ætla að segja Snorra frá ferðalögum okkar saman um Evrópu. Ég ætla að segja honum frá morgunstundunum sem ég átti með ykkur ömmu í afa- og ömmubóli og við bulluðum um flodhest med flødeskum og elefant med syltetøj. Ég ætla að segja honum frá ferðunum þínum um allan heim og þegar við lékum okkur saman og tókum danssveiflur og spunnum heilu leikritin, gleðin í algleymingi. Ég ætla að segja honum hvernig þú varst besti, erfiðasti, fyndnasti og fýlugjarnasti afi sem til er og hvernig þú elskaðir okkur svo innilega að þig verkjaði í hjartað. Ég man fyrst þegar ég lærði að þú, eins og aðrir, værir dauðlegur. Aldrei hafði ég orðið eins hrædd og þegar þú fékkst hjartaáfall og ég var norður í Eyjafirði í sveit. Ég hélt að ég væri að missa þig þá og heimurinn minn hrundi á augabragði. Seinna sagðirðu mér að þú hefðir haft svo miklar áhyggjur af mér að þig hefði verkjað svo í hjartað, eflaust var í því sannleikskorn því þér var ákaflega annt um okkur Hlyn, afabörnin þín. Eftir þetta verkjaði mig í hjartað í hvert sinn sem ég hugsaði til þess að þú, kletturinn minn, gætir horfið. Við áttum afar sérstakt samband þú og ég og við gátum gert hvort annað gráhært en naflastrengurinn á milli okkar slitnaði aldrei. Ég veit ekki hvernig heimurinn minn getur haldið áfram án þín. Fyrir mér er risastórt tannhjól fallið úr tilverunni og heimurinn einhvern veginn skröltir áfram og ég efast um að nokkuð muni geta fyllt upp í þetta stóra skarð sem þú skildir eftir elsku afi. Ég sakna þín meira en orð fá lýst, ég hef ekki vanist þeirri tilhugsun að heyra þig aldrei aftur segja „Halló Gusla mín“ þegar ég hringi í þig. Þegar eitthvað bjátaði á hringdi ég í þig og þú spurðir mig oft: „Hvað myndir þú gera ef þú hefðir ekki hann afa þinn?“ Nú er komið að því að komast að því. Elsku hjartans afi minn. Ég mun aldrei geta fullþakkað ykkur ömmu fyrir að hafa verið til staðar fyrir mig og mun aldrei geta fullþakkað fyrir að hafa verið svo rík að eiga afa eins og þig. Mig langar að trúa því að þú sért þarna einhvers staðar að fylgjast með okkur. Takk elsku afi. Sjáumst.

Elín Ýr Arnardóttir.

Kiddi og Lilla hafa alla tíð verið órjúfanlegur þáttur í lífi fjölskyldu minnar. Lilla og móðir mín eru ekki einungis systkinabörn og jafnöldrur, heldur líka bestu vinkonur frá því þær ólust upp hvor í sínum enda parhússins í Miðtúni 68. Lilla með sinn dillandi hlátur og Kiddi með glettið bros og einstaka frásagnargleði eru hluti af litrófi bernskuminninganna, fyrst úr kjallaranum í Miðtúninu, síðan á Nýbýlaveginum og auðvitað við öll þau góðu og skemmtilegu tækifæri sem gefast í fjölskyldum til að gleðjast og gera sér dagamun. Það voru með öðrum orðum engar þær hátíðarstundir í minni fjölskyldu sem Kiddi og Lilla áttu ekki stóra hlutdeild í.

Lífið er þó ekki sífelldur dans á rósum og þegar áföll urðu eða þannig stóð á voru þau tvö ætíð fyrst á vettvang – boðin og búin til að veita stuðning og aðstoð. Greiðviknari mann en Kidda er enda ekki hægt að hugsa sér. Oftast var hann búinn að bjóða fram aðstoð áður en nokkur fór fram á það. Hann var enda „reddari“ af guðs náð og sá aldrei eftir viðviki fyrir aðra. Það eru margar sögurnar af því sem Kiddi græjaði, allt frá einföldum trékössum upp í heilu baðherbergin.

