Magnús Thoroddsen fæddist í Reykjavík 15. júlí 1934. Hann lést á heimili sínu 14. október 2013.

Foreldrar hans voru: Jónas Þórður Sigurðsson Thoroddsen, hrl., borgarfógeti í Reykjavík, bæjarfógeti í Neskaupstað og á Akranesi, síðast fulltrúi hjá yfirborgarfógetanum í Reykjavík, f. 18. nóv. 1908, d. 11. nóv. 1982, og Björg Magnúsdóttir Thoroddsen húsmóðir, f. 26. maí 1912, d. 27. maí 2004. Systkini Magnúsar eru María Kolbrún, f. 1939, Soffía Þóra, f. 1945, og Sigurður, f. 1947, lést af slysförum árið 1955.

Magnús kvæntist 23. nóv. 1957 eftirlifandi eiginkonu sinni, Sólveigu Kristinsdóttur Thoroddsen kennara, f. 25. apríl 1935. For.: Kristinn Tryggvi Stefánsson, cand. med., prófessor við Háskóla Íslands og lyfsölustjóri ríkisins í Reykjavík, f. 8. okt. 1903, d. 2. sept. 1967, og k.h. Oddgerður Geirsdóttir, húsfreyja, f. 6. nóv. 1902, d. 10. feb. 1993. Magnús og Sólveig eignuðust þrjú börn, þau eru: 1) Sigurður Tryggvi, f. 1958, verkfræðiprófessor í Sádi-Arabíu, kvæntur Funmi Kosoko Thoroddsen lífefnafræðingi. Börn þeirra eru Tinna Sólveig og Magnús Tryggvi. 2) Gerður Sólveig, f. 1959, lögfræðingur, búsett í Reykjavík, gift Ívari Pálssyni viðskiptafræðingi. Börn þeirra eru Magnús Thoroddsen, Stefán Páll og Hera Sólveig. 3) Þóra Björg, viðskiptafræðingur í Kaliforníu, Bandaríkjunum, gift Aðalsteini Jónatanssyni verslunarmanni. Dætur þeirra eru Sólveig Anna og Kristín Björg.

Magnús ólst upp á Norðfirði til 11 ára aldurs er fjölskyldan flutti til Reykjavíkur. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1954, lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1959 og stundaði framhaldsnám í réttarfari við Kaupmannahafnarháskóla 1959-1960. Magnús var dómarafulltrúi hjá borgardómara í Reykjavík 1960-1967 og borgardómari 1967-1979. Hann var lögfræðingur hjá Mannréttindanefnd Evrópu í Strasbourg 1979-1982, hæstaréttardómari 1982-1989 og forseti Hæstaréttar 1987-1989. Magnús var lögfræðingur hjá EFTA í Genf 1990-1991 og starfaði eftir það sem hæstaréttarlögmaður í Reykjavík. Magnús sinnti margvíslegum félagsstörfum. Hann starfaði í nokkrum sérfræðinganefndum um réttarfar á vegum Evrópuráðsins 1967-1978 og var formaður réttarfarsnefndar 1982-1988. Magnús ritaði fjölda greina um lögfræðileg málefni. Hann var sæmdur Stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1987.

Magnús verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í dag, 24. október 2013, og hefst athöfnin kl. 15.

Magnús Thoroddsen, tengdafaðir minn, var sannur fjölskyldumaður. Eiginkonan, börnin og heimilið skiptu hann mestu máli. Hann var sundmaður mikill, keppti í sundi og stundaði síðan sund alla tíð. Hann var unnandi lista og menningar, bókelskur með afbrigðum, eignaðist úrvals safn góðra bóka og las þær, enda fræðimaður fram í fingurgóma. Magnús var fagurkeri sem klæddist vönduðum fötum, safnaði fallegum hlutum og kynntist hámenningu heimsins á ferðum sínum með Sólveigu.

