Nú hefurðu ekki KR til að skrifa um,“ sagði einn samstarfsmaður Víkverja með glettni í röddinni. Einhverjum þeirra hefur kannski þótt komið fullmikið af „Stórveldinu“ eftir mikla sigurgöngu þess í sumar.

Nú hefurðu ekki KR til að skrifa um,“ sagði einn samstarfsmaður Víkverja með glettni í röddinni. Einhverjum þeirra hefur kannski þótt komið fullmikið af „Stórveldinu“ eftir mikla sigurgöngu þess í sumar. Víkverji neitar raunar allri sök og kannast ekkert við það að Knattspyrnufélagið sem stendur hjarta hans næst hafi nokkurn tímann verið viðfangsefni Víkverja. Nema kannski þarna einu sinni. Eða tvisvar.

En nú er Víkverji í vanda, því að íslenska knattspyrnusumarið er liðið og hinn íslenski knattspyrnuvetur genginn í garð. Og hvað er þá til ráða? Víkverji gæti auðvitað alltaf farið að fylgjast með enska boltanum. Gallinn er sá að hann hefur aldrei, þrátt fyrir að hafa einu sinni búið í því ágæta landi, haft jafnmikla ástríðu fyrir enska boltanum og þeim íslenska. Það hjálpar ekki til að sir Alex er hættur og júnæted komið í hóp meðalskussa.

Grínistinn Jerry Seinfeld gerði þessa hollustu við íþróttalið einu sinni að umtalsefni. Honum þótti það markvert hvernig fólk gæti stutt íþróttamann í gegnum súrt og sætt, en svo um leið og hann gengi til liðs við annað lið væri baulað á hann. Niðurstaða Seinfelds var sú að í raun væri ekki verið að styðja liðið heldur fötin. „Mín föt eru betri en þín!“ Samkvæmt því sannaðist í sumar að það er toppurinn að vera í teinóttu.

Víkverji vonast að sjálfsögðu til þess að bláu fötin sigri þau rauðköflóttu í umspilsleikjunum tveimur í nóvember. Það verður forvitnilegt að mæta eða horfa í sjónvarpi á mótsleiki í íslenskum fótbolta í nóvember. Öllu er tjaldað til svo tryggja megi að völlurinn okkar verði leikfær, fari svo að hið fræga íslenska vetrarveður láti á sér kræla. Dúkurinn sá mun vera of dýr til að kaupa, en hví eru ekki vellir hérlendis upphitaðir?