Millibör Ragnheiður Hrafnkelsdóttir við eina af hönnunarflíkum sínum.
Millibör Ragnheiður Hrafnkelsdóttir við eina af hönnunarflíkum sínum. — Morgunblaðið/Golli
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is „Mig langaði að gera eitthvað öðruvísi og gera eitthvað sem skerpti á sérstöðu svæðisins. Hornafjörður er náttúrlega sjávarútvegssvæði. Því hannaði ég línu sem heitir Kynjavörur hafsins.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

„Mig langaði að gera eitthvað öðruvísi og gera eitthvað sem skerpti á sérstöðu svæðisins. Hornafjörður er náttúrlega sjávarútvegssvæði. Því hannaði ég línu sem heitir Kynjavörur hafsins. Þar stúderaði ég form fiska og hannaði föt eftir þessum formum,“ segir Ragnheiður Hrafnkelsdóttir sem rekur fataverslunina Millibör í kartöfluhúsinu nærri höfninni á Höfn. „Ég var búin að vera lengi erlendis og fór að hugsa svo mikið heim. Verslunin heitir Millibör því ég var svo mikið hjá langafa mínum í æsku. Hann var eiginlega besti vinur minn. Hann var afar veðurglöggur maður og var alltaf með loftvogina á lofti. Þess vegna ber verslunin þetta nafn. Í þessum þankagangi varð mér líka hugsað til Hornafjarðar sem svæðis sjávarútvegs og það hafði sín áhrif við hönnunina á þessum flíkum,“ segir Ragnheiður.

Verslunin hefur að hennar sögn fengið afar góðar viðtökur og fljótlega eftir að hún opnaði þurfti hún að ráða tvo starfsmenn til að sinna verslunarstörfum svo hún gæti einbeitt sér í betur að hönnunarvinnunni. Meðal þeirra fiska sem hún hefur notað sem fyrirmynd í hönnun sinni eru skata, ýsa, smokkfiskur, pétursskip og marglytta. Ragnheiður útskrifaðist sem kjólaklæðskeri fyrir tíu árum. Eftir það nam hún markaðsfræði áður en hún hóf störf í Legolandi í Danmörku þar sem hún hannaði búninga fyrir „prinsessur og kónga“.

Legoland skipti sköpum

Þegar heim var komið langaði hana að opna verslun í heimabyggð. „Það kom ekkert annað til greina en að prófa að hanna tískuvöru þegar ég kæmi heim. Annaðhvort myndi þetta ganga eða ekki. Þó ég búi hér þá get ég selt vöruna hvar sem er. Þetta snýst bara um heimsyfirráð eða dauða“ segir Ragnheiður og hlær við. Í æsku var hún staðráðin í því að vera skósmiður en eftir að hún kom til baka frá Bandaríkjunum þar sem hún var „au-pair“ var hún staðráðin í því að verða fatahönnuður. „Ég gaf þetta upp á bátinn í nokkur ár og lærði alþjóðlega markaðshönnun og hélt að ég myndi starfa við það. En svo þegar starfið í Legolandi kom í hendurnar á mér þá fann ég að þar var ég á réttri hillu,“ segir Ragnheiður.

Samhliða starfi sínu er Ragnheiður í samstarfi við Framhaldsskólann á Höfn þar sem hún kennir fatahönnun. Kennt er í Vöruhúsinu sem er miðstöð skapandi greina á Höfn. „Það er gaman að geta miðlað þekkingu út í samfélagið líka,“ segir Ragnheiður.