Marta Guðjónsdóttir
Marta Guðjónsdóttir
Eftir Mörtu Guðjónsdóttur: "Í fyrsta sinn í sögu Reykjavíkur telja borgaryfirvöld það hlutverk sitt að hægja á allri umferð í borginni, óháð aðstæðum."

Skilvirk og örugg samgöngukerfi eru samfélögum álíka mikilvæg og gott æðakerfi er heilbrigðum líkama. Arðsemi þeirra felst í öflugu atvinnulífi og bættum lífskjörum. Það er engin tilviljun að framsækin yfirvöld stuðla að bættum samgöngum. Það er heldur engin tilviljun að hernaður gegn samfélögum hefst yfirleitt á því að lama samgöngukerfi með því að sprengja upp brýr og flugvelli.

Ég ætla ekki að líkja borgaryfirvöldum við innrásarher. En stefna þeirra í samgöngumálum er byggð á misskilningi og getur orðið býsna dýrkeypt nái hún fram að ganga á næstu árum. Þau hyggjast lama Reykjavíkurflugvöll innan þriggja ára þó að hann sé álíka mikilvæg samgöngumiðstöð fyrir Reykjavík og landsbyggðina og Victoria Station er í London og Hovedbanegården í Kaupmannahöfn.

Samgönguframkvæmdir frystar

En það eru fleiri járn í eldinum. Í fyrsta sinn í sögu Reykjavíkur telja borgaryfirvöld það hlutverk sitt að hægja á allri umferð í borginni, óháð aðstæðum. Að þessu er unnið markvisst með tvennum hætti. Tímamótasamningur síðustu ríkisstjórnar og Reykjavíkurborgar frá 2012, afsalar Reykjavíkurborg þeim rétti að ríkisvaldið fjármagni uppbyggingu og meiriháttar viðhald á stofnbrautum borgarinnar næstu tíu árin. Það þarf enga sérfræðinga til að sjá fyrir það öngþveiti sem slíkt aðgerðarleysi skapar í umferðar- og öryggismálum á næstu misserum, hvað þá eftir tæpan áratug.

Götuföndur í Reykjavík

Á undanförnum mánuðum hafa borgaryfirvöld svo bætt gráu ofan á svart með margvíslegu og misbroslegu götuföndri sem miðar að því að hefta umferð vélknúinna ökutækja. Hér og þar er verið að þrengja umferðargötur, planta niður smáfuglahúsum og merkingarlausum veifum, fjölga eða færa til rangt merktar eða ómerktar gangbrautir og færa strætóstoppistöðvar inn á almennar akreinar. Þessa má sjá stað á Hofsvallagötu, Snorrabraut og í Borgartúni. Og þetta er aðeins forsmekkurinn. Nú stendur til að breyta Suðurlandsbrautinni í sveitaveg, með byggð að norðanverðu, eina akrein í hvora átt og tilheyrandi þrengingum.

Samgöngustefna í hnotskurn

Samgöngupólitík borgaryfirvalda er í stuttu máli eftirfarandi:

Mikil umferð einkabíla veldur alvarlegum umferðarslysum, eykur hávaða- og loftmengun og er plássfrek. Þess vegna þarf að draga úr henni. Ekki er hægt með góðu móti að gera einkabíla upptæka. En það er hægt að draga úr notagildi þeirra með breytingum á gatnakerfinu. Með því að hefta umferðina er hægt að lengja ferðatíma fólks og að þvinga það þannig til að velja annan ferðamáta.

Þetta er fráleit áætlun. Hér er ekki í lítið ráðist. Samkvæmt ferðavenjukönnunum Gallup fóru Reykvíkingar 75,3% ferða sinna á einkabíl árið 2002 og 76,4% árið 2011. Hversu mikið þarf að lengja ferðatíma okkar svo þessar tölur lækki umtalsvert? Og hvað kostar að ná slíku markmiði borgarstjónar, ef undan eru skilin skemmdarverkin á gatnakerfinu?

Tími = lífskjör og fjármunir

Ef breytingar á samgöngukerfi verða til þess að einstaklingar verða að meðaltali 15 mínútum lengur frá heimili sínu á vinnustað og sömuleiðis heim á leið, þurfa þessir sömu einstaklingar að greiða þann kostnað með frítíma sínum sem nemur tveimur og hálfri klukkustund á viku, eða tæpum fimm og hálfum sólarhring á ári. Það jafngildir átta stunda vinnudögum í rúmar þrjár vikur á ári. Samfélög og einstaklinga munar um minna.

Unnið gegn eigin markmiðum

Ekki er þó allt upp talið. Samgöngustefna núverandi borgaryfirvalda mun viðhalda slysatíðni á fjölförnustu gatnamótum í stað þess að koma þar upp mislægum gatnamótum sem nánast útrýma slysum. Hún mun fjölga alvarlegum umferðarslysum með því að beina umferðinni af stofnbrautum og inn í íbúðahverfi. Hún mun viðhalda og stórauka hávaða- og loftmengun í rúmlega réttu hlutfalli við lengingu ferðatímans. Hún mun einnig auka eldsneytiskostnað í sama hlutfalli og hún mun koma í veg fyrir að við fjárfestum í skynsamlegum stofnbrautaframkvæmdum sem ættu annars að draga stofnbrautaumferð enn frekar frá nærumhverfi okkar.

Borgaryfirvöld hafa engan rétt á því að þvinga fólk til að breyta ferðamáta sínum. Þau hafa engan rétt á því að draga úr notagildi einkabíla borgarbúa og rýra þannig stórlega þá fjárfestingu sem felst í bifreiðaeign þeirra.

Með vanhugsaða hugmyndafræði að leiðarljósi eru þau beinlínis að vinna gegn yfirlýstum markmiðum sínum: Að fækka slysum og umferðaróhöppum, draga úr loft- og hávaðamengun, draga úr neikvæðum umhverfisþáttum umferðarinnar og stuðla að hagkvæmni og bættum lífskjörum.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Mörtu Guðjónsdóttur