Kristinn Ingi Jónsson
kij@mbl.is
Metþátttaka er á kaupstefnu í Nuuk á Grænlandi sem Íslandsstofa, ásamt Grænlensk-íslenska viðskiptaráðinu og Flugfélagi Íslands, skipuleggur en kaupstefnan hefst í dag.
Að sögn Aðalsteins Hauks Sverrissonar, verkefnisstjóra hjá Íslandsstofu, er um að ræða þriggja daga ferð þar sem fyrirtækjum gefst kostur á að taka þátt í sýningu í menningarhúsinu Katuaq í Nuuk, höfuðborg Grænlands, og jafnframt eiga fundi með grænlenskum fyrirtækjum.
31 íslenskt fyrirtæki
„Þetta er í fjórða sinn sem kaupstefnan er haldin en aldrei hefur þátttaka íslenskra fyrirtækja verið jafnmikil og nú,“ segir Aðalsteinn. 31 fyrirtæki fer til Grænlands, þar á meðal Arionbanki, Eimskip, Ikea, Landsvirkjun, Mannvit og Samskip.Aðspurður segir Aðalsteinn að Íslandsstofa hafi miklar væntingar til kaupstefnunnar, „enn meiri en áður vegna þess hve fjölmenn hún verður í ár“.
– Hvert er markmiðið með kaupstefnunni?
„Markmiðið er að auka viðskiptaleg tengsl á milli landanna sem og að kynna grænlenskum almenningi það vöru- og þjónustuframboð sem íslensk fyrirtæki hafa upp á að bjóða. Þetta er þess vegna einstakt tækifæri fyrir fyrirtæki sem hafa áhuga á markaðinum á Grænlandi til að hitta heimamenn og stofna til viðskiptasambanda.“
Hann segir að í ár verði samhliða sýningunni haldnir fyrirlestrar um málefni landanna tveggja.
Undirbúningshópur hefur unnið náið með aðalræðismanni Íslands í Nuuk en utanríkisráðuneytið opnaði í sumar aðalræðisskrifstofu. Var Ísland þar með fyrsta landið til að setja upp slíka skrifstofu á Grænlandi.