Á þennan hæfileika hans reyndi svo ekki síst í langvinnum veikindum föður míns, því öll þau ár sem þau stóðu yfir var Kiddi boðinn og búinn að aðstoða foreldra mína og bjarga hlutum eftir því sem á þurfti að halda. Sömuleiðis voru þau Lilla fastir gestir á hjúkrunarheimilinu þar sem faðir minn dvaldi síðustu þrjú misserin – léttu honum lund og okkur öllum í fjölskyldunni.

Kiddi var afburða minnugur og góður sögumaður, svo góður reyndar að ef maður var svo heppinn að deila með honum kaffi hjá mömmu var engin leið að fara heim fyrr en hann var sjálfur á leið út úr dyrunum. Hann sagði einstaklega skemmtilega frá mönnum og málefnum, skondnum atvikum og gömlum tíma. Margar minningar um hann tengjast líka sögum hans úr miðborginni eins og hún var þegar hann var að alast þar upp á stríðsárunum. Óborganlegar sögur sem gjarnan hefðu mátt rata lengra, af sjálfsbjargarviðleitni fólks, núningi við hernámsliðið, en einnig af fallegum eða eftirminnilegum mannlegum samskiptum.

Ég sjálf á Kidda mikið upp að unna. Hann var ekki einungis guðfaðir minn og stuðningur sem slíkur, heldur líka ástríkur frændi barnanna minna sem fylgdist með öllum þeirra þroska fram á fullorðinsár. Einstaklega hlýr og ræktarlegur gagnvart þeim sem honum þótti vænt um.

Þær Lilla og mamma eru nú báðar einar á báti, enda ekki nema eitt og hálft ár á milli fráfalls þeirra vinanna Kidda og pabba. En það er sterkur bakugginn í Ólafsvíkurfólkinu, eins og þær frænkur segja gjarnan sjálfar, og þær eru heppnar að eiga hvor aðra að.

Fyrir hönd minnar fjölskyldu, móður minnar og bræðra færi ég þeim Lillu, Erni, Geirlaugu, Elínu Ýri og Hlyni okkar hjartanlegustu samúðarkveðjur. Þökk okkar liggur hjá Kidda rétt eins og hugurinn allur, á endasprettinum síðustu vikur. Hann var einstakur maður og eftirminnilegur öllum þeim sem kynntust glettni hans og gæsku.

Fríða Björk Ingvarsdóttir.

Kær og góður vinur okkar, Kristinn, er látinn. Við kölluðum hann alltaf Kidda.

Hann var einhver sá iðnasti og duglegasti maður sem við höfum kynnst, sívinnandi. Alltaf að byggja við sumarhúsið sitt eða að laga og mála. Við vorum nágrannar hans uppi í Skorradal. Alltaf var hann tilbúinn að hjálpa okkur ef við þurftum á að halda. Ekki vantaði gestrisnina ef við litum inn, hann leyfði sér að taka smákaffipásu ef hann sá okkur koma gangandi framhjá, þá veifaði hann og okkur var boðið inn til hennar Jórunnar, sem sat nú ekki heldur auðum höndum, alltaf með nýtt bakkelsi og heitt á könnunni, þá var nú skrafað og hlegið dátt.

Kiddi var góður sögumaður og var alltaf skemmtilegur. Hann kunni aragrúa af sögum frá lífshlaupi sínu en hann hafði verið sjómaður og farið víða.

Það var alltaf viðburður fyrir okkur þegar hann mátti vera að því að fara úr vinnufötunum og hann og Jórunn komu í heimsókn til okkar.

Kiddi hafði verið veikur um tíma og sá tími var honum mjög erfiður þótt hann hafi borið sig vel, vonandi líður honum betur núna á öðrum vettvangi.

Við hjónin sendum okkar bestu kveðjur og þökkum honum vináttuna og alla hjálpina. Jórunni og fjölskyldu hans sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Anna og Þórir.