Magnús var vandaður maður. Allt var vandað sem nálægt honum kom. Öll tæki virkuðu, allt var á sínum stað, hann var jafnan á réttum tíma, raunar tilbúinn löngu fyrr og vandaði til þess sem unnið var. Hann flíkaði ekki tilfinningum sínum, en af kærleika og vinarþeli var nóg. Hann hafði jafnan stjórn á sér, jafnvel þegar ég sveiflaði Samúræja-sveðju í stofunni eftir sunnudagsmatinn og sló niður kristallana úr ljósakrónunni, sem þeyttust út um allt. En ég tók þó eftir að hann rauðþrútnaði í framan! Hann var mikill ræktunarsinni, þar sem litlar plöntur fengu þvílíka sérmeðferð að vöxturinn varð mikill og allt klippt til af natni.

Magnús unni náttúru Íslands, sögu landsins og fólkinu í landinu. Honum var umhugað um sjálfstæði þjóðarinnar og fullveldi landsins. Hann var jafnan talsmaður mannréttinda og réttlætis. Réttlætiskennd Magnúsar var afar sterk. Honum fannst að ríkið ætti ekki að vera yfir þegnana hafið og leitaði jafnræðis. Hann tók við Icesave- samningunum til uppljóstrunar, sem leiddi til þess að þeir voru opinberaðir. Hann barðist gegn eignarhaldi kvótans með greinarskrifum og viðtölum. Magnúsi var bolað út úr forsetastól Hæstaréttar á afar rætinn hátt forðum, en samt stóð þessi útvörður réttlætisins keikur allt til enda, hæstvirtur af þeim sem báru gæfu til þess að kynnast þessu eðalmenni á lífsleiðinni.

Hjónaband Sólveigar og Magnúsar er lýsandi fyrir þetta trausta sómafólk. Átján ára byrjaði Solla með Magnúsi sínum og árin saman urðu sextíu. Svo náið unnu þau saman að þegar Magnús ryksugaði lausu teppin, þá bað hann Sollu að standa á teppishorninu. Þegar hann klifraði upp í stiga til að mála hélt Solla við stigann. Solla lærði bókband og batt inn fagurlegar bækur í rauðu leðri fyrir Magnús. Þau bjuggu um tíma í Frakklandi og franska hluta Sviss, nutu gourmet-matreiðslu Sollu heima og á veitingastöðum um heiminn og ræddu mikið um matarlist og góð vín. Raunar svo gjarnan að oft var rætt um næsta kvöldverð þegar þessi var borðaður, þannig að bragðkirtlar mínir rugluðust gjarna! Kúltúrást þessara hjóna var þvílík að fyrsti hluturinn sem nýtrúlofaða parið keypti í búið var málverk eftir Gunnlaug Blöndal. Þó voru þau efnalítil, en bættu bókum við ef eitthvað kom í budduna.

Ég þakka tengdaforeldrum mínum kærlega fyrir gæðagenin og kærleikann til barnanna okkar og til Gerðar, umhyggjuna og vinskapinn og að leyfa mér að upplifa stórfjölskylduástúðina alltumlykjandi sem streymdi frá Magnúsi og Sólveigu. Magnús var gæfumaður í hvívetna.

Ívar Pálsson.

Ég lenti svo sannarlega í lukkupottinum þegar ég varð barnabarn þessa yndislega manns. Ég eignaðist ekki bara besta afa sem hægt er að biðja um, heldur einnig besta vin minn. Afi var traustur, góðhjartaður, virðulegur og dásamlegur maður. Hann hafði líka frábæran smekk sem sést aðallega í vali hans á eiginkonu, þar sem hann hefði ekki getað valið betur. Þegar ég hugsa um afa sé ég hann fyrir mér liggjandi inni í kontór að lesa bók eða hlusta á Rás eitt rétt fyrir kvöldmat eða það besta, að lauma til mín Toblerone þegar ég átti að vera í megrun. Afi var frábær fyrirmynd í einu og öllu og ég mun líta upp til hans alla mína ævi. Hans verður sárt saknað en lukkulega á ég helling af minningum af yndislegum stundum sem við áttum saman. Takk fyrir allt.

Hera Sólveig Ívarsdóttir.

