Kollegar „Nikolaj Lie Kaas smellpassar í hlutverkið sem hinn fúllyndi Carl Mørck [og] Fares Fares er góður í hlutverki Assads,“ segir m.a. í dómi um spennumyndina Konan í búrinu sem byggist á samnefndri bók Jussis Adler-Olsens.
Kollegar „Nikolaj Lie Kaas smellpassar í hlutverkið sem hinn fúllyndi Carl Mørck [og] Fares Fares er góður í hlutverki Assads,“ segir m.a. í dómi um spennumyndina Konan í búrinu sem byggist á samnefndri bók Jussis Adler-Olsens.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Mikkel Nørgaard. Handrit: Nikolaj Arcel, byggt á skáldsögu eftir Jussi Adler-Olsen. Aðalleikarar: Nikolaj Lie Kaas, Fares Fares, Sonja Richter, Peter Plaugborg, Mikkel Boe Følsgaard, Troels Lyby og Søren Pilmark. Danmörk/Svíþjóð/Þýskaland 2013. 97 mín.

Spennubækur danska rithöfundarins Jussis Adler-Olsens um rannsóknarlögreglumanninn Carl Mørck og rannsóknardeildina Q hafa farið sigurför um heiminn á seinustu misserum. Nú þegar hafa bækurnar komið út í hátt í þrjátíu löndum og fljótlega bætast nær tíu málsvæði við. Það var því aðeins tímaspursmál hvenær þær yrðu myndaðar. Kvikmyndin Konan í búrinu er byggð á fyrstu bókinni í Mørck-seríunni sem út kom árið 2007, en þegar eru komnar út fimm bækur á dönsku af þeim tíu sem höfundur ætlar sér í þessari seríu. Samkvæmt upplýsingum úr dönskum fjölmiðlum eru upptökur hafnar á Veiðimönnunum en ætlunin mun vera að kvikmynda fyrstu fjórar bækurnar með sömu aðalleikurum undir stjórn sama leikstjóra.

Þegar myndin hefst er Carl Mørck (Nikolaj Lie Kaas) nýsnúinn aftur til starfa eftir að hafa orðið fyrir fólskulegri skotárás ásamt félögum sínum. Þar sem enginn innan rannsóknarlögreglunnar vill lengur vinna með Mørck ákveður Marcus Jacobsen (Søren Pilmark), yfirmaður hans, að Mørck skuli settur yfir nýstofnaða Q-deild. Þar er honum ætlað að yfirfara og sortera gömul lögreglumál. Mørck er afar ósáttur við þessa skipan mála og ekki hýrnar yfir honum þegar Assad (Fares Fares) er gerður að samstarfsfélaga hans. Fljótlega fær Mørck augastað á máli stjórnmálakonunnar Merete Lynggaard (Sonja Richter), sem hvarf sporlaust fimm árum áður í ferjusiglingu með heilasködduðum bróður sínum, Uffe Lynggaard (Mikkel Boe Følsgaard). Í trássi við fyrirmæli yfirboðara sinna fara Mørck og Assad að rannsaka hvarf hennar af fullum krafti. Eftir því sem rannsókninni vindur fram fá áhorfendur innsýn í málið í formi endurlita.

Fljótlega verður ljóst að Merete var rænt og hún lokuð inni án þess að hún, eða áhorfendur, viti hvers vegna. Stór hluti bókarinnar miðlar samskiptum Merete við kvalara sinn og baráttu hennar við að halda sönsum í einangrun sinni. Rödd hennar verður fyrir allharkalegum niðurskurði af hendi handritshöfundar sem velur eðlilega að fókúsera á rannsóknina sjálfa, enda er það drifkraftur myndarinnar. Fyrir vikið verður Merete aðeins enn ein þjáða konan í heimi spennumynda í stað þess að vera sá töffari sem bókin lýsir. Sonja Richter skilar sínu hlutverki mjög vel innan þess ramma sem lagt er upp með og mun tannpínuatriðið seint líða úr minni undirritaðrar.

Að öðru leyti kemst handritshöfundurinn Nikolaj Arcel býsna vel frá sínu. Hann velur m.a. að sleppa næstum öllu er snýr að persónulegu lífi Mørcks og er það til bóta. Myndin fer hægt af stað, en nær góðu tempói eftir því sem á líður, þótt hún nái ekki sama spennustigi og bókin býr yfir. Hnyttin tilsvör fá meira vægi í seinni hluta myndarinnar, en myndin hefði örugglega grætt á enn meiri írónískum húmor. Sem betur fer er myndin hins vegar ekki eins viðbjóðsleg og bókin.

Allt yfirbragðið er bæði drungalegt og dökkt, en lítið fer fyrir hvers kyns litum. Augljóst er að leikstjórinn Mikkel Nørgaard hefur viljað fanga einhvers konar tímaleysi í búningum og umgjörð allri. Að sama skapi fer lítið fyrir dönskum áhrifum, því aðeins tungumálið sem leikið er á gefur til kynna að sagan gerist í Danmörku. Mikið er notast við þrönga ramma í kvikmyndatökunni, líka í senum utan búrsins, sem býr til viðeigandi innilokunarkennd sem orkar sterkt á áhorfendur.

Nikolaj Lie Kaas smellpassar í hlutverkið sem hinn fúllyndi Carl Mørck, sem er að mörgu leyti algjörlega óþolandi. Kaas býr yfir nauðsynlegum sjarma til þess að skila hlutverki Mørcks sem skyldi. Fares Fares er góður í hlutverki Assads, en handritshöfundur sleppir öllum vangaveltum um óljósa og jafnvel skuggalega fortíð hans. Mikkel Boe Følsgaard skilar sínu vel í hlutverki bróðurins og Peter Plaugborg er illskan uppmáluð sem hinn siðblindi Lasse. Konan í búrinu er sem spennumynd ágætis afþreying, vel leikin og hefur útlitið með sér.

Silja Björk Huldudóttir

Höf.: Silja Björk Huldudóttir