Skafti Harðarson
Skafti Harðarson
Eftir Skafta Harðarson: "Fyrir heimili með tvær fyrirvinnur og heildarlaun samtals upp á 900 þúsund á mánuði þýddi þessi hækkun aukin útgjöld upp á rétt um 95 þúsund krónur á ári."

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor verður haldið 9. nóvember. Lítið fer fyrir þessu prófkjöri og líklegt að þegar rólegt er í kringum prófkjör verði það þeir sem fyrir sitja sem helst hagnast. En er ástæða til að verðlauna alla sitjandi bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á Nesinu?

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar fór mikið fyrir því gríni sem frambjóðendur Besta flokksins gerðu að kosningaloforðum almennt. En þegar upp er staðið hafa þeir þó líklega staðið við sín helstu loforð. Þeir hafa tryggt borgarstjóranum þægilega innivinnu og ráðið aðra til að sinna raunverulegu starfi hans, þeir hafa komið vinum sínum að eftir því sem hægt hefur verið, og gert margt það sem þeim og vinum þeirra þykir skemmtilegt. Meðferð skattfjár er hins vegar ekki til fyrirmyndar, borgin er illa rekin og gríðarlega skuldsett þrátt fyrir að allir tekjustofnar séu nýttir til hins ýtrasta. Það fer lítið fyrir meintri hagkvæmni stærðarinnar. En Besti flokkurinn lofaði heldur engu um betri rekstur, betri skóla eða betri borg, bara skemmtilegri fyrir sig og sína.

Skattar ekki hækkaðir

Á Seltjarnarnesi er traustur meirihluti Sjálfstæðisflokksins, sem örugglega ætlaðist til að kosningaloforð hans yrðu tekin alvarlega. Þannig sagði núverandi bæjarstjóri, Ásgerður Halldórsdóttir, fyrir prófkjör 2009: „Einu vil ég þó lofa strax. Ég mun leggja til við bæjarstjórn að útsvar og fasteignagjöld verði óbreytt, þegar fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 verður kynnt. Skattpíning vinstriflokkanna í landinu verður nægur kross fyrir okkur öll að bera þótt við sjálfstæðismenn á Nesinu bætum þar ekki við, heldur stöndum fast á okkar gömlu stefnu sem fyrr. Ég mun því sem forystumaður ekki hækka skatta eða fara í nýframkvæmdir eins og nú háttar.“

Undir þetta tóku núverandi bæjarfulltrúar, samstarfsmenn hennar, með setningum eins og þessum fyrir prófkjör 2009, spurðir um helstu áherslur þeirra: „Vel rekið bæjarfélag og áfram lágar álögur.“„Álögum verði haldið í lágmarki og styrk fjármálastjórn bæjarins.“ „Stuðla að lágum álögum á íbúa.“

Rúmu ári síðar var útsvarið á Seltjarnarnesi hækkað um 7,5%. Fyrir heimili með tvær fyrirvinnur og heildarlaun samtals upp á 900 þúsund á mánuði þýddi þessi hækkun aukin útgjöld upp á rétt um 95 þúsund krónur á ári. Í viðtali við mbl.is 7. desember 2010 fannst bæjarstjóranum ekki mikið til koma: „miðað við stöðu bæjarins og fallandi tekjur, þá stóðum við bara frammi fyrir því að þurfa að hækka útsvarið“. En hvað um fólkið, skattgreiðendur, sem einnig bjuggu við skertar tekjur í kjölfar bankahrunsins, hærra vöruverð og hærri skatta ríkisins? Það er nógu slæmt þegar talsmenn vinstriflokkanna telja að hið opinbera eigi ríkari rétt til tekna fólks en það sjálft, enn verra þegar það eru forystumenn Sjálfstæðisflokksins.

Samstarfsmenn Ásgerðar í bæjarstjórn hafa allir fylgt henni í þessari skattastefnu með einni undantekningu, en Guðmundur Magnússon mótmælti hækkuninni.

Samstillt átak um hærri skatta

Að loknu fyrsta fjárhagsárinu eftir skattahækkunina skrifaði bæjarstjórinn í Morgunblaðið til að hrósa sér og sínum: „Með samstilltu átaki bæjarstjórnar og starfsmanna Seltjarnarnesbæjar varð rekstur og afkoma árið 2011 mun betri en árið á undan. Reikningar bæjarins fyrir nýliðið ár gera ráð fyrir afgangi upp á 93 m. kr. en sambærileg tala fyrir árið 2010 var 1 m. kr.“ Samstillt átak skattgreiðenda á Seltjarnarnesi er hér ekki þakkað, aðeins þeim sem við fénu tóku og ráðstöfuðu.

Það eru stjórnmálamenn samtímans og svikin loforð þeirra sem hafa skapað Besta flokkinn. Þeir hafa skapað þá stemningu að engu skipti hvað við kjósum, útkoman sé alltaf sú sama. Sami grautur í sömu skál. En þannig þarf það ekki að vera.

Í prófkjörinu á Seltjarnarnesi þarf að veita þeim ráðningu sem engin úrræði sáu önnur en skattahækkun til að ráða við rekstur bæjarins. Og sömu aðilar ganga nú til kosninga með loforð um framkvæmdir upp á vel yfir milljarð króna sem engin leið verður að fjármagna nema með hærra útsvari og miklum lántökum. Vonandi að þeirri vegferð ljúki ekki með þvingaðri sameiningu við fátæka frændann þegar í óefni verður komið.

Auknar álögur eru ekki álög, heldur niðurstaða þess sem við sjálf kjósum yfir okkur.

Höfundur er rekstrarstjóri.

Höf.: Skafta Harðarson