Það er erfitt að kveðja Magnús móðurbróður minn. Það finn ég gjörla þegar ég rita þessi kveðjuorð mín til hans. Fyrst koma tárin og sorg yfir missi okkar sem þótti svo vænt um hann og bjuggumst við að hafa hann hjá okkur miklu lengur. En með sorginni koma líka allar góðu minningarnar um þennan elskulega mann. Fyrst og fremst er það minning um góðan fjölskylduföður sem umvafði konuna sína og börn ást, öryggi og virðingu. Í annan stað er það minning um stóra, góða bróðurinn sem litlu systrunum, þeim Maríu og Soffíu, þótti svo undurvænt um. Hún var alltaf falleg væntumþykja systkinanna hvert í annars garð og virðingin sem þau báru hvert fyrir öðru. Í þriðja lagi er það minningin um ljúfan og góðan mann sem vermdi mann glettnisbrosi sínu og kankvísi þegar svo bar undir. Í fjórða lagi er það minningin um lögfræðinginn Magnús – einn hinn mesta lögspeking sem Íslendingar hafa átt. Enda hafa margir kollegar mínir í lögfræðingastétt lýst þeirri skoðun sinni við mig að Magnús hafi verið einn besti dómari sem við höfum átt. Þó ekki alltaf sá „þægasti“, enda skilaði hann á dómaraferli sínum við Hæstarétt Íslands mörgum sératkvæðum, þar sem hann tók afstöðu með lítilmagnanum í málum þeirra gegn stjórnvöldum. Það er mín skoðun og margra annarra að fyrir þá afstöðu sína hafi Magnús goldið, enda rýra sératkvæði gildi dóma og því hlýtur slíkur dómari vissulega að vera heldur óþægur ljár í þúfu stjórnvalda. Hafi hann ævinlega þökk fyrir réttsýni sína og einurð. Mér er einnig ofarlega í huga ást Magnúsar til Sollu og sú mikla virðing sem hann bar fyrir henni sem eiginkonu sinni, lífsförunaut og vini. Í 56 ár stóð þessi ákveðna, sterka og glæsilega kona við hlið manns síns og var hans besti vinur og skjól, í gleði og sorg. Missir hennar er mikill, enda voru þau hjón ávallt sem ein heild og erfitt er að sjá fyrir sér annað þeirra án hins. Nú að leiðarlokum er hugur okkar Sigurðar míns hjá Sollu, börnum þeirra Magnúsar, barnabörnum, tengdabörnum og öllum þeim sem eiga um sárt að binda við fráfall hans. Jafnframt þökkum við Magnúsi frænda hans ljúfu samfylgd og ég bið Guð að geyma hann í ríki ljóss og friðar.

Björg Rúnarsdóttir.

Haustlitirnir skarta sínu fegursta, farfuglarnir hefja sig til flugs og sólin skín. Það er á slíkum degi sem Magnús Thoroddsen leggur upp í sína hinstu för. Hann var mikill fagurkeri og því líkt honum að velja þennan dag þótt við sem eftir sitjum hefðum viljað hafa hann með okkur svo miklu lengur.

Magnús stendur ekki lengur á stigapallinum brosandi og svo geislandi að það lýsir af honum þegar við komum í heimsókn. Hann spyr strax hvernig við höfum það og hvort frændi hans hafi ekki nóg að gera. Hann lætur ekki þar við sitja heldur spyr líka um strákana okkar og þeirra fjölskyldur. Svona var hann, lét sér annt um allt og alla. Það var alltaf gaman að koma í Silungakvíslina, allt svo smekklegt og þau hjónin svo miklir sjarmörar að leitun er að öðru eins. Það var yndislegt að sjá hvað hann Maggi var alltaf skotinn í henni Sollu sinni, hann horfði á hana með dreymandi augum eins og þau hefðu verið að kynnast.

Við ætlum ekki að fara yfir lífshlaup Magnúsar, það eru aðrir betur til þess fallnir, en við þekktum hann sem góðan frænda og vin sem var okkur einkar kær. Missir Sollu og fjölskyldunnar er mikill og vottum við þeim okkar innilegustu samúð á þessum erfiðu tímum sem framundan eru.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Elsku Maggi, við þökkum þér innilega fyrir alla þína vináttu í gegnum tíðina og megi góður Guð varðveita þig.

Blessuð sé minning Magnúsar Thoroddsen.

Þórdís og Gunnar Pétursson.

