Stundum eru engar takmarkanir á því hversu vel kröfuhöfum tekst að koma málstað sínum á framfæri. Þetta sást síðast þegar nýtt rit Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika kom út fyrir skemmstu.
Stundum eru engar takmarkanir á því hversu vel kröfuhöfum tekst að koma málstað sínum á framfæri. Þetta sást síðast þegar nýtt rit Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika kom út fyrir skemmstu. Þar segir um uppgjör föllnu bankanna: „Verði viðvarandi óvissa um framhald slitameðferðarinnar er hætta á að kröfur komist í eigu fjárfesta sem sérhæfa sig í endurheimtum eigna sem lagalegur ágreiningur er um.“

Fulltrúar kröfuhafa hafa lengi reynt að koma slíkum skilaboðum áleiðis; sé gengið of hart fram gegn hagsmunum kröfuhafa þá muni kröfuhafahópurinn í auknum mæli samanstanda af „alvöru hrægammasjóðum“ og Ísland gæti staðið frammi fyrir sömu örlögum og Argentína.

Þessi röksemdafærsla stenst enga skoðun. Í tilfelli Argentínu var um að ræða skuldbindingar ríkisins og greiðsluþrot á alþjóðlega útgefnum skuldabréfum. Slitameðferð föllnu bankanna varðar kröfur á gjaldþrota einkafyrirtæki undir íslenskri löggjöf. Hæstiréttur hefur staðfest að allar kröfur séu krónukröfur. Það liggur einnig fyrir að núverandi kröfuhafahópur hefur farið í fjölda mála fyrir dómstólum þar sem reynt hefur verið að hnekkja á aðgerðum yfirvalda frá bankahruni. Niðurstaðan hefur án undantekninga verið á einn veg: Kröfuhafar hafa tapað.

Eftir stendur að það er líklega einsdæmi á Vesturlöndum að jafn mikilvæg og valdamikil stofnun og Seðlabankinn, sem á að vera í bílstjórasætinu og knýja fram lausn sem tryggir ýtrustu þjóðarhagsmuni, eigi frumkvæði að því að taka óbeint undir innistæðulausar hótanir kröfuhafa.