Sigurður Sigurðsson
Sigurður Sigurðsson
Eftir Sigurð Sigurðsson: "Á meðan allt þetta silkihúfu- og nefndafargan tröllríður þessu mikilvæga verkefni bíða sjúklingarnir þar sem ekki er verið að byggja spítalann."

Lögð hefur verið fram á Alþingi tillaga um að flýta framkvæmdum við stækkun Landspítala og ljúka verkinu á fimm árum. Ekki er fjallað í tillögunni um hvort byggja eigi spítalann í óbreyttri mynd frá tillögum byggingarnefndar spítalans og þar með skuldsetja ríkið fyrir öllum þeim gríðarlega kostnaði sem þær framkvæmdir gætu kostað, eða hvort þingmennirnir vilji skoða skilvirkari og hagkvæmari leiðir sem gætu komið verkefninu á leiðarenda á hagkvæmari hátt. Ljóst er að ríkið mun glíma við gríðarlegan fjárhagsvanda á næstu árum og án hagræðingar í þessu verkefni eru miklar blikur á lofti.

Ríkinu er vorkunn þegar kemur að byggingu nýrra opinberra mannvirkja þar sem í landinu gildir aragrúi laga og reglugerða sem hefta og draga úr hagkvæmni í byggingu mannvirkja sem rísa fyrir opinbert fé. Í lögum um skipan opinberra framkvæmda er ítarlega rakið hvernig eigi að standa að svona opinberri mannvirkjagerð. Þar eru rakin og lögbundin ákvæði um hvernig allt ferlið skuli vera samkvæmt lögum og þar er margur flækjufóturinn.

Samkvæmt lögunum rekur ríkið sérstaka stofnun, Framkvæmdasýslu ríkisins, sem fari með stjórn verklegra framkvæmda af hálfu ríkisins. Við byggingu Nýja Landspítalans var hins vegar stofnuð sérstök byggingarnefnd og er enn ein stofnunin sem sér um verklegar framkvæmdir fyrir hönd ríkisins í viðbót við Framkvæmdasýslu ríkisins. Forstjórinn virðist þó sitja sem einn nefndarmanna í sérstöku byggingarnefndinni. Nýja byggingarnefndin er því hreinn viðbótarkostnaður í viðbót við þá stofnun sem á að sjá um framkvæmdina samkvæmt lögum. Í þeim fjárskorti sem er að gera út af við spítalann sýnist hafa verið alger óþarfi að stofna til allra þeirra fjölmörgu nýju opinberu embætta sem stjórnkerfi verkefnisins er, en þar situr nú hver silkihúfan upp af annarri.

Stjórnkerfi verkefnisins er samsett af stjórn, framkvæmdastjórn, byggingarnefnd, verkefnisstjórn, notendastjórnum, samráðshópum sem halda samráðsþing og einnig sérstökum samráðsstofum. Auk þess starfar fastráðið starfsfólk að verkefnisstjórninni og ýmsir ráðgjafar.

Í byggingarnefndinni sitja sjö aðalmenn og þrír varamenn auk þess sem kosin var sérstök verkefnisstjórn með fimm stjórnarmönnum. Í notendastjórn eru þrír aðilar frá Landspítalanum og fimm frá Háskóla Íslands.

Í viðbót við lög ríkisins um skipan opinberra framkvæmda hefur ríkið sett sérstök lög um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut nr 64/2010 þar sem í viðbótarlögunum var meðal annars bundið að heimila forval vegna undirbúnings útboðs fullnaðarhönnunar. Því forvali var að ljúka núna í haust. Það er því ekki enn búið að bjóða út teikningarnar en búið að finna þá sem eru hæfastir til að bjóða.

Í samræmi við öll ofangreind lög eiga allar stjórnirnar og nefndirnar að vinna í samræmi við lög um skipulags- og byggingarmál eins og venja er. Undir þeim laga- og reglugerðaflokki er aragrúi laga og reglugerða sem gilda almennt um byggingu mannvirkja auk þess sem bygging sjúkrahúsa krefst einnig að fylgt sé fjölda skilmála, leiðbeininga og kvaða vegna eðlis verkefnisins sem meðal annars hefur verið safnað saman með fjölda funda erlendis og hér heima enda Íslendingar ekki að byggja risasjúkrahús á hverjum degi. Hefði ekki verið nær að tala við einhvern sem er alla daga í að byggja svona mannvirki og er með allar þessar upplýsingar handbærar?

Allt þetta batterí, með tugum stjórnenda og starfsmanna að þessu eina verkefni, er því sem næst orðið að sérstakri ríkisstofnun með útgjöldum vegna undirbúnings sjúkrahúsbyggingarinnar sem eru af þeim skala að aðrar ríkisstofnanir falla algerlega í skuggann.

Verkefnið er búið að vera í gangi í um áratug en 2002 kom fyrst fram nefndarálit starfsnefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og 2004 var birt skýrsla nefndar um uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss – allt birt á heimasíðu verkefnisins. Hvenær heldur fólk að þessi spítali verði byggður ef það tekur hátt í áratug að komast á þann stað sem verkefnið er í dag?

Áfallinn kostnaður áranna 2010 til 2012 er um 1,4 milljarðar þannig að ljóst er að sá undirbúningur sem þegar hefur átt sér stað í nær tíu ár hefur kostað ríkið nokkra milljarða og án þess að hafist hafi verið handa um hönnun á þeim byggingum sem á að byggja, hvað þá að byggja spítalann.

Á meðan allt þetta silkihúfu- og nefndafargan tröllríður þessu mikilvæga verkefni bíða sjúklingarnir þar sem ekki er verið að byggja spítalann. Eldri hús gamla spítalans drabbast niður þar sem ekki er verið að halda við húsum vegna fjárskorts og biðar eftir nýjum spítala auk þess sem á að rífa fjölda húsa þegar nýi spítalinn yrði hugsanlega einvern tíma byggður.

Hver er forgangsröðunin í þessu verkefni?

Eru það sjúklingarnir eða silkihúfurnar sem eru aðalatriðið?

Höfundur er Bsc. MPhil. (cand. phil.) byggingarverkfræðingur.

Höf.: Sigurð Sigurðsson