Það var glaðvær hópur frændfólks sem hittist 16. júlí sl. í safnaðarheimili Fríkirkjunnar á Skálholtsstíg. Tilefnið var 150 ára afmæli Sigurðar Thoroddsen landsverkfræðings. Barnabörn hans og fjölskyldur þeirra höfðu ákveðið að heiðra minningu hans og Maríu Kristínar eiginkonu hans með því að eiga góða stund saman.

Tvö af barnabörnum Sigurðar og Maríu Kristínar létust í bernsku, hin tuttugu og tvö voru enn á lífi í júlí og áttu dýrmætt síðdegi saman, rétt fyrir ofan Fríkirkjuveg 3 þar sem rætur fjölskyldunnar liggja. Í þessum hópi var Magnús Thoroddsen, og var eftir því tekið hversu unglegur og hress hann var. Börn Sigurðar og Maríu voru sex talsins og byggðist dagskráin m.a. á því að barnabarn úr hverjum systkinahópi kæmi fram og segði frá ýmsu sem tengdist minningum okkar um afa og ömmu, húsinu sem þau bjuggu í og heimilisbragnum. Þar var alltaf opið hús og ákaflega vel hlúð að afkomendum og öðrum gestum.

Það var mikið spjallað og sungið á milli þessara atriða og það var fremur seint sem röðin kom að Magnúsi en hann kom fram fyrir hönd ættboga Jónasar Thoroddsen. Hann reis á fætur ákaflega afslappaður og var sá eini sem ekki hafði einhver skjöl með sér eða glærur til stuðnings sínu máli. Hann flutti snilldarræðu, hnyttna og skemmtilega og rifjaði upp ýmis skondin atvik úr barnæsku sinni á Fríkirkjuveginum. Það er óhætt að segja að hann hafi slegið algjörlega í gegn enda fluggáfaður maður með mikla kímnigáfu. Hann lýsti afa og ömmu okkar og heimilislífi þeirra á hrífandi hátt og það var mikið hlegið.

Í lok veislunnar röðuðum við systkinabörnin okkur upp á sviðið til að hægt væri að taka myndir af hópnum. Magnús lék á als oddi, hann var skemmtilega stríðinn, hann átti það til að vera prakkaralegur og líka þarna daginn eftir 79 ára afmæli sitt. Það tók tíma að láta „óstýriláta bekkinn“ fara að einbeita sér að myndasmiðum, Magnús ekki sístur í uppátækjum eins og ungur nemandi í 10 ára bekk.

Á þennan hátt viljum við minnast elsku frænda okkar, við sjáum hann fyrir okkur fallegan og glaðlegan með gamanyrði á vör. Systur hans tvær María Kolbrún og Soffía lifa bróður sinn en Siggi litli bróðir hans lést aðeins 7 ára í bílslysi og var okkur öllum mikill harmdauði.

Við vottum Sólveigu eiginkonu Magnúsar, Sigurði Tryggva, Gerði Sólveigu, Þóru Björgu, Maríu Kolbrúnu, Soffíu og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúð. Megi minning Magnúsar lifa.

María, Þórunn, Margret, Sigurður og Egill Margrétar- og Einarsbörn.

Genginn er góður maður, Magnús Thoroddsen, eftir skammvinn veikindi. Kynni okkar spanna nær 50 ár en hann og maðurinn minn voru vinir og bekkjarbræður í MR. Það tókst góð vinátta með okkur Sólveigu og Magnúsi sem haldist hefur.

Magnús var fallegur maður, hafði hlýtt bros og „glimt i öjet“. Hann prýddi það sem mikilvægast er, en það er heilbrigð skynsemi. Magnús var skarpgreindur, traustur, drengur góður, vinur vina sinna. Alltaf var hægt að leita til hans og hann reyndist okkur vel.

Magnús hafði yndi af tónlist, sem hann hlustaði mikið á, málaralist og bókmenntum en hann las mikið og átti gott bókasafn. Smekkur hans var fjölbreyttur, hann las ævisögur, mannkynssögu og skáldsögur. Hann las jöfnum höndum íslensku, dönsku, ensku og frönsku. „Hvað ertu að lesa núna?“ var yfirleitt það fyrsta sem hann sagði þegar ég hringdi. Við ræddum oft um það sem við vorum að lesa og lánuðum hvort öðru bækur.

Við Sólveig töluðum oft saman í síma, stundum daglega. Kom fyrir í hita umræðnanna að við urðum nokkuð háværar, þá sagði Magnús: „Stelpur, þið eigið ekki að vera að tala um stjórnmál, þið verðið svo æstar.“

Sólveig og Magnús, Solla og Maggi, hafa haldið saman í blíðu og stríðu, samband þeirra var einstaklega gott, „hún Solla mín“ sagði hann þegar hann talaði um hana. „Nú hvín í Sollu minni“ ef þau voru ekki sammála. Þau voru alltaf saman, þau voru bestu vinir hvort annars.

Nú er Magnús horfinn á vit feðra sinna en Solla mín situr eftir í sárum. En hún á góða að þar sem eru börn þeirra Sigurður, Gerður og Þóra Björg. Gerður er sú eina sem er á Íslandi og nærvera hennar og fjölskyldu hennar hefur verið þeim mikils virði.

Nú kveð ég góðan dreng með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að vera vinur hans. Megi almættið gefa „Sollu minni“ styrk.

Elsa.

Við vorum 11 talsins stúdentarnir frá MR vorið 1954, sem gerðumst laganemar við Háskóla Íslands þá um haustið eða að ári. Öllum tókst okkur að ljúka lögfræðiprófi með skikkanlegum árangri, en þó má segja að fjórir hafi skorið sig úr um festu í stefnunni að því markmiði. Þetta voru félagarnir Arnljótur Björnsson, Gaukur Jörundsson og Magnús Thoroddsen úr C-bekk, ásamt Jóni Sigurðssyni úr X-bekk. Þeir höfðu fengið rökstuddan grun um að unnt væri að ljúka fyrri hluta námsins á sléttum 6 misserum í stað 7 eða 8, sem algengast hafði verið árin á undan, með því að sinna náminu af fyllstu ástundun frá fyrsta degi og taka hið akademiska frelsi með hæfilegum fyrirvara. Þetta gekk eftir hjá þeim félögum með miklum ágætum og aflaði þeim verðskuldaðrar virðingar okkar hinna, sem hjá mér hefur haldist óblandin allt til þessa dags, auk þess sem starfsferill þeirra sýnir að þeir lögðu upp með gott veganesti.

Eftir lokapróf 1959 og ársdvöl í Kaupmannahöfn lá leið Magnúsar í borgardóm Reykjavíkur, þar sem hann varð fulltrúi í árslok 1960 og síðan borgardómari, eftir að starfið fékk það nafn sem því hæfði, til ársins 1979. Kom fljótt í ljós að Magnús sómdi sér vel í þeim hópi mætra manna og kvenna, sem þar unnu að dómstörfum. Hann var í senn vandvirkur og skilvirkur dómari, og báru dómsúrlausnir hans oftar en ekki skýran vott um sjálfstæði í hugsun og ríka réttlætiskennd. Jafnframt íhygli sinni og skarpskyggni var hann prúðmenni að eðlisfari og léttur í lund og átti auðvelt um þau mannlegu samskipti, sem starfið kallaði á, bæði innan dómstólsins og gagnvart þeim sem þangað áttu réttar að leita.

Eftir tímabundið starf hjá Mannréttindanefnd Evrópu var Magnús í ársbyrjun 1982 skipaður dómari við Hæstarétt, þar sem hann sat við góðan orðstír til ársloka 1989, þegar snögg umskipti urðu á ferli hans. Ég var samtíða honum þar sem settur dómari hálft árið 1988, og minnist þeirrar sambúðar með ánægju eins og annarra skipta við Magnús fyrr og síðar.

Eftir að Magnús hóf lögmannsstörf 1991 varð ég þess aðnjótandi að hlýða á hann flytja mál fyrir Hæstarétti, af snerpu en þó hófsemi eins og vænta mátti. Jafnhliða störfum að dómsýslu og málflutningi hafði Magnús ávallt virkan áhuga á umbótum í réttarfari og á öðrum sviðum laga og réttar.

Lét hann þau málefni til sín taka í nefndar- og félagsstörfum og einnig með skrifum á opinberum vettvangi, þar á meðal í eftirlætisrit sitt Úlfljót. Í umróti undanfarinna ára hefur hann iðulega kvatt sér hljóðs með beinskeyttum blaðaskrifum svo eftir var tekið. Þá sem endranær var hann talsmaður lýðfrelsis í landinu ásamt jafnrétti og sanngirni manna á milli.

Við bekkjarsystkin Magnúsar Thoroddsen úr MR sjáum nú á bak góðum vini og skemmtilegum félaga, sem óvænt er fallinn frá. Við andlát hans verður okkur hugsað til þeirra góðu drengja úr lögfræðingahópnum sem áður eru horfnir yfir móðuna miklu. Þó að Magnús hafi náð þeim aldri sem raun ber vitni finnst mér það einnig eiga við um hann, að hann sé að kveðja alltof snemma. En um leið og ekki síður minnumst við þess, hver gæfumaður hann var í einkalífi sínu, og hversu náið og innilegt samband ríkti milli hans og Sólveigar Kristinsdóttur, eiginkonu hans allt frá námsárunum í lagadeild. Við færum henni og fjölskyldu þeirra einlægar samúðarkveðjur.

Hjörtur Torfason.

Sjónarsviptir er að Magnúsi Thoroddsen, skarpgáfaður og skemmtilegur, sanngjarn og góðviljaður sem hann var. Magnús var einn þeirra nýlega útskrifuðu lögfræðinga sem reistu saman blokkarhelming í Háaleitinu á sjöunda áratugnum. Eignaðist þar hver sína íbúð og komum við þannig undir okkur fótunum á þessu mikilvæga sviði.

Hressileikinn og hin létta lund sem löngum einkenndi framgöngu Magnúsar hafði góð áhrif í hópnum. Áræðnin og samheldnin voru meiri en efnin hjá flestum. Hver lagði til það sem hann best gat. Aldavinirnir Magnús og Gaukur Jörundsson höfðu þegar hér var komið hafið störf sem fulltrúar yfirborgardómarans í Reykjavík. Þeir gátu því bent á, til verkstjórnar við bygginguna, iðnmeistara sem höfðu vakið á sér traust sem meðdómendur í réttinum. Það reyndist farsælt. Húsið hækkaði og fyrr en varði fluttu hinar ungu fjölskyldur inn. Í stigaganginum mátti brátt heyra háværan klið af barnahópi sem taldi nálægt tvo tugi. Þetta voru góð ár og gleðirík; vináttuböndin urðu órjúfanleg.

Allir í hópnum höfðu lengur eða skemur átt samleið í lagadeild Háskóla Íslands, þar sem Magnús var í forystu um tíma sem formaður „Orators“ – félags laganema. Auk þess leiddi frændsemi til nánari kynna okkar Magnúsar. Það var því ævinlega nóg að ræða og skemmtilegar stundir, þegar fundum bar saman við þau mætu hjón, hann og Sólveigu. Líka síðar á lífsleiðinni, innanlands eða utan.

Röskleiki Magnúsar og skýrleiki í hugsun naut sín vel við uppkvaðningu dóma og forystu í dómsstörfum. Og gott var að leita ráða hjá honum, eins og áður Jónasi borgarfógeta, reynsluríkum föður hans. Lagaþekking Magnúsar risti djúpt og hann átti einkar létt með að draga fram kjarna hvers máls. Þess vegna var líka mikill fengur að greinum hans um lögfræðileg efni og blaðagreinum sem hann reit um ýmis veigameiri þjóðfélagsmál hin síðari ár. Stuðluðu þær að auknum skilningi og vöktu lof margra.

Minningarnar af kynnunum við Magnús verða ávallt kærar og vottum við Ragna og börn okkar hinni góðu fjölskyldu hans einlæga samúð, Sólveigu, syninum Sigurði og dætrunum Gerði og Þóru Björgu, ásamt mökum þeirra og barnabörnunum. Eitt sinn skal hver deyja, en sannarlega hefðum við óskað þess að eiga lengur von á að rekast á Magnús á förnum vegi eða sammælast þeim hjónum á góðri stund.

Ólafur Egilsson.